Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 17:39:26 (5064)

1997-04-04 17:39:26# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:39]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Þetta er vissulega athyglisvert mál sem hér er til umræðu í dag og mjög merkilegir atburðir, vil ég segja, sem hafa leitt til þess að þetta frv. var lagt fram. Það hefur leitt til þess að ég hef skoðað þau lög sem voru samþykkt fyrir nokkrum árum öllu betur en ég hafði gert áður og í aðeins öðru ljósi. Það hefur hvarflað að mér hvort okkur á hv. Alþingi hafi skotist yfir í því að samþykkja þetta mál og hvort það standist raunverulega eins og lögin eru í dag eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem væntanlega hefur þá verið 67. gr. stjórnarskrárinnar en er í dag 72. gr. Þá á ég við það að í lögunum er skilgreint mjög nákvæmlega hverjir eignaraðilarnir séu og hvernig eigi að reikna út eignarhlut hvers og eins en síðan eru erfingjar þessara eignaraðila sviptir erfðarétti sínum á þessum eignarhlut. Það er þetta atriði sem ég velti fyrir mér hvort standist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég vil fara þess mjög sterklega á leit við þá hv. nefnd sem um þetta mál fjallar að hún skoði þetta gaumgæfilega þannig að ef okkur hefur skotist yfir í þessu tilfelli, sem ég mundi reyndar telja mjög alvarlegt, þá höfum við tækifæri við meðferð þessa frv. til þess að leiðrétta það.

Út af fyrir sig þarf sú leiðrétting ekki endilega að felast í því að Brunabótafélagi Íslands sé slitið. Þetta félag á langa og merka sögu og ekki endilega víst að það sé rétta leiðin til að greiða úr þessu máli. Það gæti jafnvel verið skynsamlegra að þeir sem eru í dag skilgreindir eignaraðilar félagsins fái virkan eignarrétt, yfirráðarétt yfir sínum hlut eignarinnar og að sá eignarhlutur lúti sömu lögum og reglum og gilda um erfðir annarra eigna í okkar þjóðfélagi.

Ég vona, herra forseti, að hv. nefnd skoði þetta gaumgæfilega því að það er mjög mikilvægt að enginn vafi leiki á því að Alþingi gæti stjórnarskrárinnar til hins ýtrasta við lagasetningar.