Viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:51:43 (5018)

1997-04-04 12:51:43# 121. lþ. 99.12 fundur 480. mál: #A viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að auðvitað eru áhrif okkar í Evrópusambandinu önnur sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu en sem fullgildir aðilar að því. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir. Hins vegar tel ég að allvel hafi tekist að undanförnu að tryggja áhrif okkar í þessum málum, þ.e. sú staðreynd að við eigum aðgang að öllum þessum nefndum. Það eru í raun og veru ekki nema þrjár, fjórar eða fimm nefndir sem við höfum sóst eftir aðild að en höfum ekki fengið aðild að. Þar af eru ein eða tvær nefndir sem liggja utan samningssviðs Evrópska efnahagssvæðisins og er kannski ekki eðlilegt að við fáum aðild að slíkum nefndum. Það hefur því verið komið mjög til móts við okkur í þessu sambandi. Við reynum að nýta annað alþjóðlegt samstarf í þessu sambandi því við erum fámenn. Við reynum að nýta EFTA-samstarfið. EFTA tekur þátt í þessu nefndarstarfi og miðlar því síðan áfram til EFTA-ríkjanna. Við reynum líka að nýta okkur Norðurlandasamstarfið. En ég tel að það sé mjög mikilvægt á þessu stigi að forsn. þingsins og utanrmn. kynni sér hvernig þetta hefur gengið fyrir sig, hver reynslan er af því og í framhaldi af því mætti af þessu reyna að læra hvernig þingið geti aukið áhrif sín í þessu sambandi. Utanrrn. mun að sjálfsögðu greiða fyrir því á allan hátt að auðvelda þinginu að fara yfir þau mál núna á nýjan leik í ljósi reynslunnar. Ég tel að það eigi að vinna að því núna á næstu mánuðum.