Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 17:41:35 (4967)

1997-04-03 17:41:35# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[17:41]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Eignarhald á auðlindum í jörðu hefur verið deilumál alla þessa öld. Allt frá því um síðustu aldamót hafa slík mál margoft komið til kasta Alþingis án þess þó að Alþingi hafi nokkurn tíma sett heildarlöggjöf um þessi mál. Þvert á móti hefur Alþingi valið þá leið að setja sérlög um sérstök verðmæti svo sem námalög sem upphaflega voru sett 1907, svo og jarðhitalög sem nú eru orkulög og þannig fjallað um afmarkaða þætti málsins en þó hvergi nærri alla.

Deilurnar alla þessa öld hafa snúist um það hverjir skulu teljast eiga þessi verðmæti, auðlindir í jörðu og á, hvort það eigi að vera einstakir landeigendur fortakslaust eða þjóðin í heild. Frv. var fyrst lagt fram um þessi mál árið 1905 og var þá ekki útrætt og síðan aftur árið 1907. Í báðum tilvikum var miðað við þá meginreglu að íslenska þjóðin ætti í því tilviki námuréttindi, en eins og ég sagði áðan hefur aldrei verið sett heildarlöggjöf um eignarhald á auðlindum í jörðu heldur rætt um málin afmarkað hvert fyrir sig. Þetta var sem sé meginefni frv. árið 1905 sem endurflutt var 1907, að meginreglan ætti að vera sú að það væri íslenska þjóðin sem ætti námuréttindi.

Meiri hluti þingmanna hafnaði því í lagasetningu og hélt fram rétti landeigenda. Þessi réttindi landeigenda hafa verið nokkuð takmörkuð síðan, bæði með námalögunum sem sett voru 1973 og í III. kafla orkulaga 1967, en meginreglan er enn sú að réttindi landeigenda eru þar ríkjandi þó að þeim hafi verið nokkur takmörk sett.

Sömu deilur og áttu sér stað um námuréttindin hafa átt sér stað um eignarhald á fossum eða með öðrum orðum um virkjanaréttindi. Fossanefndin sem skilaði áliti árið 1907 skiptist þannig í meiri og minni hluta. Meiri hluti nefndarinnar var fylgjandi þjóðareign á fossum, þ.e. á virkjunarréttindum en minni hlutinn hélt fram rétti landeigenda. Þegar til kasta þingsins kom og vatnalög voru síðan sett, sem ekki var fyrr en árið 1923, þá var það stefna minni hlutans sem varð ofan á, þ.e. réttur landeigenda.

Enn hafa sömu átök átt sér stað um jarðhitaréttindi. Að því verki hafa ýmsir mætir menn komið, m.a. Bjarni heitinn Benediktsson fyrrv. forsrh., en hann var einn af þeim sem voru þeirrar skoðunar að jarðhiti djúpt í jörð, þ.e. í tillögu hans var gert ráð fyrir jarðhita sem bora þyrfti meira en 10 metra eftir, öðru nafni djúphiti, ætti að vera eign þjóðarinnar. Á þessa skoðun hins merka stjórnmálamanns féllst Alþingi hins vegar ekki og samþykkti ekki tillögu hans í þá veru.

Enn var gerð tilraun árið 1957 þegar lagt var fram stjfrv. á Alþingi um jarðhitamál, en í því frv. var djúphiti skilgreindur sem hiti neðan 100 metra dýpis og samkvæmt frv. átti hiti neðan 100 metra dýpis að teljast fortakslaust eign þjóðarinnar. Það frv. varð ekki útrætt.

