Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 16:34:21 (4956)

1997-04-03 16:34:21# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[16:34]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það sé alveg skýrt af minni hálfu að ég tel að þessir raforkusamningar séu ekki að öllu leyti sambærilegir. Ég hef nokkuð eindregið tekið það fram að ég tel að raforkusamningurinn við járnblendifélagið sé góður, sérstaklega með hliðsjón af því að hann hækkar gamla samninginn verulega. Hins vegar tel ég að hitt málið sé allt með öðrum hætti og ég treysti mér ekki til þess á þessu stigi málsins að slá því föstu að hann dugi til að hægt sé að dæma hann hagstæðan fyrir land og þjóð. Þar inni í eru enn nokkur óvissuatriði sem ég mun a.m.k. áskilja mér og mínum þingflokki rétt til að verði skoðuð betur í nefnd áður en ég tek afstöðu til þeirra. Hæstv. forseti. Ég bað hér um orðið bara til að það væri skýrt að ég teldi að á þessum samningum væri nokkur munur.