Eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:26:17 (5010)

1997-04-04 12:26:17# 121. lþ. 99.11 fundur 477. mál: #A eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:26]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að í þessu frv. sé um ágætismál að ræða, heildarlöggjöf um slátrun og þá umgerð sem þar á að ríkja og fagna því sérstaklega að gert er ráð fyrir að slátrunarnám, sem verður hafið í Matvælaskólanum í Kópavogi, komi inn sem þáttur í þessari vinnslukeðju. Það er af hinu góða. Hins vegar vildi ég spyrja hæstv. ráðherra. Hér eru sett ákvæði um heimaslátrun, sem ég held að séu góð og rétt að gera, en mig langaði til að vita, herra forseti, hvort ráðherra getur upplýst um umfang heimaslátrunar. Er vitað hvað hún er mikil? Vegna þess að stundum er sagt að heimaslátrun sé ekki til eigin nota heldur þekkjast sögusagnir um að afurðirnar séu seldar og jafnvel í miklum mæli. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst hvort fyrir liggi tölur um heimaslátrun og hvað hún er mikil. Ef það er ekki nægjanlega ljóst, telur hann ástæðu til að skoða það sérstaklega og þá út frá því einnig hvort um er að ræða misnotkun á þessum heimildum sem eru náttúrlega mjög mikilvægar vegna þess að hér er settur upp ákveðinn gæðaferil í slátrun og þá þarf að gæta þess að það sé gert á öllum stigum. Fyrst og fremst vildi ég vita hvort ráðherra gæti upplýst um tölur í því sambandi.