Beiðnir um skýrslu

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:09:11 (5074)

1997-04-14 15:09:11# 121. lþ. 101.91 fundur 284#B beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:09]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Nú líður að þeim tíma að menn hljóta að fara að skoða hvernig þinghaldi lýkur einhvern tíma í næsta mánuði. Eins og kunnugt er var gert ráð fyrir að þinginu lyki 16. maí. Núna liggja fyrir m.a. óafgreidd stjórnarfrumvörp, ein 80 talsins, og sum þeirra hafa verið að koma hér inn síðustu daga. Samkvæmt þeirri starfsáætlun sem við vinnum eftir er gert ráð fyrir því að hér verði 1. umr. um mál þessa viku og þá næstu í meginatriðum þannig að það er bersýnilegt að þinghaldið er að komast í mjög mikinn hnút.

En það sem ég vildi spyrja um í framhaldi af þessu, hæstv. forseti, er að í upphafi þings á fyrsta þingdegi lagði þingflokkur Alþb. og óháðra fram beiðni um skýrslu frá dómsmrh. um gjaldtöku við innheimtu vanskilaskulda. Flutningsmenn eru allir þingmenn Alþb. og óháðra. Þessi skýrsla er ekki komin fram enn. Það er bersýnilegt að þingsköp hafa verið brotin í þessu sambandi og okkur hefur engin grein verið gerð fyrir því af hverju málið tekur svona langan tíma.

Nú erum við að sjálfsögðu tilbúin til þess að skoða slík mál og hlusta á öll rök sem unnt kann að vera að færa fram ef vinna dregst á langinn vegna þess að það taki langan tíma að afla upplýsinga. En það er auðvitað algerlega fráleit framkoma við þingið að láta mál af þessu tagi liggja hér svo að segja í allan vetur án þess að gera svo mikið sem tilraun til að gera grein fyrir því af hverju málið er látið liggja. Og ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann reki á eftir hæstv. dómsmrh. í þessu máli.