Rannsókn á brennsluorku olíu

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 14:50:18 (5038)

1997-04-04 14:50:18# 121. lþ. 99.19 fundur 421. mál: #A rannsókn á brennsluorku olíu# þál., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:50]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 723 sem er um rannsóknir á brennsluorku olíu. Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera rannsókn á orsökum þeirra breytinga sem verða á brennsluorku olíu þegar hún streymir í gegnum svokallaðan orkuplúsbrennsluhvata.``

Mælingar hafa verið gerðar á mismunandi brennsluvélum, bæði hér á landi og erlendis og sýnt hefur verið fram á með nokkrum rökum að bruni olíunnar er betri þegar brennsluhvati er notaður. Sumar mælingar hafa sýnt fram á allt að 3--7% olíusparnað.

Vísindamenn telja að mælingar sem gerðar hafa verið á brennsluvélum skýri ekki fullkomlega hvað er að gerast og því þurfi að framkvæma rannsóknir til þess að geta skýrt breytingarnar með eðlis- og efnafræðilegum rökum.

Brennsluhvatinn er í notkun í nokkrum fiskiskipum og telja margir að um góðan árangur hafi verið að ræða, m.a. minni sótmengun, hreinni vélar og betri bruna. Nokkrir vöru- og fólksflutningabílar hér á landi nota búnaðinn með góðum árangri. Yfirvöld í nokkrum borgum víða um heim hafa látið setja brennsluhvatann í samgöngutæki borganna sem knúin eru dísilvélum til að minnka mengun.

Olíukostnaður íslenska fiskiskipaflotans er u.þ.b. 4 milljarðar kr. á ári og ef 5% sparnaður næst er um verulega fjármuni að ræða og þótt prósentan væri lægri er til mikils að vinna.

Það hefur verið keppikefli okkar Íslendinga samkvæmt margyfirlýstri stefnu að draga úr ónauðsynlegri mengun. Eðlilegur þáttur í þeirri viðleitni hlýtur að vera að veita fé til rannsóknar af því tagi sem hér um ræðir.

Líklegt er að meðalskuttogari noti um 1,5 milljónir lítra af eldsneyti á ári. Samsvarandi olíukostnaður er um 16--23 millj. kr. á ári, og sparnaður um 4--5% gæfi því 700--1.100 þús. kr. lækkun á olíureikningi fyrir skuttogara og einhvern tímann hefði nú þótt, herra forseti, vera við hæfi að ýta fleyi úr vör fyrir slíka upphæð.

Minnkun koltvíildis í útblæstri er talin verða töluverð við notkun brennsluhvata. Mikil nauðsyn er að fram fari rannsókn af því tagi sem hér um ræðir ef unnt er með notkun slíks búnaðar að ná fram virkni gegn gróðurhúsáhrifum á skjótan hátt eins og líkur benda til.

Ég vil vitna hér til fylgiskjala sem eru með þessu frv., fskj. I, sem er frá tveimur prófessorum við verkfræðideild Háskólans, Valdimari K. Jónssyni og Braga Árnasyni. Þeir segja:

,,Við undirritaðir prófessorar við Háskóla Íslands lýsum yfir samstarfsvilja um rannsóknir á því að greina orsakir þeirra breytinga sem verða á brennsluorku olíu þegar hún streymir í gegnum orkuplúsbrennsluhvata.``

Þeir segja að uppsetning tækja sé tiltölulega auðveld og flest nauðsynleg mælitæki séu til staðar við Háskóla Íslands. En nauðsynlegt sé að kaupa rekstrarvörur fyrir u.þ.b. 300 þús. kr. og að helsti kostnaðurinn sé launakostnaður rannsóknarmanna sem er áætlaður í 7--9 mánuði 1,3--1,5 millj. kr. Þeir koma inn á að gerðar hafi verið ýmsar mælingar á brennsluvélum en ekki hafi verið unnt að greina ástæðurnar fyrir þessum efnahvörfum sem verða.

Einnig er ástæða til að vitna til fskj. IV þar sem segir í skýrslu frá Fiskifélagi Íslands að samanburðarmæling hafi verið gerð á hjálparvél í Snorra Sturlusyni og þar hafi náðst verulegur sparnaður. Við t.d. 64% álag á vél hafi náðst 5,2% sparnaður og það er ekki svo lítið sem um er að ræða en ekki var aðstaða þar til að mæla sparnaðinn við 100% álag.

Það er rétt að benda á að í fskj. V, þar sem notaður er þessi brennsluhvati, er um að ræða skýrslu frá Eimskip um orkunotkun í Sundahöfn á dráttarbíl og gámalyftara annars vegar. Og það má vitna til þess að um hefur verið að ræða, t.d. í Scania R 143 dráttarbíl, verulega minnkun köfnunarefnissambanda upp á 33,3%, á öðrum efnum minnkun upp á allt að 40% og heildareldsneytiseyðsla minnkaði um 8%. Sama má segja um Boss gámalyftara þar sem var um verulegan sparnað að ræða og eldsneytiseyðsla minnkaði um 7%. Og bara við að eldsneytisneyslan minnkar þá minnkar koltvíildismengunin einnig.

Þessi brennsluhvati hefur einnig verið notaður við svartolíubrennslu t.d. hjá Ísaga, sem segir frá í fskj. VI. Þar hefur sparnaðurinn orðið á þann veg að sóttala sem var yfir þrír minnkaði niður í rúmlega tvo miðað við Bosch-skala. Þessi minnkun á sóti leiddi til þess að tímabilið á milli hreinsana lengdist úr einum mánuði í þrjá sem hefur mikinn sparnað í för með sér. Nýtni ketilsins hafði aukist hjá þeim um allt að 8%.

Fullyrða má að hagræn áhrif geta orðið mikil ef niðurstöður verða þær sem vísbendingar gefa tilefni til.

Umhverfisáhrif eru slík af minnkun eldsneytisnotkunar að álykta ber að rannsókn sem hér um ræðir verði að fara fram hið fyrsta.

Fylgigögnin með þessari greinargerð vitna um það sem sett er fram sem rök fyrir því að þingsályktunartillaga þessi fái skjóta afgreiðslu.

Herra forseti. Ég vil vísa þessu máli til hv. umhvn. og ég vona að um leið verði hugað að fjárveitingu til umhvrn. vegna þessa verkefnis við næstu fjárlagagerð. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál en ég bendi eindregið á að hér er um mikinn sparnað að ræða og það hefði einhvern tímann þótt vera ástæða til að ýta fleyi úr höfn fyrir 200 millj. kr. þótt leggja þyrfti til þess röska milljón.