Enn komu málin fyrir Alþingi þegar frv. að núgildandi orkulögum var lagt fram árið 1966, en við afgreiðslu þess frv. var m.a. felld brtt. um að djúphiti skyldi teljast eign þjóðarinnar. Síðan hafa oft verið lögð fram þingmannafrumvörp og stjórnarfrumvörp um sambærileg efni og má þar t.d. minna þáltill. Braga Sigurjónssonar og annarra þingmanna Alþfl. um þjóðareign á djúphita, afréttarlöndum og almenningum, en tillaga um það efni var fyrst flutt af Braga Sigurjónssyni, ef ég man rétt, árið 1971. Þessar tillögur hafa aldrei verið samþykktar né heldur tillögur þingmanna Alþb. sem þeir hafa flutt ítrekað og ganga í mjög svipaðar áttir.

Hluti af þessari deilu um eignarhald á auðlindum í jörðu eru einnig hvar mörk eignarréttar, einkaeignarréttar og almenningseignarréttar skuli dregin. Þau mörk eru mjög óljós eins og komið hefur fram a.m.k. þrívegis í dómum Hæstaréttar. Fyrst var það dómsmál sem var fyrir Hæstarétti árið 1955 um eignarrétt á Landmannaafrétti. Aðliggjandi hreppar kröfðust þá eignarréttar á Landmannaafrétti og lögðu fram afsal er varðaði slíkan rétt máli sínu máli til stuðnings. Niðurstaða Hæstaréttar varð sú að aðliggjandi hreppar töldust ekki fara með eignarrétt á afréttinum. Hins vegar ættu íbúar þeirra sameiginleg veiðiréttindi þar en ekki önnur réttindi. Ekki var með þeim dómi skorið úr um hver ætti þá þau landréttindi sem aðliggjandi hreppar og íbúar töldust ekki eiga. Ef slík niðurstaða hefði orðið fyrir hæstarétti í Noregi hefði sú almenna regla gilt að það sem enginn á það á kóngurinn, með öðrum orðum, það sem engin telst eiga eigi þá ríkið. Slík regla gildir ekki hér á Íslandi, því miður, þannig að dómur Hæstaréttar í málinu um eignarrétt á Landmannaafrétti árið 1955 lét þar við sitja að aðliggjandi hreppar ættu ekki þennan eignarrétt, en kvað ekki upp úr um það hver skyldi þá með eignarréttarmálin fara.

Seinni dómur Hæstaréttar fjallaði um eignarrétt að Nýjabæjarafrétti. Héraðsdómur hafði þegar kveðið á um að eignarréttur að Nýjabæjarafrétti skyldi falla til Skagfirðinga, enda lögðu þeir fram yfirlýsingar í afsölum um að þessi eignarréttur hefði verið keyptur. Niðurstaða Hæstaréttar varð hins vegar sú að yfirlýsingar í afsölum nægðu ekki væru þær ekki studdar öðrum gögnum sem ekki var og var því hvorugum aðila dæmdur eignarrétturinn, hvorki ríkinu né Skagfirðingum og er því með öllu óljóst hver fer með eignarréttindi að Nýjabæjarafrétti.

Þriðji og síðasti dómur Hæstaréttar um þessi mál varðar eignarréttarkröfu ríkisins að Landmannaafrétti, en í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar, sem ég gat hér áðan frá 1955 um eignarrétt að Landmannaafrétti, þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að aðliggjandi hreppar færu ekki með þann eignarrétt hóf ríkið mál þar sem það krafðist þess að eignarrétturinn yrði dæmdur ríkinu. Hæstiréttur kvað upp úr um það í dómi um eignarrétt á Landmannaafrétti árið 1981 og niðurstaða hans varð enn sú að enginn gæti talist fara með þessi eignarréttindi en jafnframt kallaði dómurinn eftir lagasetningu Alþingis um þau efni og benti á að sá eini sem gæti skorið úr um þessi mál væri Alþingi sjálft með lagasetningu. Sú lagasetning hefur aldrei náð fram að ganga. Nefnd var hins vegar skipuð árið 1984 í framhaldi af þessum niðurstöðum Hæstaréttar til þess að semja frv. sem tæki af öll tvímæli í þeim efnum. Nefndin skilaði slíku frv. árið 1993, en það frv. var aldrei flutt, enda náðist ekki samkomulag milli þáverandi stjórnarflokka um að flytja frv. eins og það kom frá nefndinni.

