Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 18:46:44 (4974)

1997-04-03 18:46:44# 121. lþ. 98.10 fundur 304. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., 305. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[18:46]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls um þessi tvö frv. Það má vel vera, virðulegi forseti, að ekki séu mörg þingmál sem flutt hafa verið á þessu þingi sem túlka sambærilegar eða sams konar skoðanir okkar jafnaðarmanna og þeirra alþýðubandalagsmanna, ekki mörg í málum talið. En hvaða viðfangsefni íslenskra stjórnmála, herra forseti, eru stærri en þau sem lúta að nýtingu auðlinda þessarar þjóðar? Annars vegar auðlinda fiskimiðanna og hins vegar auðlinda orkulindanna. Þó svo að þau mál sem við höfum flutt séu ekki mörg, þá er mjög athyglisvert að sjónarmið þessara tveggja aðila, jafnaðarmanna og Alþb., eru mjög svipuð hvað varðar þessi tvö þýðingarmestu viðfangsefni íslenskra stjórnmála, þ.e. þeirra viðfangsefna sem lúta að þjóðareign á auðlindum landsins hvort sem þær eru fólgnar í orku fallvatna og jarðhita eða í fiskinum sem syndir í sjónum. Við erum sammála um það grundvallarviðhorf að þessar auðlindir eigi að vera í eign þjóðarinnar allrar og að þjóðin eigi að njóta afraksturs af þeim eignum sínum. Þau eru ekki öllu stærri málin, viðfangsefnin sem við er að fást í íslenskum stjórnmálum núna en einmitt þessi tvö, þ.e. hvernig eiga menn að meðhöndla þær auðlindir, sem fiskurinn í sjónum er og orkan í fallvötnum og jarðhita er, þannig að tryggð sé þjóðareign að þessum auðlindum og þjóðin njóti afraksturs þeirra beint á einhvern hátt. Ég veit ekki betur en að Kvennalistinn sé sammála þeim viðhorfum okkar. Og ég veit ekki betur, herra forseti, en að skoðanakannanir sem hafa verið gerðar um þessi mál --- þær hafa reyndar ekki verið gerðar um öll þessi efni en þær sem hafa verið gerðar t.d. hvað varðar auðlindina fiskimiðin, sýna fram á að þrír af hverjum fjórum landsmönnum séu sammála viðhorfum okkar. Og jafnvel innan raða þingflokka Framsfl. og Sjálfstfl. má finna einstaklinga sem eru sömu skoðunar. Það er því alveg ljóst að mikill stuðningur er við þessi almennu sjónarmið í þeim stærstu verkefnum sem við þurfum að fást við um þessar mundir.

Vitaskuld ber mörg önnur þingmál inn á borð Alþingis. Sum hver eru mikilvæg en ekkert er þó mikilvægara en þetta tvennt, hvernig haldið er á málum þeirra auðlinda sem þjóðin hefur til umráða. Það er undarlegt þegar menn hugsa til þess að tiltölulega lítill hópur manna, sem hafa einkahagsmuni landeigenda og sægreifa fyrst og fremst í huga, skuli áfram geta staðið gegn breytingum af þessum toga sem þrír af hverjum fjórum Íslendingum eru fylgjandi. Ég tel að gera eigi þessi mál, málefni auðlinda þjóðarinnar og hvernig þær eru nýttar, að aðalmálum í næstu kosningum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þjóðin er meira sammála okkur hv. þm. Svavari Gestssyni og öðrum sem höfum sambærilega sýn til þessara grundvallarsjónarmiða en t.d. sjónarmiðum þeim sem kynnt voru í nefndaráliti Páls Péturssonar, sem hv. þm. Svavar Gestsson rakti áðan. Þó þingmálin séu ekki mörg sem þessir aðilar allir, þingmenn jafnaðarmanna, þingmenn Kvennalistans og þingmenn Alþb. eru sammála um á Alþingi, þá eru þau ansi stór.

