Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 16:55:51 (5059)

1997-04-04 16:55:51# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[16:55]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. 1994 voru sameinuð Samvinnutryggingar, Líftryggingafélagið Andvaka og Brunabótafélag Íslands, allt tryggingafélög sem störfuðu sem gagnkvæm tryggingafélög. Um gagnkvæm tryggingafélög gilda mjög ströng og nákvæm ákvæði laga víðast hvar í nágrannalöndunum í Evrópu. Þau eru mjög almennt og mikið notað félagsform í tryggingum. Þau starfa þannig að lagt er á ákveðið iðgjald, yfirleitt í hærra kantinum, og síðan þegar í ljós kemur hver tjónareynslan hefur verið, stundum eftir fimm eða sjö ár eða eitthvað slíkt, þá er endurgreitt það af iðgjaldinu sem var of hátt eða krafist er viðbótariðgjald. Hinir tryggðu gangast undir það að borga viðbótariðgjald ef tjónareynslan verður meiri en iðgjaldið var reiknað út frá.

Þetta eru gagnkvæm tryggingafélög og það eru mjög strangar reglur um það í flestum löndum hversu stóran hluta af hagnaðinum megi færa til félagsins sem rekur tryggingarnar og hversu stóran hluta eigi að færa til hinna tryggðu sem eru þá eigendur þess fjár. Hér á landi hefur löggjöf um gagnkvæm tryggingafélög verið of fátækleg.

Upp úr þessum þremur tryggingafélögum var stofnað Tryggingafélagið VÍS og þær eignir sem voru í Brunabótafélagi Íslands voru fluttar yfir í eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands árið 1994. Þar var svo myndaður sameignarsjóður sem er eigið fé félagsins. Þarna var fjöldi af eigendum, um 66 þúsund eins og hér hefur komið fram, sem átti þessi of háu iðgjöld og voru þar af leiðandi eigendur að þessu eignarhaldsfélagi við stofnun. Það kemur fram í lögunum að þeir eru eigendur.

Hönnunin á sameignarsjóðnum í eignarhaldsfélagi Brunabótafélagsins er aftur á móti mjög skrýtin. Þar er gert ráð fyrir að ef einhver af þeim einstaklingum sem hafði greitt of hátt iðgjald og átti þar af leiðandi kröfu á félagið, átti eign inni hjá félaginu, félli frá, þá mundi eign hans hverfa til sameignarfélagsins. Það var gert hreinlega ráð fyrir því að við dauða mannsins mundi eign hans deyja líka og að sameignarsjóðurinn, sem er eign sveitarfélaganna sem áttu aðild að Brunabótafélagi Íslands, erfði manninn. Þetta er náttúrlega dálítið undarlegt í ljósi eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

Það er ljóst að sveitarfélögin hafa engan áhuga á því að slíta þessu félagi fyrr en eftir svona 40--50 ár vegna þess að þau erfa sífellt fleiri og fleiri einstaklinga sem eiga þessa eign. Ef fyrirtæki er lagt niður eða verður gjaldþrota, þá gerist það sama. Eignin fer ekki inn í þrotabúið. Nei, hún á að renna til sameignarsjóðsins sem sveitarfélögin ráðstafa. Sveitarfélögin hafa samkvæmt þessum lögum ákvörðunarvald yfir því hvort félaginu verður slitið eða ekki. Það eru ekki þessir 66 þús. tryggðu sem hafa ákvörðunarvald um það. Nei, það eru sveitarfélögin. Þessir 66 þús. tryggðu sem áttu inni of há iðgjöld sem átti að endurgreiða, eru sviptir yfirráðum yfir eign sinni.

[17:00]

Herra forseti. Það gæti orðið verðugt verkefni fyrir dómstóla landsins er erfingi látins tryggingataka eða þrotabú gjaldþrota fyrirtækis sem átti innstæðu 1994 færi í mál og krefðist þess að fá eign sína viðurkennda hjá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélagsins. Ég get ekki séð og ég set stórt spurningarmerki við að hægt sé að láta þessa eign hverfa, láta sveitarfélögin erfa manninn eða taka yfir eign þrotabúsins. Ég sé það ekki. Þetta gæti orðið mjög verðugt verkefni og ég bíð þess spenntur að slíkt mál komi upp.

Herra forseti. Hér kom fram að þetta séu í fyrsta lagi litlar upphæðir og kom líka fram að einstaklingar séu dauðlegir og sveitarfélögin séu varanleg og þau vanti aura og það eigi að vera rökstuðningurinn fyrir því að þau fái þessar eignir. Þetta er náttúrlega alveg út í hött. Það er ekki hægt að taka eign af mönnum bara af því að einhvern annan vantar hana, það er ekki hægt. Fólk munar um þessa peninga, fólk og fyrirtæki um allt land, þetta er yfirleitt allt saman úti á landi, þessa 3 milljarða sem við erum að tala um.

Herra forseti. Nú áttu íbúar Reykjavíkur líka inneign, þeir eru líka þarna inni því að þeir voru búnir að tryggja hjá þessum félögum bíla, innbú og annað slíkt þó að þeir væru ekki skyldutryggðir með húsnæði sitt. En Reykjavíkurborg á engan þátt í stjórnun þessa fyrirtækis þannig að hugsanlegt er að þar sé líka um að ræða að það sveitarfélag sem er langstærst sé með á sínum snærum einstaklinga sem eigi innstæður hjá þessu félagi, en sveitarfélagið hefur engin áhrif á það hvernig henni er ráðstafað.

Að lokum, herra forseti, velti ég fyrir mér hvað hefur gerst með eignir hinna tryggðu hjá Andvöku og Samvinnutryggingum. Þar hefur nefnilega verið að gerast nákvæmlega það sama. Þar hefur fólk borgað of há iðgjöld í fjölda ára og átt innstæðu í þeim tryggingafélögum þegar þessi breyting átti sér stað að VÍS var stofnað. Það fólk á eflaust með nákvæmlega sömu rökum innstæðu og eign hjá eignarhaldsfélagi þeirra félaga án þess að ég viti nákvæmlega um það. Það getur verið verðugt verkefni að kanna hvort sú eign eigi ekki líka að snúa til fólksins sem á hana.

Varðandi Húsatryggingar Reykjavíkur sem hér hafa verið nefndar, þá er það þannig að Húseigendafélagið samkvæmt gömlum lögum átti að fylgjast með þeim stofni sem þar myndaðist. Það var því viðurkennt fyrir löngu síðan að húseigendur, þ.e. hinir tryggðu, hefðu eitthvað með félagið að gera. Það má vel vera, ég hef ekki kannað það reyndar, að íbúar Reykjavíkur, þ.e. húseigendur í Reykjavík sem voru skyldaðir til að tryggja hjá Húsatryggingum Reykjavíkur, yfirleitt með of hátt iðgjald því að þarna myndaðist mikill sjóður, eigi líka innstæðu hjá því félagi. Þó held ég að það hafi ekki verið tekið fram að það félag væri gagnkvæmt tryggingafélag. Ef það hefur verið tekið fram að það sé gagnkvæmt tryggingafélag, þá eiga þeir að sjálfsögðu þá innstæðu, en ég hygg að svo hafi ekki verið. Það er líka verðugt verkefni að skoða hvort einstaklingar eiga þar innstæður.

Mér finnst allt þetta mál snúast um hvernig einstaklingurinn stendur gagnvart sveitarfélaginu. Hér virðist mér sem verið sé að ganga á rétt og eignarrétt einstaklinga og flytja hann yfir til sveitarfélaganna og mér finnst ekki hæfa að slíkt sé gert.