Vátryggingastarfsemi

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 17:19:12 (4963)

1997-04-03 17:19:12# 121. lþ. 98.8 fundur 485. mál: #A vátryggingastarfsemi# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[17:19]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

Ég mun fyrst fara nokkrum orðum almennt um frv.

Árið 1994 voru samþykkt ný lög um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994. Meginmarkmið þeirra laga var að lögfesta ákvæði sem Íslendingar höfðu skuldbundið sig með EES-samningnum til þess að taka í íslenska löggjöf. Lögin hafa nú verið í gildi vel á þriðja ár. Reynsla er komin á marga þætti laganna, auk þess sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur metið hvort ákvæði EES-samningsins á sviði skaðatrygginga hafi verið lögfest með réttum og fullnægjandi hætti.

Stofnunin sendi íslenskum stjórnvöldum athugasemdir í ágúst sl. eftir að sérfræðingar hennar höfðu farið yfir samanburðartöflur frá Vátryggingaeftirlitinu sem sýna hvar hvert einstakt ákvæði tilskipana um vátryggingar í EES-samningnum er að finna í íslenskum réttarheimildum. Eru í bréfi ESA tilgreind þau atriði er stofnunin telur að enn hafi ekki verið tekin upp í íslenskan rétt. Var strax brugðist við athugasemdum ESA og skipaði ég starfshóp til þess að ljúka aðlögun íslenskrar löggjafar á vátryggingasviði að EES-samningnum. Er frv. þetta árangur af starfi starfshópsins. Auk þess að semja frv. til þess að ljúka aðlögun íslensks réttar að ákvæðum tilskipana ESB um skaðatryggingar hefur starfshópurinn lagt til nokkrar breytingar á lögunum. Eru þessar helstar:

Í fyrsta lagi eru tekin upp ákvæði frv. sem flutt var á síðasta þingi um hæfisskilyrði en hlaut ekki afgreiðslu.

Í öðru lagi hefur sá kafli laganna sem fjallar um miðlun vátrygginga verið endurskoðaður samhliða endurskoðun á reglugerð um miðlun vátrygginga sem sérstök nefnd hefur unnið að.

Í þriðja lagi eru lagðar til fáeinar breytingar í frv. til þess að gera orðalag laganna skýrara.

Athugasemdir ESA kölluðu ekki allar á lagabreytingar. Unnt reyndist að bregðast við nokkrum þeirra með útgáfu reglugerða sem þegar er heimild fyrir í lögum. Varð það gert með útgáfu tveggja reglugerða er gefnar voru út síðla síðasta árs. Annars vegar um ársreikninga og samstæðureikninga líftryggingafélaga og hins vegar um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga. Þá er verið að leggja lokahönd á reglugerð um eignir sem telja má til gjaldþols vátryggingafélaga og útreikning lágmarksgjaldþols.

Mun ég nú, herra forseti, gera grein fyrir meginþáttum frv. en þeir eru:

starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES,

eftirlitshættir,

hæfisskilyrði,

vátryggingamiðlun,

aðrar breytingar.

Hér á eftir verður fjallað um hvern hinna fjögurra fyrsttöldu þátta fyrir sig í þeim mæli sem slíkar athugasemdir eiga ekki við einstakar greinar frv.

Vík ég þá fyrst að starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES-svæðisins.

Lög um vátryggingastarfsemi hafa að geyma ákvæði um eftirlit með útibúum frá félögum með aðalstöðvar utan EES. Lögfesta þarf tvær fráviksheimildir, annars vegar um eitt gjaldþolseftirlit fyrir öll útibú sama félags á EES og hins vegar um samninga sem gerðir kunna að verða við ríki utan EES um gagnkvæma viðurkenningu eftirlits með vátryggingastarfsemi. Fjallað er um fráviksheimildirnar í 16.--19. gr. frv.

Samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi verða vátryggingafélög með aðalstöðvar utan EES að setja upp útibú á Íslandi undir íslensku eftirliti hyggist þau stunda vátryggingastarfsemi hér. Þau njóta ekki frelsis til þjónustu án starfsstöðvar með sama hætti og félög með aðalstöðvar í öðru EES-ríki, en það frelsi byggist á samræmdum eftirlitsháttum og gagnkvæmu trausti til eftirlitsstjórnvalda. Í lögunum eru einnig ákvæði um skilyrði sem þessi útibú verða að uppfylla.

Lagt er til að í samræmi við ákvæði EES-samningsins verði frávíkjanleg sú meginregla að stofna þurfi útibú sem uppfylli tiltekin skilyrði og að heimilt verði að kveða á um aðrar reglur í reglugerð til samræmis við samninga sem gerðir kunna að vera við ríki utan EES. Slíkir samningar hafa á engan hátt verið undirbúnir en reglugerðarheimildin einfaldar að taka upp samstarf við t.d. Sviss með svipuðum hætti og samstarfið er innan EES varðandi starfsleyfi vátryggingafélaga og eftirlit með þeim. Slíkur samningur, ef gerður yrði, fengi þá meðferð sem gert er ráð fyrir um milliríkjasamninga en með breytingunni sem hér er lögð til þyrfti ekki að breyta lögum um vátryggingastarfsemi til þess að uppfylla hann.

Fjallað er um gjaldþol íslenskra vátryggingafélaga í 29.--33. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Ekki eru ákvæði um gjaldþol félaga frá öðrum aðildarríkjum enda er eftirlit með því alfarið á hendi heimaríkis. Gjaldþolsreglur þar eiga að vera hliðstæðar þeim sem gilda um íslensk félög. Starfsemi vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan EES hér á landi er viðfangsefni 71.--76. gr. laganna. Þar hafa íslensk stjórnvöld viðameira hlutverki að gegna en þegar félög frá aðildarríkjum EES eiga í hlut vegna þess að eftirlitshættir eru ekki samræmdir við þriðju ríki og eru m.a. gerðar sérstakar fjárhagskröfur um útibú þaðan.

Næst mun ég fjalla um þau ákvæði frv. sem snúa að eftirlitsháttum og þau atriði tengjast hinni svokölluðu BCCI-tilskipun.

Eftir að EES-samningurinn gekk í gildi hefur Evrópusambandið samþykkt tilskipun nr. 95/26/ESB, um breytingar á fjórum tilskipunum um vátryggingar og nokkrum öðrum tilskipunum á sviði fjármálaþjónustu. Miða breytingarnar að því að treysta eftirlit með þessari starfsemi. Þær eru gerðar í tilefni vandræða sem orðið hafa í samstæðum fjármálafyrirtækja, einkum var gjaldþrot BCCI-bankans hvati að þessum breytingum. Tilskipun þessi hefur í umræðu manna á meðal verið nefnd BCCI-tilskipunin.

Með tilskipuninni verða sams konar breytingar á eftirliti með öllum þeim sviðum sem EES-samningurinn flokkar undir fjármálaþjónustu, þ.e. vátryggingum, bankastarfsemi og verðbréfaþjónustu. Lögum um bankastarfsemi og verðbréfaviðskipti var breytt á síðasta þingi. Frv. gerir ráð fyrir að tilskipunin verði öll tekin efnislega inn í lögin um vátryggingastarfsemi eftir því sem við á. Helstu breytingar sem lagðar eru til eru:

1. Skilgreind eru náin tengsl vátryggingafélags við aðra. Það eru veikari tengsl en í t.d. félagasamstæðu og verður skylt að tilkynna þau án þess að því fylgi aðrar kvaðir.

2. Skipulag félagasamstæðu skal vera gagnsætt, meðal annars skulu raunverulegar aðalstöðvar hvers félags vera í sama landi og skráð skrifstofa þess.

3. Heimilað er að láta tilteknum aðila í té trúnaðarupplýsingar sé þess þörf vegna eftirlitsins.

4. Lögð er sú skylda á endurskoðendur að þeir láti vátryggingaeftirlitið vita að eigin frumkvæði um tiltekin atriði sem miður kunna að fara í starfsemi vátryggingafélags eða nátengdra fyrirtækja.