Ég hvet menn líka til að lesa þessi frv. vandlega vegna þess að þetta er ekki aðeins afrakstur starfs sem unnið var í iðnrn. í tíð okkar jafnaðarmanna þar, heldur má segja að þetta sé afrakstur starfs og athugana sem hafa verið gerðar á þessum málaflokkum ríkisstjórn fram af ríkisstjórn um margra ára eða áratuga skeið. Þau frv. sem hv. þm. Svavar Gestsson gerði að umtalsefni og flutt hafa verið af hv. þm. Alþb. eru reist á vinnu sem fór fram í iðnrn. í ráðherratíð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Vissulega voru þau höfð til hliðsjónar og til grundvallar þeirri vinnu sem síðan hefur haldið áfram í því ráðuneyti og annars staðar þannig að þau frv. sem við leggjum fram og mælum fyrir og voru unnin í iðnaðarráðherratíð Jóns Sigurðssonar og minni eru reist á þeirri vinnu sem áður hefur farið fram. Ekki svo að skilja að þar sé verið að reyna að finna upp hjólið heldur er verið að byggja á vinnu sem áður hefur farið fram og margir af merkustu stjórnmálamönnum okkar hafa komið að og lýst sig fylgjandi eins og komið hefur fram í umræðum að t.d. fyrrv. lagaprófessorar og ráðherrar, Bjarni heitinn Benediktsson og Ólafur Jóhannesson lýstu sem skoðunum sínum þó að skoðanir þessar mikilhæfu stjórnmálamanna nægðu ekki til þess að fá brautargengi fyrir málunum í þeirra eigin þingflokkum.

Það sem hér er um að ræða er í fyrsta lagi það að svarað er því kalli sem Hæstiréttur beindi til Alþingis á árinu 1981 að skera úr um hver ætti það land og þau landgæði sem ekki teljast eign einstaklinga, samtaka eða sveitarfélaga. Alþingi hefur ekki gefið svar við þeirri kröfu Hæstaréttar. Það svar er gefið hér. En það svar nægir ekki til, virðulegi forseti, vegna þess að þó að ótvírætt sé ákveðið í lagasetningu að land og landgæði sem ekki séu eign einstaklinga, félaga eða samtaka skuli teljast ríkiseign, þá nægir það ekki til vegna þess að mjög verðmæt jarðefni og náttúruauðlindir er að finna í jarðeignum sem teljast vera eignir einstaklinga, en þeir geta þó ekki nýtt. Við getum t.d. nefnt jarðhita, djúphita sem getur verið að finna í jörð sem einstaklingur á. Ef slíkur einstaklingur gerði samninga við aðra aðila um að nýta slíkan djúphita, þá mundu rísa upp alls konar flækjur vegna þess að sá djúphiti sem fyndist í landi viðkomandi einstaklings eða félags ætti e.t.v. rætur sínar að rekja til jarðhita sem upptök sín ætti í landi annarra einstaklinga eða einstaklings eða í landi í eigu ríkisins. Nýting slíks jarðhita innan landamerkja lands einstaklinga gæti leitt til ýmiss konar málaferla eða ágreinings vegna þess að jarðhiti er nú einu sinni auðlind sem ekki er endurnýjanleg. Jarðhiti sem fundinn er í einu tilteknu landsvæði getur átt upptök sín og verið nýtanlegur á landsvæðum í eigu margra annarra, þar á meðal í eigu ríkisins. Það er því mjög eðlilegt að menn reyni að svara með löggjöf hvernig skuli fara með slík mál. En það verður enn meira knýjandi þegar menn líta til þess að samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru á hinu Evrópska efnahagssvæði nú þegar eða með tilskipuninni sem mun taka gildi fyrir árslok árið 1999, er öllum aðilum á því svæði heimilt að fjárfesta í orkuvinnslu á Íslandi þannig að jarðeigandi, einkaaðili eða félag sem á tiltekna jörð þar sem t.d. væri unnt að vinna djúphita í jörðu getur þá selt hvaða erlendum aðila á hinu Evrópska efnahagssvæði sem er eign sína, þar á meðal vinnsluréttindi orkunnar, djúphitans í jörðunni sem a.m.k. í huga flestra Íslendinga er ekki eign viðkomandi landeiganda heldur sameign þjóðarinnar, enda verður slík ,,eign`` ekki nýtt af landeigandanum sjálfum fyrir sjálfan sig heldur er grundvöllur að nýtingu þeirrar eignar gríðarlegar fjárfestingar sem aðrir aðilar verða að koma að, í sumum tilvikum e.t.v. ríki eða sveitarfélag, í sumum tilvikum fjársterkir aðilar aðrir innan lands og erlendis. Það hefur verið afstaða allflestra þingmanna, líka í þingflokkum Framsfl. og Sjálfstfl. að ekki sé eðlilegt að erlendir aðilar eða einstaklingar geti keypt sér réttindin til að nýta þessar íslensku orkulindir í viðskiptum við íslenska einstaklinga. Sú afstaða hefur ráðið ferðinni á Alþingi hvað varðar nýtingu íslenskra fiskimiða. Menn hafa verið sammála um að reyna að halda þannig á málum að útlendingar geti ekki keypt þann nýtingarrétt. Þannig geta t.d. íslenskir aðilar sem njóta veiðiheimilda í íslenskri fiskveiðilögsögu ekki selt þann nýtingarrétt útlendingum. Það hefur verið samstaða á Alþingi að reyna að tryggja með lagasetningu að slíkt geti ekki gerst.

