Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:21:03 (4996)

1997-04-04 11:21:03# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er kannski ekki á ferðinni frv. sem markar mikil tímamót í landbúnaðarmálum og að því leyti ekki tilefni til mikilla orðaskipta. Á hinn bóginn gæfi það vissulega kost á því að ræða lítillega stöðu landbúnaðarins og þá einkum sauðfjárræktarinnar af því að þetta mál varðar þá grein. Ég leyfi mér að segja að einhvern tíma hefðu þær aðstæður sem uppi eru í þeirri atvinnugrein kallað á meiri umræður en hér virðast ætla að verða að gefnu tilefni á hinu háa Alþingi. Ýmsir sérstakir og sjálfskipaðir gæslumenn og velunnarar þeirrar greinar eru víðs fjarri og ætla ég að hlífa þeim við að nefna nokkur nöfn. En satt best að segja, herra forseti, hefðu ýmsar þær upplýsingar sem hafa verið að koma fram á undanförnum mánuðum um að ýmsu leyti hrikalegar aðstæður í þessari atvinnugrein og meðal þess fólks sem við hana vinnur einhvern tíma kallað á umræður að mínu mati, svo sem upplýsingar um þá fátækt sem orðin er meðal fjölskyldna sem stunda sauðfjárrækt, og upplýsingar eins og hér voru nefndar af hv. síðasta ræðumanni um horfur hvað snertir nýliðun í greininni.

Mér finnst af þessu tilefni, herra forseti, að það eigi að skoða málin og beini ég því til hæstv. landbrh. hvort ekki sé ástæða til að láta gera mjög rækilega úttekt á stöðu og horfum landbúnaðarins, búsetu í sveitunum og þá kannski sauðfjárræktarinnar alveg sérstaklega og hvort hæstv. landbrh. væri ekki einu sinni tilbúinn til þess að hafa um það frumkvæði að hrinda af stað slíkri vinnu. Hún gæti öðrum þræði orðið til þess að draga saman ýmsar upplýsingar sem fyrir liggja og afla nýrra um stöðu landbúnaðarins og sauðfjárræktarinnar sérstaklega. Slík vinna gæti orðið grundvöllur að endurskoðun landbúnaðarstefnunnar og til undirbúnings því sem við tekur þegar núverandi búvörusamningur rennur út. Það er að mínu mati mjög nauðsynlegt að þá falli menn ekki á tíma og verði á handahlaupum við að búa til nýjan eða móta greininni ný starfsskilyrði þegar sá samningur er að renna út, heldur verði nú strax á miðjum gildistíma hans hafinn undirbúningur að því sem á að taka við.

Ég leyfi mér í allri vinsemd að stinga upp á því við hæstv. landbrh. að hann hafi forgöngu um að taka það til skoðunar hvernig væri eðlilegast að vinna að því máli. Ég hefði gjarnan viljað sjá að einhver þverpólitískur vettvangur kæmi að því þar sem það er mjög stórt mál hvernig þessari grein reiðir af, bæði í félagslegu og byggðalegu tilliti, en líka hvað varðar almenn lífskjör í landinu. Þrátt fyrir allt, þó að það sé ekki orðinn stór hluti mannaflans sem starfar beint í greininni, þá er hún enn eftir sem áður býsna stór í landsframleiðslunni. Hún er undirstaða heilmikilla innlendra umsvifa hvað varðar úrvinnslu, matvælaiðnað og þjónustu og hefur líka áhrif á lífskjör almennings beint í formi verðs á þeirri vöru sem þarna er framleidd til neyslu.