Opinbert eftirlit með vátryggingastarfsemi í þessu samhengi hefur það markmið að koma í veg fyrir gjaldþrot vátryggingafélaga sem skaðað gætu vátryggingataka eða þá sem rétt eiga á bótum. BCCI-málið beindi sjónum manna einkum að sviksamlegu athæfi stjórnenda og eigenda og er með þeim breytingum, sem hér eru lagðar til, verið að auka heimildir stjórnvalda til eftirlits með þeim.

Tilkynningarskylda er þegar í lögum um vátryggingastarfsemi um samstæður og virkan eignarhlut. Viðbótin varðar einungis önnur náin tengsl. Ekki er gert ráð fyrir að þessi ákvæði hafi teljandi áhrif á starf íslenskra stjórnvalda eða íslenskra vátryggingafélaga. Þau auka þó möguleika á eftirliti. Hið sama má segja um heimild einstakra stjórnvalda til þess að láta af hendi trúnaðarupplýsingar. Lagt er til að núverandi heimildir verði rýmkaðar en breytingin er léttvæg miðað við íslenskt umhverfi.

Ástæða er til að vekja athygli á fróðlegri samantekt í athugasemdum með frv. á tengslum vátryggingafélaga hér á landi. Samantektin var gerð áður en samið var um kaup Landsbanka Íslands á eignarhlut eignarhaldsfélags Brunabótafélagsins í Vátryggingafélagi Íslands.

Þá vík ég næst, herra forseti, að þeim ákvæðum frv. sem fjalla um hæfisskilyrði.

Lagðar eru til breytingar á hæfisskilyrðum þeim sem eru í lögunum þannig að þau verði hliðstæð hæfisskilyrðum í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996, og í lögum um verðbréfasjóði, nr. 10/1993, eins og þeim var breytt með lögum nr. 21/1996. Þessar tillögur eru, með einni breytingu, eins og frv. sem lagt var fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995. Breyting frá fyrra frv. felst í því að vanhæfi vegna dóms miðast við fimm ár en ekki þrjú. Þar var farið eftir breytingum á hliðstæðum ákvæðum í lögum um verðbréfaviðskipti sem gerðar voru í meðförum Alþingis.

[17:30]

Núgildandi ákvæði um fjárforræði þykja of ströng. Er því lagt til að reglum um fjárforræði stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, aðalumboðsmanna og vátryggingamiðlara sé breytt með hliðsjón af hlutafélagalöggjöf þeirri sem afgreidd var frá Alþingi í árslok 1994. Jafnframt eru gerðar nokkrar breytingar á öðrum hæfisskilyrðum og búsetuskilyrðum til samræmis við hlutafélagalöggjöfina en búsetuskilyrðin snerta m.a. EES-samninginn. Refsidóma\-ákvæði hlutafélagalöggjafarinnar er tekið upp í tengslum við hæfisskilyrði en tilvísun í löggjöf um vátryggingastarfsemi alls staðar bætt við.

Að lokum fer ég nokkrum orðum um þær breytingar á ákvæðum laganna um vátryggingamiðlun sem frv. gerir ráð fyrir.

Í 2., 4., 15. og 20.--25. gr. frv. er fjallað um atriði sem snerta miðlun vátrygginga og endurskoðuð hafa verið að fenginni reynslu. Við samningu ákvæðanna var m.a. tekið mið af af tilskipun ESB nr. 77/92, um umboðsmenn og vátryggingamiðlara, og tilmælum framkvæmdastjórnar ESB frá 18. desember 1991, um vátryggingamiðlara. Nýmæli er að hugtakið vátryggingamiðlari er skilgreint í 2. gr. frv. og er hugtakið þrengra en í núverandi gerð laganna. Gert er ráð fyrir að ákvæði um vátryggingamiðlara skv. 2. tölul. 1. mgr. 80. gr. gildandi laga falli brott.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til efh.- og viðskn. og það verði afgreitt á þessu þingi.