Aðstæður hafa auðvitað mikið breyst frá því að þessar deilur vöknuðu í upphafi þessarar aldar. Einna mesta breytingin á aðstæðum hefur orðið nú og er í þann veginn að verða. Með aðildinni að hinu Evrópska efnahagssvæði hafa fjárfestingar útlendra aðila á hinu Evrópska efnahagssvæði verið heimilaðar til jafns við fjárfestingar íslenskra aðila og fyrirtækja í öllum orkuvinnslufyrirtækjum í landinu. Þetta gekk í gildi um næstsíðustu áramót þannig að í tæplega eitt og hálft ár hafa þau ákvæði verið í gildi að allir á EES-svæðinu eiga jafnan rétt og Íslendingar til þess að festa kaup á orkuvinnslufyrirtækjum. En ekki nóg með það, heldur var hinn 20. desember sl. samþykkt tilskipun á vegum Evrópusambandsins þess efnis að fyrir árið 1999 skyldi komið á sambærilegt jafnrétti hvað varðar orkuvinnsluna sjálfa, með öðrum orðum væri ekki lengur hægt að mismuna innlendum og erlendum aðilum varðandi réttindin til að virkja sé tekin ákvörðun um virkjun, t.d. á Íslandi. Þessar breytingar þýða að að öllu óbreyttu er veruleg hætta á því að útlendingar eignist beint eða óbeint þær auðlindir Íslands sem enn eru að mestu ónýttar, þ.e. orku fallvatna og jarðhita. Þessar nýju aðstæður gera það nauðsynlegt að taka af öll tvímæli í lagasetningu um hver telst eiga þessi réttindi, þ.e. bæði virkjunarrétt vatnsfalla og á auðlindum í jörðu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, sem við tók árið 1991, var m.a. fjallað sérstaklega um þessi mál. Í þeirri stefnu og starfsáætlun segir svo í kaflanum um iðnaðar- og orkumál á bls. 34, með leyfi forseta:

,,Lagt verður fram frv. um eignarhald á orkulindum, afréttum og almenningum á 115. löggjafarþingi. Þar verður skilgreint hvaða réttur til náttúruauðlinda landsins skuli fylgja bújörðum og öðrum landareignum og hvað skuli teljast almannaeign. Í framhaldi af starfi nefndar sem hefur það hlutverk að skýra og skilgreina mörk eignarlands og almenninga verður einnig sett löggjöf um það efni.``

Þrátt fyrir að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi með þessum hætti skuldbundið sig til þess að leggja slík frumvörp fram í valdatíð sinni þá varð aldrei af því. Ástæðan var sú að aldrei náðist samkomulag við Sjálfstfl. um að leggja slíkt mál fyrir á Alþingi þrátt fyrir þær skuldbindingar sem fólust í stefnu og starfsáætlun þessarar ríkisstjórnar. Fyrst strandaði á því að aldrei var fallist á niðurstöðu nefndarinnar, sem skipuð var 1984 og skilaði áliti 1993, af fulltrúum Sjálfstfl. í þáv. ríkisstjórn og byggðu þeir andstöðu sína á þeim grunni að ákvæði í frumvarpsdrögum eins og nefndin lagði þau fram væru brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrár. Unnið var að því að mæta þeirri gagnrýni í iðnrn. fyrir tilverknað ráðherra Alþfl. tveggja sem þar sátu hvor fram af öðrum og voru samin ný frumvörp um eignarhald á auðlindum í jörðu og um virkjanaréttindi fallvatna og valinkunnir lögfræðingar fengnir til þess að svara þeirri gagnrýni að eins og frumvörpin voru í upprunalegri mynd stríddu þau gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um eignarréttindi. Þetta var gert með því að inn í hin upphaflegu frumvörp voru teknir nýir kaflar um sérstök eignarnáms- og bótaákvæði en þrátt fyrir það tókst ekki að leysa þann ágreining sem uppi var á milli stjórnarflokkanna þannig að frumvörpin fengust aldrei flutt sem stjórnarfrumvörp.

