Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:39:18 (4999)

1997-04-04 11:39:18# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:39]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en að bent hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á það að við vorum að ræða hér áðan hið nýja búnaðargjald. Við bentum á að það væri þó framfaraspor. En það sem við sögðum þar jafnframt var að við værum andvíg því millifærslukerfi sem hér hefur ríkt um áratuga skeið og hefur leitt til þeirrar stöðu sem nú er uppi hjá bændum. Það er sú gagnrýni sem við höfum sett fram. Við gagnrýnum þetta kerfi þó að einhverjar umbætur innan þess geti verið til góðs.

Hins vegar erum við andvígir þessu millifærslufyrirkomulagi sem hefur gert það að verkum að þessi búgrein hefur á engan hátt náð að standa sig í samkeppni um langt skeið. Það er það sem við höfum verið að gagnrýna.

Ég vil halda því til haga að við höfum einnig bent á það sem jákvætt hefur verið gert en á hinn bóginn erum við andvígir því fyrirkomulagi sem nú er uppi. Og ég vil nota það tækifæri sem hér er til þess að taka undir þá tillögu sem hv. þm. setti fram hér áðan um að hæstv. landbrh. hefði frumkvæði að því að láta fara fram úttekt á stöðu bænda. Ég held að það sé rétt og ég held að það sé skynsamlegt og ég held að það sé nauðsynlegt vegna þess að það kerfi sem við höfum verið að gagnrýna, og hv. þm. telur þá gagnrýni verða orðna mjög þreytta og nánast vera orðna kæk, það er nákvæmlega það kerfi sem leiðir til þess að það er nauðsynlegt að slík úttekt fari fram.