Búnaðargjald

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 10:44:30 (4983)

1997-04-04 10:44:30# 121. lþ. 99.9 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[10:44]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þm. er ljóst að þessi framkvæmd mun flokkast sem skattur. Þetta innheimtuform á þessum sjóðagjöldum eða búnaðargjaldi eins og við köllum það, mun flokkast sem skattur. Það breytir ekki heildarmyndinni, þegar skoðað er þjóðhagslegt uppgjör á skattheimtu og gjöldum í okkar búskap þá eru þessi búnaðargjöld öll þar inni og meðtalin í þjóðhagsskýrslum. Við þá breytingu sem gerð er á innheimtunni og þeim breytingum sem verða á tekjustofni til Lánasjóðs landbúnaðarins lækka þau eins og hér hefur komið fram. Hér er því ekki um aukna skattheimtu að ræða í raun heldur lækkun.

Varðandi það atriði að halda áfram innheimtu sérstakra gjalda til Lánasjóðs landbúnaðarins, þá höfum við áður rætt það hér í þinginu þegar það frv. var til umfjöllunar. Ég skýrði þá það sjónarmið mitt að ég teldi að það væri í það minnsta enn forsenda og ástæða til þess að halda sérstöku lánakerfi fyrir landbúnaðinn, setja það ekki inn í hið almenna lánakerfi til atvinnuveganna sem þá var einnig verið að ræða og liggur fyrir í frv. í þinginu, um breytinguna á Fiskveiðasjóði, Iðnlánasjóði og öðrum sjóðum sem nú eiga að mynda nýjan sjóð eða nýjan banka. Það er að stofnlánum til landbúnaðarins yrði haldið þar utan við og það yrði að vera lengri aðdragandi eða þróun á breytingunni frá því að landbúnaðurinn hefði verulega niðurgreidda vexti í það að verða að sætta sig við almenna markaðsvexti.

Varðandi það að landbúnaðurinn hafi a.m.k. fjárfest nóg, kannski offjárfest, þá er það auðvitað staðreynd að við þurfum á endurnýjun að halda í landbúnaðinum. Þar þurfa auðvitað að eiga sér stað eðlilegar breytingar. Því vísa ég tímans vegna til þeirra raka sem ég setti fram í framsögu við frv. um Lánasjóð landbúnaðarins.