Efling iðnaðar sem nýtir ál við framleiðslu sína

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 15:24:45 (5043)

1997-04-04 15:24:45# 121. lþ. 99.21 fundur 447. mál: #A efling iðnaðar sem nýtir ál við framleiðslu sína# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:24]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þál. um átaksverkefni til eflingar iðnaði sem nýtir ál við framleiðslu sína. Um er að ræða afskaplega mikilvægt mál og í rauninni þarft að þingið ræði það því þetta snertir marga þætti í efnahagslífi okkar og líklega snýst það fyrst og fremst um að auka fjölbreytni og stöðugleika í efnahagsmálum Íslendinga. Það snýst um að nýta auðlindir okkar. Það snýst um fullvinnslu og þá um leið að setja fleiri egg í efnahagskörfu okkar til að auka á efnahagslegan stöðugleika og framfarir.

Það má, herra forseti, með sanni segja að Íslendingar hafi lengst af verið veikir hvað varðar fullvinnslu almennt, einkum þó í sjávarútvegi okkar. Þar höfum við verið meira og minna útflutningsþjóð og lítið sinnt fullvinnslu. Til allrar hamingju hafa orðið miklar framfarir á því sviði á síðustu missirum og jafnkaldhæðnislega og það hljómar má segja að gæfa okkar hafi verið um sumt sá mikli samdráttur sem verið hefur í fiskveiðum Íslendinga því nú þegar við komum úr þeim öldudal komum við reynslunni ríkari og höfum lært og stigið mjög mikilvæg skref í átt til fullvinnslu sjávarafla og aukinnar verðmætasköpunar þar sem við nýtum náttúrulegar auðlindir og síðan mannauðinn.

Hér er verið að ræða um fullvinnslu og útflutning á áli sem hráefni. Um þriggja áratuga skeið höfum við verið útflutningsþjóð á áli sem hráefni þó vissulega megi jafnframt líta á álið sem afurð úr verksmiðju. En það er hins vegar, má segja, grátlegt að horfa á þetta merkilega hráefni sem útflutningsvöru án þess að verulegar tilraunir séu gerðar til þess að nýta þá möguleika sem þetta efni felur í sér. Í þessu samhengi má upplýsa að á vegum iðnrh. hefur í vetur starfað nefnd sem undirritaður stýrir þar sem er m.a. verið að skoða þær leiðir sem hér er verið að nefna og ég fagna því að þessi þáltill. er komin fram. Hún hlýtur að styrkja störf nefndarinnar þó að hún sé reyndar komin að lokastigum og eigum við von á að skýrsla hennar verði birt innan fárra vikna. En það er jafnframt afskaplega mikilvægt að þingið lýsi vilja sínum í málum sem þessum því þetta snýst auðvitað um stórmál --- fullvinnslu og stöðugleika í efnahagsmálum.

Ég hefði aðeins, í þessu samhengi, viljað víkja örfáum orðum að störfum þessarar nefndar. Sérstaklega vil ég nefna að eins og við má búast er málið alls ekki einfalt einkum þegar kemur að þeim þætti sem nefnist völsun, þ.e. að taka hina svonefndu barra, útflutningsafurð álvera, og skera þá niður í þá þykkt sem þarf í hinn aðskiljanlegasta iðnað. Það er slík fjárfesting að koma upp völsunarverksmiðju að það virðist nokkuð ljóst að Íslendingar munu seint verða til þess enda eru meira að segja frændur okkar Norðmenn, sem um langt árabil hafa verið iðnir við framleiðslu á áli, á undanhaldi með völsunarverksmiðjur enda mun ein slík risastór vera komin upp í Þýskalandi og nær hún að undirbjóða völsunarverksmiðjur í Noregi. Hins vegar hafa Íslendingar verið að stíga nokkur skref í þessa átt. Ég nefni þar sérstaklega fyrirtæki á borð við Hellu í Hafnarfirði, en það byggir á steypustarfsemi þar sem verið er að steypa úr áli og hefur þetta litla fyrirtæki náð ótrúlegum árangri og er farið að flytja út afurðir sínar. Þar virðast sem sagt liggja gífurleg sóknarfæri.

Ég vil upplýsa að á vegum þeirrar nefndar sem starfar á vegum iðnrn. fengum við fulltrúa, m.a. frá þýsku Volks\-wagen\-verksmiðjunum og öðrum bílaframleiðendum til þess að hlera hjá þeim hvaða kröfur slíkir framleiðendur gerðu til birgja sinna með það í huga hvort Íslendingar gætu m.a. vegna fjarlægðar framleitt hluti í bílaverksmiðjur. Þar kom m.a. fram, sem er afskaplega mikilvægt, að fjarlægðin skiptir ekki máli. Þá kom jafnframt fram að fram undan eru þau verkefni hjá bílaverksmiðjum heimsins að gera bíla léttari, m.a. af mengunarástæðum, til þess að þeir mengi minna og þar mun ál og magnesíum gegna lykilhlutverki. Þar eru okkar sóknarfæri en í ljós kemur, herra forseti, við athugun að Íslendingar eru mjög vanafastir og hefðbundnir á ýmsum sviðum. Í skipaiðnaði og byggingariðnaði virðumst við hafa fest okkur í hefðbundnum byggingarefnum svo sem viðarefnum og plastefnum, þar sem álið virðist að mörgu leyti geta komið í stað þessara hefðbundnu efna. Hið sama gildir um matvælaiðnað, fiskvinnslu og þannig má áfram telja.

[15:30]

Innan Háskóla Íslands og Iðntæknistofnunar er unnið mjög ötullega að þróunarstarfi á þessu sviði og þar eru þróunarmöguleikar sem eiga eftir að nýtast okkur verulega. Vandinn er augljós, kynningin á möguleikum álsins er lítil, hugvitið er þó til staðar en víða er pottur brotinn í menntunarstigi okkar hvað varðar vinnslu og meðferð á þessum málmi. Þar þarf á að taka og einnig að nýsköpun sé sinnt.

Tími minn er senn á þrotum og verð ég því að hlaupa yfir nokkur atriði. Mig langar rétt í lokin að greina frá efnisþáttum sem verða í væntanlegri skýrslu á vegum iðnrn. þar sem lagt verður til að efnt verði til verulegrar kynningar á möguleikum álsins innan þess atvinnulífs sem nú þegar er til staðar. Það verði litið til menntunarþáttar, hann er forsenda þess að við náum að bæta okkur á þessu sviði, það verði leitað að nýtingu innan lands, það verði komið upp svonefndum álgarði þar sem reynt er að safna saman þeirri þekkingu og þróunarstarfi sem á sér stað og mun eiga sér stað og þar fram eftir götunum. Lykilatriðið verður þó að ef til þeirrar magnesíumverksmiðju kemur sem framsögumaður nefndi hér, þá hef ég trú á að slíkar breytingar verði í atvinnulífi okkar að ég trúi því að þá hefjist nýtt skeið í atvinnusögu Íslendinga. Það byggir einfaldlega annars vegar á því sem ég nefndi áðan um kröfur bílaiðnaðarins og hins vegar þeirri staðreynd að við úrvinnslu úr magnesíum borgar sig ekki að flytja magnesíum og bræða það upp aftur heldur þarf úrvinnslan helst að fara fram í skotfæri frá magnesíumverksmiðjunni sjálfri þannig að hægt sé að láta magnesíum renna fljótandi. Þannig munu nýtingarmöguleikar okkar verða gífurlegir í kjölfarið ef af verður. Það mun efla menntunarstig okkar, rannsóknarstig og mikið framfaraskeið hefjast hjá íslenskri þjóð.