Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 18:42:19 (4972)

1997-04-03 18:42:19# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[18:42]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Úrslitaatriðið í þessu máli er það að fyrir liggur að tiltekin þróun er að eiga sér stað varðandi þessi mál á Evrópska efnahagssvæðinu sem við erum hluti af. Af þeim ástæðum er talið nauðsynlegt að kveða skýrt á um eignarhald almennings, ríkisins eða hvað það nú er á þeim hluta auðlindanna, í þessu tilviki í jörðu og fallvatna, sem ríkið eða þjóðin á eða hefur nýtt til þess að þau lendi ekki í því að þær auðlindir gangi kaupum og sölum án þess að ríkið geti haft neitt með það að gera. Það eru væntanlega rökin fyrir því að jafnvel hv. þm. Sjálfstfl. og Framsfl. eru núna að velta fyrir sér að flytja á næstunni frv. í formi stjfrv. um þjóðlendur og fleira í þeim dúr að því er ég hef best fengið skilið og mér hefur heyrst á hv. þm. að væri tilfellið. Það má því segja í mesta lagi um þessi frv. sem hér liggja fyrir og frv. alþýðubandalagsmanna sem hafa verið flutt um áratuga skeið, liggur mér við að segja, að þau séu kannski pínulítið á undan sinni samtíð því að í rauninni er ekki meiri róttækni í þeim en svo, þessum frv. öllum, þessum sameiningarfrv. Alþfl. og Alþb. sem hér hafa margoft verið rædd, að mér skilst að stjórnarflokkarnir séu að koma með svipuð þingmál standandi frammi fyrir þeirri nauðsyn sem fylgir því að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Þetta held ég að sé kannski aðalatriðið og þess vegna liggur málið eins og það er að óhjákvæmilegt er að setja um þetta einhverjar reglur.

Um frv. alþýðuflokksmanna sem hér liggur fyrir út af Nesjavallamálinu þá ætla ég bara að vitna til þessa sem hér stendur:

,,Orka háhitasvæða hvar sem er á landinu tilheyrir ríkinu ...`` Á öðrum stað stendur: ,,Landareign hverri sem háð er einkaeignarrétti fylgja ráð yfir lághitasvæðum innan marka hennar og réttur til að hagnýta þau. Það sama á við um hveri og náttúrulegan jarðhita á yfirborði lands þótt landareign sé á háhitasvæði.``

Hér er í rauninni algerlega girt fyrir að verið sé að taka fram fyrir hendurnar á sveitarfélögunum að þau nýti þær auðlindir sem þau eiga.