Það eru að sjálfsögðu líka hlutir t.d. í hinni hlið samningsins sem snúa að mjólkurframleiðslunni sem hafa vakið umtal á undanförnum dögum. Ég hefði þó talið verulegan áfanga í þessum efnum ef sauðfjárræktin og staða hennar og samhengi þeirra hluta við byggð í sveitum og annað sem ég hef hér nefnt yrði tekið sérstaklega til skoðunar í formi þess að unnin yrði skýrsla eða gerð samantekt t.d. á vegum stjórnskipaðrar nefndar sem færi í þetta mál með fulltrúum allra flokka að sjálfsögðu og með samráði við hagsmunaaðila, greinina sjálfa og aðra sem hlut eiga að máli.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta almennt nema ég má aðeins til með að segja að mér finnst málflutningur vina minna í Alþfl. eða jafnaðarmannaflokki heimsins pínulítið þreytulegur þegar þeir koma hér upp og reyna að kreista upp úr sér einhver ónot bara af því að það eru mál á vettvangi landbúnaðarins sem eiga í hlut. Það hefði náttúrlega verið einfaldast fyrir Alþfl. að koma upp og segja: Fínt, það er verið að lækka þessi gjöld og við styðjum það og fara svo aftur í sæti sitt. En það var ekki hægt, heldur þurfti að hreyta þessum venjulegu þreytulegu ónotum beint eða óbeint í greinina og það sem hún hefur staðið fyrir. Auðvitað er þetta alltaf sett fram undir merkjum umhyggju fyrir bændunum alveg sérstaklega. Alþfl. hefur allan tímann byggt málflutning sinn á því að hann væri sérstakur vinur bændanna og það væri af sérstakri umhyggju og ást á þeim sem Alþfl. væri t.d. yfirleitt á móti styrkjum til landbúnaðar og það ætti að draga úr þeim. En ég verð að segja að mér finnst þetta orðið svolítið þreytulegt. Ég segi það í fullkominni hreinskilni og á mannamáli. Það fer ekki að taka því öllu lengur fyrir Alþfl. að vera að hamast á því sem eftir er af landbúnaðinum, það fer ekki að taka því. Er ekki að verða tímabært fyrir Alþfl. að sleppa þessu? Ég held að þetta sé bara einhver leiður ávani sem flokkurinn situr fastur í, að alltaf þegar landbúnaðarmál ber á góma þá er sjálfsagt að rjúka í pontu og ónotast eitthvað. (Gripið fram í.) Já, það væri nú gaman að heyra tillögur Alþfl. í þá veru en ég held að Alþfl. ætti að fara að velta því fyrir sér hvort ekki sé nóg komið og hvort þetta sé ekki að verða einhver kækur sem þarf að venja sig af og snúa sér að öðru og uppbyggilegra máli en því. Það vitað það allir sem vilja vita og hafa af einhverju raunsæi fylgst með þróun þessara mála að það er búið að ráðast í alveg gífurlega umfangsmiklar og í raun og veru sársaukafullar uppstokkunaraðgerðir á þessu sviði á síðustu tíu árum. Það hefur engin ein atvinnugrein í landinu gengið í gegnum neitt viðlíka þrengingar með eins gífurlegum niðurskurði. Og það hefur engin ein grein í landinu lagt jafnmikið af mörkum á undanförnum árum í formi niðurskurðar á ríkisútgjöldum, engin. Það er búið að taka risaskref í því máli. Það viðurkenna allir þeir aðilar sem bera kannski ekkert sérstaklega velferð landbúnaðarins fyrir brjósti hér í kerfinu, þ.e. eftirlitsaðilar. Þeir hafa sagt það í skýrslum. Eini marktæki stórfelldi árangurinn á undanförnm árum í því að draga úr ríkisútgjöldum er í landbúnaðinum. Það er búvörusamningurinn sem gerður var 1991 sem skilaði langmestri uppstokkun að þessu leyti þar sem bæði var dregið verulega úr ríkisútgjöldum vegna þessarar framleiðslu og framleiðslan var, ég verð að leyfa mér að segja þó að mér sé málið skylt, tiltölulega harkalega tekin niður að því sem markaðsaðstæðurnar buðu. Því hefur auðvitað fylgt mikill sársauki. Afleiðingarnar birtast okkur m.a. í mjög miklu tekjufalli í greininni. Ég held að það mál sé þess eðlis að nú eigi að fara rækilega yfir það hvernig staðan er og hvernig framtíðin blasir við okkur. Og í stað þess að flytja um það þáltill., sem kannski er hægur leikur af minni hálfu, að Alþingi ályktaði að skipa ráðherra að setja í gang vinnu af þessu tagi, þá leyfi ég mér að gera það að munnlegri tillögu að ráðherra taki það til skoðunar að hrint verði af stað slíku ferli, alveg sérstaklega með vísan til mjög alvarlegra upplýsinga sem hafa verið að birtast okkur beinlínis í tölum á undanförnum missirum um þessa stöðu. Þykjast menn þó af þekkingu sinni á greininni svo sem vita það fyrir að þarna er við erfiða hluti að fást.

