Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:41:10 (5000)

1997-04-04 11:41:10# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:41]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að það sé í sjálfu sér mikill ágreiningur um það að við vildum sjá það sem eftir stendur, ef svo má að orði komast, af þessum millifærslum hverfa. Það var nákvæmlega það sem ég t.d. sagði í ræðu minni, að ég varaði við því þegar núgildandi búvörusamningur var lögtekinn að í honum var og er sérkennileg blanda af frjálshyggju eða tilraun til þess að láta landbúnaðinn fara inn í óheft samkeppnisumhverfi, en líka afturhvarf til aukinnar millifærslu og sameiginlegrar verðábyrgðar, t.d. á útflutningi. Það var nákvæmlega það sem ég gagnrýndi þannig að þar er kannski ekki djúpstæður ágreiningur á ferð.

Um rætur þess hver staða landbúnaðarins er í dag er ekki einfalt að segja: Það er einhverju vondu kerfi að kenna. Þar kemur mjög margt til sem við verðum að hafa í huga ef við ætlum að ræða þessi mál af sanngirni og raunsæi. Þetta er líka félagslegt mál, byggðalegt mál. Landbúnaðurinn verður ekki slitinn úr samhengi við það starfsumhverfi sem landbúnaður annars staðar býr við. Landbúnaður hefur verið mestalla þessa öld stórlega ríkisstyrkt atvinnugrein í öllum vestrænum löndum sem við getum borið okkur saman við. Og staðreyndin er þrátt fyrir allt að þær breytingar sem Íslendingar hafa verið að gera á undanförnum árum hafa leitt til þess að við þokumst núna býsna hratt niður listann hvað varðar opinberan stuðning við þessa framleiðslu. Við erum þar á leiðinni niður listann. Við erum komin úr 1.--2. sæti niður í einhvers staðar á bilinu 4.--10. eftir því hvernig það er reiknað. Það er umtalsverður árangur þegar haft er í huga að við erum að tala um landbúnað á einhverjum norðlægustu slóðum sem þekkist þar sem hann er rekinn sem atvinnugrein.

Ég vek svo að allra síðustu, herra forseti, athygli á því að þegar ég talaði um tóninn í ræðuhöldum alþýðuflokksmanna og gagnrýni þeirra, þá sagði ég ekki að hann væri falskur. Ég sagði að hann væri þreyttur.