Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 13:46:28 (5025)

1997-04-04 13:46:28# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[13:46]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ánægjuefni hve hratt gengur að semja milli stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði og vinnuveitenda og þar með að komast hjá verkföllum. Það er þó enn allsendis óljóst hvort þeir samningar sem gerðir hafa verið verða samþykktir og greinilegt að víða er mikil óánægja. Það er því erfitt að meta hver hin endanlegu áhrif kjarasamninganna verða á útgjöld ríkissjóðs og efnahagslífið almennt enda á eftir að semja við stóran hluta opinbera geirans eins og fram kom í máli hæstv. forsrh.

Hæstv. forseti. Það fer litlum sögum af samningum opinberra starfsmanna við ríkið enn einn ganginn og væri fróðlegt að fá upplýst á hverju stendur á þeim bæ ef frá er talin deilan um nýtt launakerfi sem BSRB leggst gegn af hörku. Hver er launastefna ríkisins og hvað líður þeim áformum að draga úr launamun kynjanna? Ætlar ríkisstjórnin að marka ákveðna stefnu í þeim efnum eða á að láta mosavöxnum forstjórum eftir að taka upp launakerfi innan sinna stofnana? Hvers er að vænta af slíku kerfi?

Reynsla Dana og Svía af valddreifðum kjarasamningum og auknu svigrúmi stofnana er sú að launamunur hafi aukist almennt og að bilið milli kynjanna hafi vaxið. Því er auðvitað hægt að svara með markvissri stefnu ríkisins í launamálum sem á að ganga á undan með góðu fordæmi og fylgja sinni eigin jafnréttisstefnu eftir. Það er auðvitað fyrst og fremst spurning um pólitískan vilja hvort tekst að útrýma því óþolandi launamisrétti kynjanna sem hér viðgengst og telst til margfaldra brota á alþjóðlegum sáttmálum og mannréttindum.

Hæstv. forseti. Það hefur verið stefnan í þeim kjaraviðræðum sem yfir standa að hækka lægstu laun og það kemur konum vissulega til góða. En það þarf að ganga skrefi lengra, horfa til nýrrar aldar og semja um langtímaaðgerðir sem byggjast á því að útrýma með öllu ástæðulausu, forneskjulegu og óréttlátu launamisrétti kynjanna.