Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 17:23:13 (5061)

1997-04-04 17:23:13# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:23]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands. Ég verð að viðurkenna það, hæstv. forseti, að ég hefði helst viljað vera laus við að tala um þetta frv. frá þeim ágætu hv. þingmönnum sem eru flutningsmenn þess, svo mikils sem ég met þá alla. En lengi skal manninn reyna og ég ætla ekki að reyna að komast að neinni niðurstöðu um það eða geta mér neitt til um það hvers vegna þetta frv. er flutt, en ég efast ekki um að að baki býr stríð meining um úrbætur fyrir okkar litla samfélag. Hvað um það, frv. snýst um það að slíta þessu félagi.

Áður en ég ræði um það efnislega vil ég rifja aðeins upp staðreyndir sem varða þetta félag. Í fyrsta lagi það að Brunabótafélag Íslands gegndi á sinni tíð sem tryggingafélag mjög mikilvægu hlutverki. Það var stofnað fyrir margt löngu og var barn síns tíma, hafði verkefni og viðfangsefni sem sneru að því að tryggja fyrir landsmenn, auk þess sem það gegndi því hlutverki að vera eins konar bakhjarl fyrir sveitarfélögin með einum eða öðrum hætti, m.a. með því að Brunabótafélagið veitti lán og ýmiss konar stuðning. Einkum og sér í lagi var það tengt eldvörnum, bæði hvað varðar slökkviliðsbúnað og einnig og ekki síður sem er auðvitað mikilvægur þáttur í eldvörnum að tryggja það að vatnsveitur væru í sveitarfélögunum. Þekki ég það af eigin raun hversu mikils virði stuðningur Brunabótafélagsins varðandi þá hluti var.

Síðan leið tíminn og hlutirnir breyttust. Ég tók þátt í því á síðasta kjörtímabili í tengslum við samningana um hið Evrópska efnahagssvæði að breyta lögunum um Brunabótafélagið. Breytingin kom til vegna þess að það samræmdist ekki samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að haga brunatryggingum eins og gert var. Í kjölfarið á því var síðan selt og einkavætt m.a. fyrirtækið Húsatryggingar Reykjavíkur o.s.frv. en Brunabótafélagið varð að eignarhaldsfélagi eins og hér hefur verið rækilega skýrt sem er eigandi að Vátryggingafélagi Íslands.

Þegar Vátryggingafélag Íslands varð til, þá urðu heilmiklar deilur. Menn voru ekki á eitt sáttir um það að slengja saman Samvinnutryggingum og Brunabótafélaginu með þessum hætti og ég var einn þeirra sem hafði uppi vissar efasemdir um þá aðgerð á þeim tíma. Það varð ofan á engu að síður. Í framhaldi var síðan lögum breytt eins og ég nefndi áðan þannig að eignarhaldsfélagið varð til. Ég minnist þess ekki að það hafi verið mjög miklar deilur um setningu þeirra laga á sínum tíma. Ég hafði flutt áður fyrirspurn um það hver ætti Brunabótafélag Íslands. Hæstv. þáv. trmrh. svaraði þeirri fyrirspurn minni og svarið var heldur loðið en aðalatriðið var það þó að ríkið ætti ekki Brunabótafélagið. En eins og kemur fram og er m.a. fskj. með því frv. sem hér er til umræðu, þá var lögð fram greinargerð frá Árna Tómassyni og Tryggva Gunnarssyni um eignarhald á Brunabótafélaginu. Þó að niðurstaða þeirra sé nú í nokkrum véfréttastíl þá skil ég hana sama skilningi í dag og ég gerði þá, að ef einhver hefði með Brunabótafélag Íslands að gera, þá ættu það að vera sveitarfélögin, sveitarfélögin sem höfðu tryggt hjá félaginu, og annað sem var aðalatriði: Sveitarfélögin sem höfðu borið ábyrgð á því gegnum fulltrúaráðið að Brunabótafélagið væri vel rekið, það ávaxtaði sitt pund í þágu sinna viðskiptamanna og ,,eigenda``.

