Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:13:25 (4995)

1997-04-04 11:13:25# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:13]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um lækkun á svokölluðum verðskerðingargjöldum markast af því eins og hæstv. ráðherra rakti hér áðan að birgðastaða hefur reynst betri en áætlað var upphaflega. Í sjálfu sér er ekki nema gott um það að segja að hægt sé að lækka þá gjaldtöku sem hér um ræðir. Hún mun lækka úr um það bil 100 millj. niður í um 60 millj., eða lækka um 40 millj. En það breytir ekki því, herra forseti, að það kerfi sem við erum hér að eiga við, þetta millifærslukerfi innan landbúnaðarins, er ekki hagkvæmt og er slæmt út af fyrir sig og þjónar ekki hagsmunum bænda þótt hér sé lögð til minnkun á millifærslum vegna þess að hér hafi gengið meira á birgðir heldur en áætlað var.

Það er líka vert umhugsunar varðandi þetta frv. sem segir hér í upphafi að það felur í sér breytingar sem gerðar eru að beiðni Bændasamtaka Íslands. Þær eru samhljóða ályktunum búnaðarþings árið 1997. Mér finnst það vera til umhugsunar fyrir okkur á hinu háa Alþingi að fulltrúi framkvæmdarvaldsins skuli leggja fram frv. sem er ekki byggt á vinnu innan ráðuneytisins heldur beinlínis frá hagsmunasamtökum og að áður en það frv. kemur til umræðu á hinu háa Alþingi skuli það vera stimplað á búnaðarþingi. Nú viðurkenni ég fullan rétt búnaðarþings og Bændasamtakanna að hafa skoðanir á þessum málum og öðrum og finnst starfsemi þeirra vera hin merkasta en auðvitað er það spurning um vinnubrögð hvort lagafrumvörp eigi ekki að koma fyrst til umræðu á hinu háa Alþingi, fara síðan til umsagnar, t.d. bæði Bændasamtaka og ég tala nú ekki Búnaðarþings. Það hefði einnig verið eðlileg málsmeðferð varðandi þessi þrjú frumvörp sem hæstv. ráðherra er að mæla fyrir í dag að þau hefðu komið fyrr fram.

Ég á sæti í landbn. og vitaskuld hefði ég kosið að þessi frumvörp hefðu komið fram fyrr þannig að tími hefði gefist til að vinna þau faglega og vandvirknislega eins og venja er í landbn. en ekki vera að taka í þá vinnu einmitt þann tíma síðustu þingvikurnar þegar annir eru mjög miklar í einstökum nefndum og hjá þingmönnum. Þetta eru dæmi um slæm vinnubrögð og ég mundi skora á hæstv. landbrh. að breyta þessu verklagi. Mér finnst eðlilegt að reynt sé að stilla frv. af þannig að bændasamtökin og Búnaðarþing fái að koma að sem umsagnaraðilar. En að röðin sé þannig að hér sé verið að bera fram frv. sem er fullunnið af hálfu tiltekinna hagsmunasamtaka er ekki góð aðferðafræði.

Þetta frv. tekur að vísu mið af því að landbúnaðurinn býr við mjög sérstakt millifærslukerfi og verndað umhverfi hér á landi, einmitt það umhverfi sem aðrar starfsgreinar hafa verið að færa sig út úr. En landbúnaðurinn viðhefur enn ákveðið millifærslukerfi sem við vorum að ræða hér áðan í sambandi við búnaðargjald. Það kemur fram í verðskerðingargjaldi til að efla markaðssetningu á kjöti. Sambland bæði hagsmunasamtaka og ríkisvalds í þessum efnum innan landbúnaðarins er ekki góð stefna út af fyrir sig.

Þetta endurspeglast einnig í frv. sem er líka til meðferðar hér á hinu háa Alþingi, þ.e. sérstöku frv. um Lánasjóð íslensks landbúnaðar. Þar er enn og aftur verið að taka landbúnaðinn út og gera um hann sérstakt kerfi. Ég held að þetta sé slæm stefna, herra forseti, fyrir landbúnaðinn. Hæstv. landbrh. hefur því miður ekki staðið að neinum kerfisbreytingum í íslenskum landbúnaði. Hann hefur staðið fyrir ákveðnum endurbótum innan núverandi kerfis en hann hefur ekki staðið fyrir kerfisbreytingu, því miður. Og af því að hér er beint verið að tala um sauðfjárbændur, þá er vitað að afkoma þeirra er síður en svo góð. Það markast af því kerfi sem er bundið miðstýringu, millifærslum og litlu frjálsræði í verðlagningu og viðskiptum, og hefur gert bændur þessa lands fátæka, ekki hvað síst sauðfjárbændur.

Það er athyglisvert, herra forseti, að í nefnd sem var skipuð að frumkvæði landbrh. var gerð vönduð skoðanakönnun meðal bændastéttarinnar. Þar kom fram að 23% bænda telja að búskap verði hætt á jörð þeirra þegar þeir láta af búskap. Fjórðungur bænda telur sem sagt að þegar þeir hætta, komnir við aldur, þá muni byggð leggjast af á búi þeirra. Þessir bændur eru fyrst og fremst fullorðnir og stunda sauðfjárbúskap. Þetta er vert umhugsunar. Meðalaldur bænda núna er um 50 ár. Vitaskuld er það vert umhugsunar hvert stefnir hér í landbúnaði og hvaða skilyrði þessi starfsstétt hefur miðað við þá landbúnaðarstefnu sem er framfylgt af núverandi ríkisstjórn. Það hafa vitaskuld átt sér stað mjög miklar breytingar í landbúnaði. Það eru 5% landsmanna sem nú vinna í landbúnaði en fyrir 60 árum var þetta hlutfall 32%. Við sjáum að það hafa átt sér stað geysilegar breytingar í íslenskum landbúnaði á síðustu áratugum. Við höfum hins vegar ekki borið gæfu til þess að breyta, hvorki stjórnkerfi né framleiðslukerfi í landbúnaði til að laga okkur að þeim neyslu- og viðskiptabreytingum og búsháttarbreytingum sem hafa átt sér stað undanfarna áratugi. Nei, þvert á móti er viðhaldið gömlu kerfi Framsfl. og Sjálfstfl., kerfi sem því miður kemur fram í slökum kjörum bændastéttarinnar.

Það er full ástæða til þess, herra forseti, að vekja athygli á þessum þætti málsins þó að efni frv. sé tiltölulega lítið og varði einungis þann þátt að lækka verðskerðingarhlutföll vegna þess að birgðir hafi orðið minni, sem ég fagna. Ég fagna því að birgðavandinn reyndist ekki jafnmikill og menn óttuðust á sínum tíma. Það ber vitaskuld að lýsa yfir ánægju með það og þá er náttúrlega eðlilegt framhald af því að þær greiðslur sem voru áætlaðar í markaðssetningu séu lækkaðar. Það er rökrétt framhald af því en breytir samt sem áður ekki þeirri meginniðurstöðu minni að við erum enn þá á bólakafi í kerfi sem er orðið til trafala í því að íslenskur landbúnaður nái að rétta úr kútnum efnahagslega eins og hann á í reynd skilið.