Ágreiningurinn um hvort ákvæði eins og þau sem í frumvörpunum tveimur felast sem ég mæli fyrir gangi í berhögg við stjórnarskrá eða ekki verður ekki leystur nema fyrir tilstuðlan Alþingis og þá væntanlega dómstólameðferð í framhaldi af því ef menn telja enn vafa á leika. Því er nauðsynlegt að Alþingi skeri hér úr með lagasetningu þannig að a.m.k. vanti ekki atbeina Alþingis til þess að leysa úr þessum deilumálum.

Frumvörp þau sem hér eru flutt eru að mestu leyti eins og frá þeim var gengið í iðnrn. í minni tíð þó svo að nokkrar smávægilegar breytingar hafi verið gerðar á þeim texta áður en hann var endanlega lagður fram. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að látið sé reyna á afstöðu Alþingis jafnvel þó að skiptar skoðanir verði áfram meðal lögfræðinga um hvort frv. eins og það er nú úr garði gert sé í samræmi við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Við teljum löngu tímabært að í lögum sé skorið úr um hvar mörkin séu milli einkaeignarréttar og almenningseignar á landgæðum, svo sem á auðlindum í jörðu og virkjunarrétti jarðvarma og fallvatna. Við flutningsmenn erum þeirrar skoðunar að flestir landsmenn telji að slíkur eignarréttur eigi að vera í höndum þjóðarheildarinnar nema annað hafi ótvírætt verið ákveðið og að slík eignarréttarmörk séu skýrt ákveðin í lögum áður en gera megi ráð fyrir því að viðskipti með land og landgæði milli lögaðila stóraukist frá því sem verið hefur.

Við viljum að eignarhald á auðlindum eins og námum, jarðhita og orku fallvatna verði í höndum íslensku þjóðarinnar og við sjáum ekki betri leið til að tryggja það en með samþykki frumvarpa þeirra sem hér eru flutt. Hins vegar þykir okkur eðlilegt að þar sem slík réttindi eru nú ótvírætt í höndum landeigenda verði svo áfram og þurfi að nýta slíkar auðlindir í eigu einstaklinga í þágu heildarinnar komi eðlilegar bætur fyrir sem miðist þá við sannanlegt tjón sem landeigandi kann að verða fyrir og er gert ráð fyrir því í frumvörpunum báðum að svo sé.

Virkjunarréttarfrv. er með sama hætti, að segja má, það sem ríkti í afstöðu bæði Alþfl. og Alþb. og það sem gert var ráð fyrir í tillögum nefndarinnar sem skipuð var 1984. Meginatriði þess eru enn fremur sett fram í frv. um virkjunarrétt fallvatna á þskj. 564. Meginefni frv. er að ákveða með skýrum hætti að ríkið hafi umráð á hagnýtingarrétti yfir orku allra vatnsfalla utan afmarkaðra landa sem háð eru einkaeignarrétti, þ.e. orku vatnsfalla á afréttum og almenningum sem ekki eru í einkaeign, burt séð frá beitar- og veiðiréttindum annarra aðila á sömu afréttum. Núgildandi takmörkunum á virkjunarrétti vatnsfalla er hins vegar haldið og í 11. gr. frv. er lagt til að lögfest verði ákvæði um bætur til landeiganda sem land á að vatnsfalli sem heimilað hefur verið að virkja. Skulu bæturnar miðast við sannanlegt tjón landeigandans, þar á meðal missi réttar hans til að virkja vatnsfallið til allt að 200 kwst. raforkuframleiðslu ef um slíkt er að ræða, en ekki um bætur umfram það.