Nú eru þær aðstæður komnar upp að innan mjög fárra ára mun horfa þannig við hvað varðar nýtingu hinnar auðlindarinnar að ef ekki verður gripið til úrræða af Alþingi Íslendinga, þá mun fyrir lok þessarar aldar hugsanlega rísa upp mál á Íslandi þar sem einstaklingar, landeigendur, telja sig geta selt, ekki bara almenn afnot af landi sínu til útlendinga, eins og þeir geta gert í dag með ákveðnum hömlum þó heldur einnig rétt til nýtingar orkulinda sem í huga þjóðarinnar eru sameign hennar allrar. Menn hljóta að verða að bregðast við því sem þegar er að koma upp og við því er brugðist í þessu frv.

Hv. þm. Svavar Gestsson svaraði þeim athugasemdum sem hv. þm. Árni Mathiesen gerði áðan. Ég vil aðeins ítreka það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði með því að vitna í 30. gr. frv. til laga um eignarhald á auðlindum í jörðu en þar er sagt, með leyfi forseta:

,,Telji landeigandi eða annar eignarréttindi sín skerðast vegna ákvæða 3., 4., 8. eða 19. gr. um eignarrétt eða yfirráðarétt ríkisins yfir auðlindum í jörðu skal hann tilkynna það ráðherra fyrir 1. janúar 1998. Í tilkynningu skal greint af nákvæmni frá þeim réttindum sem hlutaðeigandi telur skert og rökstutt á hvaða grunni hann byggir þau.

Nú berst ráðherra tilkynning skv. 1. mgr. og getur hann þá ákveðið að ríkið falli frá eignarrétti sínum að viðkomandi auðlindum og viðurkenni þar með réttindi landeiganda yfir þeim þannig að þær fylgi landareign upp frá því. Eins má fara að ef haldið hefur verið fram eignarrétti yfir auðlindum utan marka landareigna sem eru háðar einkaeignarrétti. Yfirlýsingu ráðherra um slíka viðurkenningu á eignarrétti skal þinglýst og greiðast ekki gjöld í ríkissjóð af því.``

Síðan lýkur 30. gr. á því, virðulegi forseti, að þar er sagt: ,,Verði málið ekki ráðið til lykta skv. 2. mgr. skal ráðherra beina því til matsnefndar eignarnámsbóta sem metur eftir atvikum hvort og hversu háar bætur hlutaðeiganda beri vegna skerðingar á eignarrétti sínum. Skal farið með málið annars eftir almennum reglum um framkvæmd eignarnáms að öðru leyti en því að um ákvörðun bóta gilda ákvæði 28. gr.``

Þannig að ef gengið væri á rétt þeirra sveitarfélaga sem hv. þm. nefndi áðan með þeim hætti að taka ætti af þeim réttindi sem þeir eiga í dag og telja sig hafa getað nýtt og hafa nýtt, þá eiga þau ekki aðeins þann möguleika sem 1. og 2. mgr. þessarar greinar gefa þeim tilefni til að krefjast heldur jafnframt að höfða mál samkvæmt almennum lögum um eignarnám þannig að ef með órétti væri verið að hafa af þeim nýtingarrétt, þá yrðu eignarnámsbætur dæmdar háar. Það eru engar smáfjárhæðir, virðulegi forseti, því að þetta eru allt önnur ákvæði sem þarna er verið að vitna til en þau almennu ákvæði um bótarétt sem í frv. eru fólgin og kveða á um hvernig skuli farið með bótarétt vegna eignarnáms samkvæmt ákvæðum frumvarpanna um þau atriði sem ekki er ágreiningur um við landeigendur, hvort ríkið geti gert tilkall til eða ekki. Þannig að viðbárur hv. þm. Árna Mathiesens sem talaði áðan um að með þessu móti væri hægt að svipta Reykjavíkurborg eða sveitarfélögum réttindi sem þau hafa í dag til orkuframkvæmda á sínum eigin landsvæðum, þær athugasemdir eru á misskilningi byggðar.