Búnaðargjald

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 10:58:22 (4988)

1997-04-04 10:58:22# 121. lþ. 99.9 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[10:58]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki gera ráðherra upp skoðun ef hún reynist ekki rétt, en hæstv. ráðherra fór hér yfir það sem hann sagði, réttilega. Hins vegar nefndi hann í framhjáhlaupi að hann liti svo á að þetta væri þó a.m.k. skref fram á við úr þessu kerfi sem hann tilgreindi þannig að ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo að hæstv. ráðherra væri þó þeirrar skoðunar að taka þyrfti á ýmsu í þessu kerfi og það er vel. En hvað sem öðru líður þá held ég að í þessari umræðu hafi kristallast verulegur ágreiningur á milli annars vegar þingflokks jafnaðarmanna og hins vegar þeirra sem fara með stjórn landbúnaðarmála núna.

Ég taldi mig ekki vera að gera hæstv. ráðherra upp skoðun. En hitt var að ég skildi hann þannig að hann liti svo á að þetta væri skref út úr þeirri vitleysu sem þar hefur verið í gangi og ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo að úr því að hann vildi taka skref út úr þessari vitleysu þá væri hann sammála mér í því að það væri að ýmsu að hyggja í þessum málum.