Tíminn leyfir því miður ekki nákvæma yfirferð yfir þessa umfangsmiklu frumvörp, en ég vil þó vitna í nokkur atriði í greinargerð frumvarpanna sem sýna betur hver eru meginstefnumál í þeim hvoru fyrir sig. Ef við tökum fyrst virkjunarréttarfrv. þá vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að frv. kveður ótvírætt á um að réttur til umráða og hagnýtingar á orku íslenskra fallvatna utan eignarlanda sem háð eru einkaeignarrétti séu í höndum ríkisins. Í frv. er því sem sé slegið föstu að ríkið hafi þann rétt á almenningum og afréttum þótt aðrir aðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi, svo sem beitarrétt eða rétt til silungsveiða.

[18:00]

Þá skal tekið fram að ekki er heldur ætlunin með frumvarpi þessu að fella úr gildi heimildir sem Alþingi hefur þegar veitt til virkjunar fallvatna en ekki hafa verið nýttar þegar lögin taka gildi. Er það áréttað í lok 1. mgr.

Í 2. mgr. 2. gr. er lagt til ákvæði sem skilyrðir framsal virkjunarleyfis samþykki ráðherra og er það eðlilegt í ljósi þess að ráðuneyti og stofnanir þess hafa yfirsýn yfir orkumarkaðinn.

Þá er því einnig slegið föstu í 3. gr. frv. að landeigendur hafi áfram heimild til þess að nýta allt að 200 kw. afl í þeim vatnsföllum sem um land þeirra renna án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi frá ráðherra. Ákvæði þetta samsvarar ákvæðum í núgildandi vatnalögum og 10. gr. orkulaga frá 1967. Þá er gert ráð fyrir því einnig í 3. gr. að landeigendur geti ekki aðskilið þennan rétt frá landareign sinni, t.d. selt hann sérstaklega.

Þá er það nýmæli í þessu frv. um virkjunarrétt vatnsvalla að við útgáfu leyfis til virkjunar vatnsfalla og tengdra framkvæmda þarf að leita umsagnar umhverfisráðherra þannig að um það sé fjallað af sérfræðingum umhverfisráðuneytisins og Náttúruverndar ríkisins, sbr. lög um náttúruvernd. Einnig er lagt til í frv. að leita skuli umsagnar Orkustofnunar, en sérfræðingar hennar búa yfir margvíslegri þekkingu á sviði orkumála.

Þá er sérstök ástæða til þess að benda á ákvæði 7. gr. sem er nýmæli, en þar er gert ráð fyrir því að greitt sé leyfisgjald fyrir virkjunarleyfi og að það miðist við aflgetu fyrirhugaðs orkuvers. Lagt er til í 7. gr. frv. að ákvörðun um slíkt gjald sé tekin formlega með lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Um það er m.a. þetta að segja: Nú þegar þær breytingar hafa verið gerðar eða eru á leiðinni öllu heldur, að virkjunarréttur íslenskra fallvatna verði frjáls og ekki bara heimilaður íslenskum fyrirtækjum heldur jafnvel erlendum fyrirtækjum líka, þá er það að sjálfsögðu í hæsta máta óeðlilegt að þau virkjunarréttindi séu veitt án þess að gjald komi fyrir til eigandans sem er íslenska þjóðin. Þau íslensku orkufyrirtæki sem hingað til hafa fengið heimildir Alþingis til að virkja og byggja stórvirkjanir á Íslandi, hafa ekki þurft að greiða fyrir það sérstakt gjald enda hafa þessi fyrirtæki verið í eigu íslensks almennings og því má segja að að sé íslenskur almenningur sem er að framselja sjálfum sér réttindin til virkjana án þess að greiðsla komi fyrir. Verði breytingar þar á þannig að um verði að ræða heimildir til virkjana sem annaðhvort eru unnar af erlendum eða innlendum félögum þá er að sjálfsögðu ekki lengur eðlilegt, virðulegi forseti, að þessi virkjunarréttindi séu veitt án þess að greiðsla komi fyrir og er gert ráð fyrir því í 7. gr. frv. að slíkar greiðslur séu inntar af hendi til eigenda virkjunarréttarins sem er þjóðin sjálf. Það er að sjálfsögðu í fullu samræmi við þær tillögur okkar jafnaðarmanna sem raunar eru studdar af mun fleirum en úr okkar röðum, að sambærilegt gjald sé tekið fyrir þau réttindi sem úthlutað er til einstakinga og félaga til að stunda fiskveiðar á Íslandsmiðum og nýta þannig sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.