Auðvitað höfum við Alþfl. með í þessu, jafnaðarmannaflokk heimsins, og reynum að hafa á þá góð áhrif og snúa þeim til þess vegar að málflutningur þeirra verði uppbyggilegri á þessu sviði.

Um efni frv. að lokum, herra forseti, vil ég segja að ég tel það jákvætt að verið sé að lækka þessi gjöld, þ.e. þessi millifærslugjöld sem nýi búvörusamningurinn hefur í sér. Þegar hann var til umræðu á sínum tíma, þá var það m.a. og ekki síst þetta sem ég gagnrýndi og varaði við. Það var það furðulega sambland af millifærslum og í raun miðstýringu og frjálshyggju sem samningurinn er í raun í eðli sínu. Því annars vegar er verið að falla frá framleiðslustýringu og falla frá opinberri verðlagningu vörunnar en hins vegar eru þarna millifærsluákvæði og kollektív verðábyrgð á útflutningi sem er að mínu mati argasta forneskja og hættuleg fyrir greinina.

Ég vil þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra, um leið og ég fagna lækkun gjaldanna eins og hún er upp lögð í 1. og 2. gr. frv., hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvað velt því fyrir sér að taka til endurskoðunar útflutningsskylduákvæðin sem eru í núgildandi samningi. Ég nefni m.a. sem rök það sem gerðist á sl. hausti að menn tóku ákvörðun um of háa útflutningsskylduábyrgð vegna þess að framleiðslan reyndist síðan minni en spáð hafði verið. Það segir mér það sem ég hef áður reynt að rökstyðja að slík fyrir fram ákvörðun um kollektíva útflutningsskyldu eða ábyrgð framleiðenda er vitlaus, það ætti í öllu falli að gera þetta einhvern veginn öðruvísi. Þar fyrir utan er mjög sérkennilegt ef þessi ábyrgð á að standa þegar í reynd er horfið frá framleiðslustýringu. Það þýðir að sumir geta verið að framleiða miklu meira en þeir hafa gert, en aðrir sem framleiða óbreytt, hafa óbreytt umsvif í búskap sínum eða draga jafnvel úr þeim niður undir 80% miðað við beingreiðsluréttinn, geta þurft að taka þátt í þessari kollektívu útflutningsskyldu eftir sem áður. Þetta er að mínu mati mjög vitlaus og varhugaverð útfærsla á málinu. Að vísu viðurkenni ég að þróunin hingað til virðist ekki benda til þess að það sé framleiðslusprenging í vændum eins og ýmsir óttuðst, en hættan er þarna. Hún blasir við. Og það væri að sjálfsögðu ekki góð útkoma ef handahófskennt og stjórnlaust kapphlaup hæfist að þessu leyti þó að þróunin bendi kannski ekki til þess enn þá. Ég hef þó ekki séð neinar tölur um ásetning á þessum vetri og kannski er að einhverju leyti minni framleiðsla fólgin í því að ásetningurinn hafi orðið eitthvað meiri. Ég játa það að ég hef ekki séð þær tölur.

En það er út af fyrir sig athyglisvert og fagnaðarefni að birgðastaðan hefur lagast sem þessu nemur og hér kemur fram í fylgiskjölum. Það er gott í sjálfu sér. En eftir stendur að mér finnast öll rök og ný rök sem hafa bæst við mæla með því að þessi millifærsluákvæði verði jafnframt tekin til skoðunar í kjölfar þess að gjöldin sem hér eru sérstaklega til umfjöllunar eru lækkuð. Það gæti orðið viðfangsefni vinnu af því tagi sem ég var fyrr í minni ræðu að hvetja til að hæstv. ráðherra setti á fót. Ég leyfi mér sem sagt að spyrja um þetta atriði alveg sérstaklega, þ.e. hvort útflutningsskylduákvæði sérstaklega samkvæmt 29. gr. laganna nr. 99/1993, þegar nýi samningurinn var lögtekinn, hafi verið eða kunni að koma til skoðunar af hálfu hæstv. landbrn.