Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:08:07 (5007)

1997-04-04 12:08:07# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að ítreka að sjömannanefndin svokallaða er líka stefnumótunarnefnd. Hún hefur í raun fjallað um fleira en það sem beinlínis er bundið verðlagningunni eða þeim samningum sem gerðir hafa verið. Ég minni á þegar við tókum á sauðfjársamningnum í fyrra var sjömannanefndin ekki að störfum þannig að hún átti ekki aðild að þeim samningi. Samkvæmt hennar erindisbréfi fjallar hún um ýmsa þætti sem landbúnaðarmálum tengjast almennt. Þrátt fyrir það tel ég að ástæða væri til, og hef reifað það bæði á samkomum bænda og einstakra búgreinafélaga, að setja af stað nefndarstarf sem væri nokkurs konar langtímastefnumótun undir öðrum formerkjum en þeim sem þó eru hjá sjömannanefndinni. Mér finnst því sjálfsagt að við skoðum ítarlega hvernig að slíku verði staðið og mun ég gera það.

Ég vil rétt aðeins að lokum minna á það sem féll niður hjá mér áðan þegar hv. þm. Ágúst Einarsson var að velta fyrir sér hverjir væru höfundar að kerfinu. Ég ætla ekki að taka þátt í karpi um það út af fyrir sig, mér finnst það ekki skipta öllu máli. Kannski eru stærstu þátttakendurnir í því bændastéttin sjálf. Um endurskoðun á búvörusamningnum sem er á döfinni og það að komast að niðurstöðu um hvernig eigi að semja um mjólkurframleiðsluna og þann þáttinn hafa komið mjög ákveðnar og eindregnar ályktanir frá Landssambandi kúabænda, að byggja nýjan samning á nánast óbreyttu kerfi og þeir leggja mikla áherslu á að litlar breytingar verði varðandi þann samning. Það er ekki að frumkvæði núv. landbrh. í sjálfu sér að leggja neitt slíkt til. Ég er tilbúinn að hlusta á það sem viðsemjendur mínir vilja segja og hvað þeir vilja leggja til í þessu efni. En óskirnar um litlar og helst engar breytingar eru þær sem liggja fyrir þegar lagt er af stað í þær samningaviðræður.