Síðan eru sérstök ákvæði í þessu frv. eins og í hinu þar sem sú meginregla er sett um mat á því tjóni sem landeigendur verða fyrir ef ráðherra veitir öðrum leyfi til virkjunar vatnsfalls sem þeir eiga land að, að þeir eigi þá rétt á bótum fyrir það tjón sem þeir verða fyrir en hins vegar ekki vegna tapaðs hagnaðar þeirra af því að byggja sjálfir vatnsaflsvirkjun ef þeir hefðu til þess getu eða kröfu til hlutdeildar í framtíðarhagnaði þess sem virkjun reisir, heldur verði bótagreiðslurnar fyrst og fremst reistar á því tjóni sem þeir verða fyrir vegna virkjunarframkvæmdanna og hugsanlega af því tjóni sem þeir verða fyrir vegna þess að þeir gætu þá ekki nýtt vatnsfallið til að virkja fyrir sjálfa sig, þ.e. virkjun allt að 200 kw. afli.

Um frv. um eignarhald á jörðu má einnig fara mörgum orðum en ég verð að takmarka mig við þann ræðutíma sem er til ráðstöfunar hér. Um það er að segja það helst að varðandi rétt til jarðefna eru í fyrsta lagi talin upp hvaða jarðefni falli undir eignarrétt landeigenda, en það eru öll þau efni sem hagnýtt eru að einhverju marki í dag þannig að ekki er gert ráð fyrir því í þessu frv. að nein jarðefnaréttindi séu tekin af landeigendum sem þeir nýta sjálfir í dag.

Í öðru lagi er tekið fram um önnur efni en þau sem í dag eru nýtt af jarðeigendum, þá falli þau undir eignarrétt ríkisins. Þar er um að ræða efni sem hingað til hafa ekki verið hagnýtt ýmist vegna þess að þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni eða ekki sé til þess vitað að slík efni finnist hér. Ástæða er til að kveða á um eignarrétt ríkisins á þeim efnum m.a. vegna þess að þau verða ekki nýtt nema ríkið kosti mjög dýrar rannsóknir á auðlindum og er óeðlilegt að ríkisvaldið greiði slíkan kostnað en aðrir geri síðan tilkall til eignarréttarins og þeirra tekna sem af nýtingu hans kunna að hljótast. Þau ákvæði um jarðefni sem í frv. er að finna skerða því ekki innihald eignarréttar landeigenda í dag miðað við þá notkun sem tíðkast hefur frá landnámi.

Um eignar- og hagnýtingarrétt jarðhita er það að segja að í þessu frv. er ákveðin skilgreining gerð á háhitasvæðum annars vegar og lághitasvæðum hins vegar. Nýtanlegt varmaafl háhitasvæðanna er talið vera um 90% alls varmaafls jarðhitasvæða landsins og líklegt er að þessi jarðhiti verði á næstunni fyrst og fremst nýttur til stóriðju, raforkuvinnslu og hitaveitu í þéttbýli. Slík nýting verður ekki á færi einstakinga, heldur í höndum ríkis, sveitarfélaga eða stórra fyrirtækja og eðlilegt að miða eignarréttinn og nýtingu hans við þær staðreyndir.

