Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 16:53:26 (5058)

1997-04-04 16:53:26# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú kveður nýrra við því að hv. þm. ræðir um það hér að Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sé gagnkvæmt tryggingafélag. Það er ekki en um það snýst málið. Það er verið að taka á því fyrirtæki sem nú er til staðar eða er þingmaðurinn að snúa klukkunni aftur til 1994? Það er bara allt annar hlutur. Fyrirliggjandi eru lög í þessu landi sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson samþykkti, sem fleiri hugsanlegir flutningsmenn þó ég geti ekki munað það í augnablikinu hverjir þeir voru. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var ekki á þingi þá og ekki hv. 16. þm. Reykv. (EOK: ... það frv. Þú fluttir það sjálfur.) Ég er bara að benda á að meðal flutningsmanna voru menn sem samþykktu þetta fyrirkomulag mála og raunar þingheimur allur. Það á því hreinlega ekkert við hér þetta tal um gagnkvæmt tryggingafélag. Hliðstæðurnar sem ég er að nefna hér eru alveg skýrar og eiga við, þ.e. um er að ræða Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands undir stjórn sveitarfélaga í landinu og ég frábið mér alla stóradóma frá hv. þm. Pétri H. Blöndal um sveitarfélögin í landinu og þann tón sem er að finna í hans tali um þau. Hann talar um þau eins og einhverja niðursetninga sem ráða ekki við sín verkefni og það þurfi að taka þeim tak o.s.frv. Ég veit ekki hvort hann talar þar fyrir munn annarra flutningsmanna. Það væri fróðlegt að heyra viðhorf hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og 1. flm. til þeirra mála, hvort þeir deili sjónarmiðum hv. þm. Péturs H. Blöndals í afstöðu sinni til sveitarfélaga. Hann vill ekkert með þau hafa. Ég tel þau þvert á móti mikilvægt stjórntæki í okkar landi og ber fullt traust til þeirra, enda lýðræðislega kjörin og ekkert síður en til þess stjórnkerfis sem er að finna í þessu húsi né heldur til þess framkvæmdarvalds sem við þekkjum best og raunar verst líka, ríkisstjórnar og Stjórnarráðs.