Erlendar skuldir þjóðarinnar

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 15:06:37 (5040)

1997-04-04 15:06:37# 121. lþ. 99.20 fundur 431. mál: #A erlendar skuldir þjóðarinnar# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:06]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir efni þessarar tillögu. Ég tel að það hefði fyrir löngu átt að gera áætlun af þessu tagi og hef satt að segja fyrr á mínum ferli gert atlögu að slíku verki. Ég tel mig hafa sýnt nokkuð rækilega fram á það í bókarkorni sem ég skrifaði og gaf út fyrir tveimur árum að það er hægt að ná því marki að afnema þessar skuldir. Þetta er spurning um stefnufestu og spurning um forgangsröð. Ég tel að þetta sé svo mikilvægt forgangsatriði að það eigi að vera framar en mjög mörg önnur forgangsatriði. Ég held að menn ættu hugsanlega í þessu sambandi að sameinast um að tiltekinn hluti hagvaxtar fari í verkið á einhvern máta eða eitthvað þess háttar. Það mætti miða við einhverja stærð án þess að ég segi í einstökum atriðum hvað það ætti að vera en alla vega finnst mér að það sé mikilvægt að þetta sé gert og sagt hér á Alþingi að þetta sé mikilvægt forgangsatriði.

Ég þakka hv. þm. fyrir að flytja þessa tillögu en gagnrýni hann mjög harðlega fyrir að hafa ekki boðið mér að gerast meðflutningsmaður.