Á undanförnum árum hefur verið unnið nokkuð að áætlun um nýtingu háhitasvæða. Einn þröskuldurinn í vegi slíkra áætlana hefur verið óvissan um umráðarétt á jarðhita sem unninn er með borunum djúpt í jörðu. Tilgangur þessara laga er að kveða skýrar á en verið hefur um eignarrétt á slíkum jarðhita. Með tilliti til þessa er í lagafrv. greint á milli eignar- og hagnýtingarréttar á jarðhita eftir því hvort hann er að finna á háhitasvæðum eða lághitasvæðum. Í frv. er lagt til að jarðhiti á lághitasvæðum og jarðhiti á yfirborði háhitasvæða innan marka lands sem háð er einkaeignarrétti sé eign landeigandans sjálfs en allur annar háhiti í jörðu, hvar sem er á landinu sem og lághiti á afréttum og almenningum verði eign ríkisins. Þó er gert ráð fyrir því í frv. að þeir sem borað hafa eftir jarðhita á háhitasvæðum og byrjað vinnslu hans eða varið verulegum fjármunum til undirbúnings slíkra framkvæmda hafi þann rétti óskertan áfram.

Þá eru í frv. einnig sett skýr ákvæði um heimild til eignarnáms á aðstöðu til borunar og vinnslu jarðhita á háhitasvæðum og um hvernig bætur skuli metnar fyrir slíkt. Meginreglan er sú, eins í frumvörpunum báðum, að landeiganda skal bætt allt það tjón sem hann verður sannarlega fyrir af völdum framkvæmdanna en ekki annað tjón sem hann getur ekki fært sönnur á að hann hafi orðið fyrir vegna þess að aðrir en hann hafi nýtt þessi jarðhitaréttindi.

Varðandi yfirráða- og hagnýtingarrétt yfir grunnvatni er það að segja að meginreglan í frv. er sú að rétturinn fylgir landareignunum sem háðar eru einkaeignarrétti en að ríkið eigi réttinn á öðrum landsvæðum. Einnig er lagt til að lögfest verði heimild handa ráðherra til að kveða á um skilyrði sem uppfylla þarf við nýtingu grunnvatns til útflutnings, en það er mjög eðlilegt að slík ákvæði séu sett vegna þess að þar er um vaxandi útflutningsstarfsemi að ræða. Bótareglur frv. eru síðan þær, eins og ég sagði hér áðan um einstök atriði, að gert er ráð fyrir því í frv. að lögfestar séu skýrar reglur um bætur til landeigenda hvort sem um er að ræða bætur vegna eignarnáms eða bætur vegna þess að öðrum en viðkomandi landeiganda hefur verið veitt nýtingarleyfi á auðlind sem liggur í landi viðkomandi. Meginefni bótareglnanna er að bætur skulu einvörðungu miðast við sannanlegt tjón sem landeigandi verður fyrir en ekki missi á hlutdeild í framtíðarhagnaði af nýtingu viðkomandi auðlindar.

Virðulegi forseti. Á Alþingi fyrir rösku ári skýrði hæstv. ráðherra frá því eftir að ég hafði spurt hann að á vegum ríkisstjórnarinnar væri unnið að því að semja frumvörp um þessi efni sem ég hef hér gert að umræðuefni og hann vonaðist til að frumvörp um slík efni yrðu lögð fram þá um vorið, þ.e. fyrir um það bil einu ári síðan. Þau frumvörp hafa enn ekki séð dagsins ljós, herra forseti og ekkert frést af því hvernig miði samkomulagi stjórnarflokkanna eða samningum þeirra á milli um flutning slíkra frumvarpa.

Þau frumvörp sem ég hef lagt hér fram voru unnin í iðnrn. eins og ég sagði frá áðan á minni ábyrgð og ekki náðist samkomulag um flutning þeirra eins og frá þeim var gengið, en þau hafa verið endurflutt hér nú með lítils háttar breytingum m.a. vegna þess hversu knýjandi úrlausnarefni hér er um að ræða.

Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frumvörpunum báðum vísað til 2. umr. og hv. iðnn.