Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 14:09:00 (5035)

1997-04-04 14:09:00# 121. lþ. 99.95 fundur 271#B ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þess síðasta sem nefnt var þá ítreka ég að gert er ráð fyrir því að þær bætur sem þar er um að ræða og hækkanir taki gildi á svipuðum tíma og hinir almennu samningar. Það gildi frá svipuðum tíma og skarist því ekki.

Ég get nú ekki svarað öllum þeim viðbótarspurningum sem hér hafa komið fram á þessum stutta tíma, þeim tveimur mínútum, sem hér eru til umráða nú. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir spurðu hvers vegna ekki var fylgt tillögum Alþýðusambandsins í skattamálum. Það hefur verið skýrt áður að Alþýðusambandið vildi fjölga skattþrepum og auka þar með eftiráskatta. Afleiðingin af því væri sú að skattalækkanir gætu ekki komið til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár. Þessa leið vildi ríkisstjórnin ekki fara og fór því aðra leið sem er hagstæðari að okkar mati fyrir skattkerfið og fyrir launþega.

Varðandi það sem nefnt var um tryggingarákvæði þá get ég sagt fyrir mitt leyti að ég er afar sáttur við þetta tryggingarákvæði og tel að þeir þættir sem það er byggt á séu í hollu fari. Ég vek athygli á því að ráðstöfunartekjur hér á landi hafa aukist meir en í ríkjum OECD, bæði í fyrra og hittiðfyrra, og við gerum ráð fyrir því að kaupmáttur okkar muni aukast um 3,5--5% meðan hann mun ekki aukast nema um 2,5--3% í viðmiðunarríkjunum. Sem segir með öðrum orðum að við erum mjög að draga á okkar helstu viðmiðunarríki í kaupmáttaraukningu. Það hlýtur að vera fagnaðarefni.

Atvinnuleysi var hér talið mesta vandamál sem ríkisvaldið hafði við að glíma. Það var 5% í hittiðfyrra, 4,3% í fyrra og er nú talið verða 3--3,5%. Þannig að þarna erum við líka á réttu róli varðandi samningsgerðina og þær kjarabætur sem menn eru að ná og verðbólgan fer ekki úr böndum, verður 2,5--3%. Þetta eru mikilvægustu atriði þessarar samningsgerðar og efnahagsstefnu í framhaldi af því. Hagvöxtur verður hér væntanlega 3,4--3,5% á sama tíma og hann er aðeins 2,6% í OECD-ríkjunum. Við erum þannig að draga mjög mikið á frá samanburðartölunum 1993 því kaupmáttaraukning verður rúmlega 20% hjá okkur en kannski rétt rúmlega 10% hjá viðmiðunarríkjunum þannig að við erum að draga á í kjarajöfnuði við önnur lönd.