Viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:54:34 (5020)

1997-04-04 12:54:34# 121. lþ. 99.12 fundur 480. mál: #A viðbætur við I. viðauka við EES-samninginn# þál., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:54]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Mér finnst þetta vera athyglisverð umræða. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að koma með sín sjónarmið í umræðuna og undirtektir hæstv. ráðherra í þeim efnum.

Erindi mitt hér að taka þátt í þessari umræðu er einmitt að velta aðeins upp þessari nýju stöðu gagnvart Evrópusambandinu sem við þurfum að ræða. Við vitum vitaskuld að samningurinn og aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu gefur okkur mjög marga efnahagslega kosti. Við erum hins vegar að horfast í augu við að samruninn innan Evrópu, einmitt innan Evrópusambandsins er alltaf að verða meiri og meiri og flest ríki í Evrópu ætla sér aðild að Evrópusambandinu. Nú síðast var það yfirlýsing Jeltsíns Rússlandsforseta þegar hann setti fram óskir um aðild að Evrópusambandinu, nokkuð sem menn höfðu ekki látið sér detta í hug fyrir tveimur eða þremur árum. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að endurmeta þessa stöðu, sérstaklega í ljósi þess að ríkjaráðstefnan sem nú er í gangi innan Evrópusambandsins mun marka ákveðna umgjörð fyrir þetta samstarf. Ég er ekki að leggja til að við eigum að gerast aðilar að Evrópusambandinu, slík umræða yrði að fara fram undir öðrum kringumstæðum, en þetta mál þarf hins vegar að ræðast meira en gert er hér á landi. Ég vildi sérstaklega vekja athygli á einni hugmynd Grósku, þ.e. samtaka yngra fólks á vinstri kanti stjórnmálanna með aðild jafnaðarmanna og ungliðahreyfinga Alþfl., Alþb. Kvennalista, Þjóðvaka og annarra óflokksbundinna. Þessi samtök hafa varpað fram hugmynd um Evrópusambandið sem mér finnst alveg vera verð umhugsunar. Þau hafa sagt sem svo: Við skulum láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Ef niðurstaða í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sú að við ættum að sækja um aðild og samningar hæfust og samningar tækjust þá mundu þeir samningar vitaskuld verða bornir undir þjóðaratkvæði eins og gert er í öllum ríkjum. Hér er sem sagt um að ræða hugmynd um tvær þjóðaratkvæðagreiðslur til að auðvelda þetta ferli og umræðu í okkar þjóðfélagi. Ég held að þetta sé vert umhugsunar því að vitaskuld, ef þessi hugmynd yrði tekin alvarlega, mundi fara fram umræða um hvort við ættum að sækja um aðild og hvaða samningsmarkmiðum við ættum að fylgja eftir, eða þá um hitt sjónarmiðið að við höfum þegar náð þeim ávinningi í samstarfi okkar við Evrópuríkin með EES-samningnum, Norðurlandasamstarfi og á sviðum ýmissa alþjóðasamtaka að ástæðulaust sé að óska eftir nánari tengslum.

Mín skoðun er sú að innan nokkurra ára verðum við eins og langflest ríki í Evrópu og líklega öll ríki í Evrópu orðin aðili að Evrópusambandinu. Það yrði vitaskuld ekki það Evrópusamband sem er í dag en þjóðir Evrópu hafa valið sér þennan vettvang til samstarfs og ég tel að þróunin muni ekki fara fram hjá okkur hvað þann þátt varðar. En erindi mitt fyrst og fremst var að vekja athygli á þessari hugmynd Grósku sem ég trúi að gæti auðveldað nokkuð umræðuna um Evrópumálin hér því hún hefur oft verið viðkvæm og menn hafa kannski ekki komist nógu skýrt að henni. Stærsti stjórnmálaflokkurinn hefur reyndar lýst því beinlínis yfir að málið sé ekki á dagskrá og allt að því bannað umræðu um það. En mér finnst uppleggið í þessari umræðu vera þó þannig að menn vilji ræða þessi mál í víðara samhengi.