Úrskurðarnefnd í málefnum neytenda

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 14:47:00 (5037)

1997-04-04 14:47:00# 121. lþ. 99.18 fundur 383. mál: #A úrskurðarnefnd í málefnum neytenda# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:47]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að ítreka hversu mikilvægt þetta frv. er og taka undir þau orð sem hv. 1. flm. hafði um það. Það hefur lengi verið til vansa hvernig neytendamálum er komið hér á landi og í þessum málaflokki höfum við dregist aftur úr og stjórnvöld hafa, eins og hér hefur verið rakið, ekki tekið frumkvæðið sem vissulega hefur þó verið þörf á og oft hefur virkilega verið brotið á fólki. Neytendasamtökin hafa auðvitað reynt það sem þau hafa getað og á sumum sviðum hefur tekist vel til. En hér á landi er t.d. ekki neinn sérstakur stjórnskipaður umboðsmaður neytenda eins og þó er á öllum hinum Norðurlöndunum þannig að fólk veit oft ekki hvert það á að leita með vandamál sín. Að mörgu leyti hefur þetta komist í þokkalegt horf fyrir frumkvæði Neytendasamtakanna, t.d. með skipun þessara kvörtunar- og úrskurðarnefnda sem hér voru upp taldar. En betur má ef duga skal og ég held að það væri mjög til úrbóta ef Alþingi samþykkti það sem hér er lagt til með að fela ríkisstjórninni að koma á fót þessum tveimur úrskurðarnefndum sem fjalli annars vegar um ágreiningsmál neytenda og opinberra þjónustufyrirtækja og hins vegar um ágreiningsmál neytenda og sjálfstætt starfandi sérfræðinga.