Beiðnir um skýrslu

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:11:01 (5075)

1997-04-14 15:11:01# 121. lþ. 101.91 fundur 284#B beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:11]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Ágústs Einarssonar sem hann viðhafði um þau vinnubrögð sem við verðum því miður vitni að, þ.e. það fást ekki svör við spurningum stjórnarandstöðunnar um mál sem mikilvægt er að fá upplýsingar um, ekki síst vegna þeirra mála sem ríkisstjórnin er að koma með inn í þingið. Og ég vil, herra forseti, vekja athygli á því að það hefur ekki verið starfsamt hjá hv. menntmn. í vetur en nú skyndilega fyrir nefndaviku hrúgast inn mál, mörg stór og viðamikil, frá hæstv. menntmrh. þannig að ekki hefur tekist að mæla fyrir málunum enn. Mér reiknast svo til að það séu um það bil þrjár þingvikur eftir og menn hljóta að spyrja: Er ekki hægt að hafa annað skipulag á þessum málum? Er ekki hægt að vinna málin þannig að þau komi inn í þingið fyrr ef hæstv. ráðherrar eða ríkisstjórn hefur hugsað sér að fá þau afgreidd? Menn hljóta að setja spurningarmerki við það að á örfáum dögum eigi að afgreiða stór mál hér í þinginu, hér eigi þingmenn að sitja við að afgreiða stór mál en á sama tíma er ekki hægt að nýta þann tíma og þann mannafla sem menntmrn. hefur til þess að svara spurningum sem mikilvægt er að fá svör við til þess þó að flýta afgreiðslu a.m.k. sumra þessara mála.