Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 17:52:16 (5068)

1997-04-04 17:52:16# 121. lþ. 99.23 fundur 482. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[17:52]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson):

Í lok þessara umræðna, herra forseti, þá finnst mér rétt að taka það saman sem hér hefur komið fram. Ég lagði að vísu ríka áherslu á það í upphafi míns máls að það var ákvörðun stjórnar þessa eignarhaldsfélags sem var upphafið að þessu. Þeir ákváðu það sem enginn hafði búist við hér á Alþingi þegar lögin voru sett. Þeir ákváðu að hætta starfsemi. Þeir seldu eignarhlut sinn, þ.e. þann stabba trygginga sem þeir höfðu búið til sjálfir allt frá upphafi félagsins 1917. Þeir voru upphafsmenn þessa máls. Og eins og lögin um eignarhaldsfélagið taka skýrt fram, það getur hver maður lesið og við höfum margsinnis farið yfir það við þessar umræður, þá eru, herra forseti, verkefni félagsins engin lengur. Það veit hver maður að það er alveg óþarfi að vera með svona félag til að styrkja nokkra námsmenn í að læra tryggingafræði. Það veit líka hver maður að vandamál sveitarfélaganna er alls ekki að það vanti lánasýslu fyrir sveitarfélög. Það er til lánasýsla fyrir sveitarfélög. Sveitarfélögin njóta góðra kjara á markaðnum eins og við höfum farið yfir, þau eiga fullan aðgang að lánsfé. Vandamál sveitarfélaganna er ekki skortur á lánsfé. Það er ofgnótt lánsfjár.

Vandamál sveitarfélaganna er að ,,realísera`` sínar eignir. Þess þurfa þau. Nú geta þau gert það. Því tel ég rétt, herra forseti, að mótmæla því, þegar það kemur fram í umræðu hér, að það komi fram óvild í garð sveitarfélaganna í þessu frv., að það sé óvild í garð sveitarfélaganna að fara þess á leit að félaginu sé slitið og réttum tilteknum eigendum afhent eignin eins og lögin kveða á um. Það fær ekki staðist. Með sama móti mætti segja að þeir sem ekki vildu afhenda hana fólkinu sem tryggði þessar eignir, væru óvinir fólksins. Nei, ég ætla ekki að halda því fram að einn eða neinn sem hefur talað gegn þessu sé einhver óvinur fólksins. Þetta fær ekki staðist. Menn mega ekki tala svona og geta ekki sagt svona.

Sveitarfélögin eiga sinn rétt samkvæmt lögum alveg eins og ríkisvaldið, alveg eins og önnur félagasamtök, alveg eins og einstaklingarnir. Það er ekkert að vera á móti sveitarfélögunum að fara þá leið að félagi sé slitið og farið að réttum lögum þannig að eigendurnir sem skilgreindir eru fái sína eign.

Ég hef ekki tekið viðskiptin við Landsbankann inn í þetta mál af ásettu ráði. Mér finnst engin ástæða til þess. Ég vil ekkert vera að draga það inn í þetta. Það er sjálfstæð ákvörðun sem einhverjir menn taka. Ég hef í sjálfu sér ekkert efast um að það sé báðum hagkvæmt þegar menn eiga viðskipti sín á milli. Ég er ekkert að skipta mér af því, herra forseti. Án efa hafa þetta verið hin bestu viðskipti og ég ætla ekkert að skipta mér af þeim, ekki á nokkurn hátt og ekki hafa þau neitt til umræðu að ásettu ráði. En félagið er hætt störfum. Það hefur ekkert starfssvið og því er spurningin: Af hverju ekki að slíta því? Til hvers á það að vera til?

Um eignarhaldið og um eignarréttinn samkvæmt stjórnarskránni hef ég vitnað hér í ummæli sérfræðinganna. Þeir tala alveg opinskátt um að það sé með tilliti til þess að félaginu, þessu eignarhaldsfélagi, sé ætlað að starfa áfram í þágu þeirra markmiða sem Brunabótafélagið vann að, sem þeir réttlæti það að fara fram hjá 67. gr. Það sé bara þess vegna. Og það liggur í augum uppi að í dag eru þeir hættir sjálfir, það var enginn að knýja þá til þess.

Ég vil taka fram að lokum, hafi það vafist fyrir mönnum og hafi það verið óljóst fyrir þinginu þegar þessi lög voru samþykkt, að í fyrsta lagi vorum við ekki að drýgja neinn stórglæp af því að við ætluðum að halda áfram þessari starfsemi. Við höfðum þess vegna rökin fyrir því að fara heldur á svig við 67. gr. Alþingi leit líka þannig á að þetta væru tiltölulega litlir fjármunir þá. Það var mat manna þá. Þess vegna var afsakanlegt að gera þetta og ég hef ekki verið að ásaka þá þingmenn sem stóðu að þessari lagasetningu, alls ekki. En ég ætla að taka það fram í lokin að hafi það verið óljóst þá og þess vegna afsakanlegt að gera það, þá er það ekki óljóst lengur. Það liggur fyrir að það ágæta félag Brunabótafélag Íslands er ekki lengur að vinna í þágu þeirra markmiða sem það vann að í upphafi. Það er líka alveg kýrskýrt að hér er um miklar fjárhæðir að ræða. Það liggur nákvæmlega fyrir hverjir eiga þessa peninga og tæknilega eru engin vandkvæði á að koma þeim til síns rétta heima. Þess vegna er engin afsökun í dag fyrir öðru, úr því að þetta ágæta félag tók þessa ákvörðun að hætta starfsemi, en að gera þetta frv. að lögum, leysa upp þetta ágæta félag í tilefni þess að starfssviði þess er lokið, verkefni þess er lokið. Þess vegna er þetta frv. flutt.