Framleiðsla og sala á búvörum

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:10:58 (5008)

1997-04-04 12:10:58# 121. lþ. 99.10 fundur 479. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (verðskerðingargjöld) frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:10]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hefur þessi umræða farið nokkuð vítt og breitt og náð held ég 20--30 ár aftur í tímann. Það er út af fyrir sig er þarflegt að rifja upp fortíðina í þessum efnum eins og öðrum.

Mér finnst hins vegar að skort hafi á, vegna þess að menn voru að ræða búvörusamningana, að tilgreina það sem sérstaklega varð þeim að falli því að búvörusamningurinn frá 1991 lifði í rauninni ekki nema í tvö ár, í mesta lagi þrjú ár. Þá voru bændur komnir í þrot og núna geri ég ráð fyrir að hægt sé að færa sönnur á það hvað mönnum sást margt yfir við endurskoðun á þeim samningi á sl. ári.

Hér hefur verið talað um endurskoðun, langtímaáætlanir og annað eftir þessu. Það er út af fyrir sig góð viðleitni. Ég held hins vegar að bændur þoli ekki þá bið og vegna þess að hér barst sérstaklega í tal hvaða vandi væri fram undan í þeim efnum, reyndar voru látin falla um það nokkuð stór orð, þá finnst mér rétt að það komi fram að Byggðastofnun tók þá ákvörðun á sl. hausti að framkvæma áætlun um afkomu sauðfjárræktarinnar í landinu. Samkvæmt starfsáætlun stofnunarinnar á niðurstaða þeirrar athugunar að liggja fyrir í næsta mánuði. Í rauninni var og er megintilgangur stofnunarinnar að upplýsa hvaða áhrif og afleiðingar þessir samningar og þau kjör sem sauðfjárræktin býr við hafa á byggðina í landinu. Það er hægt með svipuðum hætti og hv. þm. Ágúst Einarsson gerði áðan að fella um það vissa dóma og harða, en hitt er alveg nauðsynlegt að það sé tilreitt nokkuð faglega sem ég vona að starfsmönnum Byggðastofnunar takist með þeirri aðstoð sem þeir hafa leitað eftir í þeim efnum.

Meginatriðin eru þessi í sambandi við búvörusamningana að það sem búvörusamningurinn frá 1991 féll sérstaklega á var útflutningsbannið. Það var bannað samkvæmt þeim samningi að flytja út dilkakjöt sem var innan greiðslumarks og af þeirri ástæðu söfnuðust upp birgðir í landinu. Það er skýringin.

Annað mikilvægt atriði, sem hlýtur að verða að liggja fyrir í þessari umræðu, er að Alþingi breytti búvörusamningnum frá því í fyrra einmitt með það í huga að hægt væri að framkvæma útflutning á dilkakjöti án þess að það gengi í gegnum nein kerfi. Það er ekki nein verðmiðlun í þeim útflutningi nema að því er tekur til skrokkaútflutningsins og svo sannarlega væri það þrautalaust af minni hálfu að afnema það ákvæði.

Í rauninni er þetta frv. einfalt í sniðum og sumt af því gengur úr sér af sjálfu sér þannig að ég held að það muni ekki miklu breyta hvort þetta frv. verður að lögum núna eða ekki. En eigi að síður ætla ég ekki að verða þess valdur að málið geti ekki gengið greiðlega fram og mun ég að sjálfsögðu veita því fulltingi mitt því auðvitað eru þær breytingar til bóta sem lagt er til að lögfestar verði.