Eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:29:55 (5012)

1997-04-04 12:29:55# 121. lþ. 99.11 fundur 477. mál: #A eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:29]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Ég vil sérstaklega taka undir það sem hann sagði, að þróunin gæti orðið sú að heimaslátrun gæti orðið kannski meiri atvinnuvegur í sveitum og þá undir reglum og eftirliti. Ég hugsa að það sé alveg rétt að kanna þau mál sérstaklega. En af því að ráðherra gat ekki upplýst um heimaslátrun og hefur heyrt þessar sömu sögur og aðrir hafa heyrt --- við í landbn. höfum reynt að spyrjast fyrir um þetta en ekki fengið mjög skýr svör --- vildi ég spyrja hæstv. ráðherra einmitt út frá svörum hans hér hvort hann muni beita sér fyrir og láta framkvæma sérstaka athugun á heimaslátrun, umfangi hennar og hvort einhver brögð séu að því að farið sé fram hjá lögum varðandi ráðstöfun á heimaslátruðu, án þess að ég sé nokkuð að gefa í skyn að farið sé fram hjá reglum, til að menn hafi betri yfirsýn yfir þessi mál.