Ég lá ekkert á þeirri afstöðu minni á þeim tíma þegar verið var að ræða þetta að ég taldi að það væri langeðlilegast við þær aðstæður sem þarna höfðu skapast árið 1994 að gengið yrði hreint til verks og fundin yrði leið til þess að færa eignarhald formlega og með ótvíræðum hætti til þessara sveitarfélaga. Það var ekkert einfalt mál vegna þess að þarna höfðu ýmsir aðilar, bæði lögaðilar og einstaklingar, átt í viðskiptum. En þetta varð niðurstaðan og um hana varð sátt hjá þáv. meiri hluta í þinginu. Það kom mér þess vegna mjög mikið á óvart þegar þetta frv. var flutt. En hvað um það. Frv. liggur hér fyrir og með því er lagt til að slíta félaginu.

Forsendurnar fyrir þessum slitum, forsendur fyrir 1. gr., eru að félagið stundi ekki lengur tryggingastarfsemi. Nú er það ekki þannig að Brunabótafélag Íslands hafi hætt tryggingastarfsemi. Það mun ekki gera það fyrr en Landsbankinn hefur greitt hina síðustu krónu fyrir eignarhlutinn eins og það er allt í pottinn búið. Þetta er þannig út af fyrir sig ekki praktískt mál að mínu mati að slíta á félaginu, fyrr en á árinu 1999 þegar Landsbankinn hefur að fullu og öllu keypt hlut Eignarhaldsfélags Brunabótafélagsins í Vátryggingafélaginu og þar með hafi Brunabótafélagið hætt starfsemi í gegnum vátryggingafélagið. Ég tel að frv. sé að þessu leyti ekki tímabært og forsendurnar fyrir 1. gr. séu ekki til staðar.

[17:30]

Síðan tengist þessu mjög skemmtilegur hlutur að mínu mati en engu að síður mjög merkilegur. Það hefur komið upp úr dúrnum að þeir hinir sömu menn, Árni Tómasson og Tryggvi Gunnarsson, sem hafa skrifað lærðan texta um eignarhaldið, eru helstu höfundar og hugmyndafræðingar á bak við kaup Landsbankans á eignarhlut Brunabótafélagsins í Vátryggingafélagi Íslands þannig að þetta er náttúrlega alveg yndisleg uppsetning á þessu og traust skal það vera, að mennirnir sem skrifuðu um þetta eru helstu ráðgjafarnir og skyldi maður ætla að þessi gjörð sé pottþétt.

Ég held engu að síður að þetta frv. og umræðan í þinginu um frv. sé mjög gagnleg vegna þess að þetta mál þarf að skoða. Það er mikil undiralda á fjármagnsmarkaði, tryggingamarkaði og í bankakerfinu og það er ekkert eðlilegra en hv. þingmenn flytji hér frumvörp sem leiða til þess að menn ræði allar hliðar þessarar fjármálastarfsemi sem eignarhaldsfélagið er þátttakandi í en það er mín niðurstaða að ekki eigi að samþykkja þetta frv. Ég tel að eignarhaldsfélagið eigi að ganga þannig til verks, eins og lagt er til af stjórn Brunabótafélagsins núna, að selja Landsbankanum. Ég tel í fyrsta lagi mjög mikilvægt fyrir Landsbankann til þess að styrkja hann í þeim viðskiptum sem hann stendur í og til þess að gera hann að meiri og betri söluvöru þegar hann verður gerður að hlutafélagi og síðan seldur hlutur í þeim banka. Ég tel að þessi aðgerð muni hækka verulega gengið á hlutabréfum í Landsbankanum og þess vegna sé þetta mjög mikilvæg aðgerð.

Að öðru leyti tel ég að það að eignarhaldsfélagið lifi og fari að lögum, m.a. með því að stunda einhvers konar tryggingastarfsemi, það er hægt að gera það með ýmsum hætti, en að eignarhaldsfélagið verði öflugur og sterkur aðili sem geti orðið sveitarfélögunum styrkur og það tel ég að félagið eigi að hafa alla möguleika á. E.t.v. þarf að gera einhverjar breytingar og ég vonast svo sannarlega til þess að hv. flutningsmenn þessa frv. gætu orðið stuðningsmenn þess að gera e.t.v. breytingar á lögum sem hér er verið að fjalla um þannig að það sé ótvírætt í fyrsta lagi að sveitarfélögin fari með þessa eign og að sveitarfélögin geti haft af henni eðlilegan og mikinn arð.

Að öðru leyti vil ég, hæstv. forseti, endurtaka það að ég er ekki stuðningsmaður þessa frv.