Rafræn eignarskráning verðbréfa

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 17:15:26 (4961)

1997-04-03 17:15:26# 121. lþ. 98.7 fundur 474. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[17:15]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna í fyrsta lagi því að hæstv. ráðherra gat upplýst um þetta x sem á að vera 1/7 og er hægt að lesa það út með góðum vilja. Hins vegar vil ég líka lýsa yfir ánægju með útskýringar hans á ábyrgðarsjóðnum og þar sem hann vitnaði til Dana. Ég held að það sé mjög gott mál. Þegar ég ræddi hins vegar um að veita einkaleyfi þá tel ég samkeppni vitaskuld vera af hinu góða, en mér finnst fyllilega koma til álita að þetta fyrirtæki fái einkaleyfi, hvort það eru tvö ár, þrjú ár eða fjögur ár, meðan það er að fara af stað. Þetta er mjög sérstakt mál. Ég á ekki von á því að menn muni í sjálfu sér misnota þá aðstöðu sem verðbréfamiðstöðin muni hafa en það kemur þá í ljós. Þetta er hlutur sem menn verða að skoða í nefndinni.

Aðalástæðan fyrir því að ég stend hér upp er varðandi ósk ráðherra um að afgreiða málið í vor. Þetta er ekki svona einfalt, herra forseti. Þótt málið sé vel undirbúið, og ég dró einmitt fram kosti málsins og fagnaði því, þá er stutt til þingloka. Lögin eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Það liggja fyrir fjölmörg þingmál sem ríkisstjórnin, og þar með talinn hæstv. ráðherra, hefur lagt áherslu á. Sum þeirra verða beinlínis að afgreiðast. Ég segi þetta í góðri trú og með góðvilja gagnvart málinu. Hvort menn eiga að reyna að finna því annan farveg því það er ekki hægt að segja að öll mál eigi að afgreiðast hér með hraði. Þetta er ekki spurning um vilja nefndarinnar. Hv. efh.- viðskn., sem ég á sæti í alveg eins og hv. þm. Pétur Blöndal, vinnur dag og nótt við að greiða úr og fara yfir mál, m.a. hæstv. ríkisstjórnar, og það er okkar hlutverk en að bæta ofan á svona merkilegu máli og ætlast til að það sé afgreitt í vor hef ég nokkrar efasemdir um. En ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að hv. efh.- og viðskn. mun reyna að vinna að góðum málum eins og hún getur en það eru samt takmörk fyrir öllu, miðað við þær áætlanir sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með að hún vilji afgreiða fyrir vorið.