Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:05:59 (5006)

1997-04-04 12:05:59# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þær upplýsingar sem hann veitti um þá vinnu sem er í gangi á vegum landbrn. um þessi mál, nefndir að störfum og annað. Ég tek jafnframt undir það og endurtek að ég held að mjög tímabært væri og þarft að setja á fót stefnumótunarnefnd sem gæti jafnframt verið eins konar samræmingaraðili í þessu starfi og rekið það áfram þar sem verið er að vinna á mismunandi vígstöðvum að því að draga saman upplýsingar og gera úttekt á stöðu bænda, kjörum þeirra. Síðan er sjömannanefnd að störfum varðandi þá þætti sem þar hafa sérstaklega fallið undir, þ.e. framleiðslan eða verðlagningin á vörunum þannig að ég vona að að því geti orðið eins og hæstv. ráðherra kom inn á í svari sínu við hugmyndum og tillögum mínum.

Að öðru leyti vil ég segja, herra forseti, að þetta hefur verið ágæt umræða og reyndar sá ég þann löst aðallega á henni að hv. formaður landbn. hefði ekki verið viðstaddur umræðuna í þingsalnum en ég sé að vísu að hv. þm. Guðni Ágústsson er nú kominn í forsetastól og er það betra en ekki, en þó hefði ég enn frekar kosið að hv. formaður landbn. sem slíkur væri á meðal okkar í umræðunni og tæki þátt í því sem hér hefur verið á dagskrá, en hér hefur --- aldrei þessu vant liggur mér við að segja því það gerist allt of sjaldan --- orðið býsna merkileg almenn umræða um landbúnaðarmál. Það er ekki svo oft sem þannig tekst til. Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir svör og undirtektir hans og bind vonir við að þessi mál komist þar með á hreyfingu.