Beiðnir um skýrslu

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:12:46 (5076)

1997-04-14 15:12:46# 121. lþ. 101.91 fundur 284#B beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:12]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er vitaskuld hreyft grafalvarlegum málum sem lúta að samskiptum þings og framkvæmdarvalds og rétt að rifja það upp í þessu samhengi að á umliðnum vikum og mánuðum hefur kannski miklu fremur en nokkru sinni fyrr verið gagnrýnt að þegar loks einhver svör koma, þá eru þau þannig að lítið sem ekkert gagn er í. Það er því að verða býsna grátbroslegt, virðulegi forseti, hvernig hæstv. ríkisstjórn hagar störfum sínum í samskiptum við þingið og verður auðvitað að taka á því.

Ég vil bæta við í þennan sarp sem þegar hefur verið tínt til og rifja upp að upp úr miðjum febrúar eða svo lagði ég fram skriflega fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. sem henni bar að svara innan 10 virkra þingdaga. Ég hef ekki fengið það svar enn þá. Fyrirspurnin laut að máli sem hefur verið til umræðu í þessum sölum margoft og lýtur að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Ég spurði einfaldlega um það hversu margir einstaklingar störfuðu við heilbrigðisþjónustu úti um land. Ég hef ekki fengið svar við því þannig að þetta er allt að verða hið pínlegasta mál fyrir hæstv. ríkisstjórn og auðvitað kominn til þess tími fyrir margt löngu að hún fari að taka sér tak og sinna þeim störfum sem henni ber og svara því sem til hennar beint af hálfu hins háa Alþingis.

Hér er auðvitað ekki við hæstv. forseta að sakast. (Gripið fram í: Heldur hvern?) Við hæstv. ráðherra, hv. þm., það fer ekki fram hjá nokkrum manni og tími til þess kominn að þeir fari að sinna sínum störfum hér og lögbundnum skyldum við hið háa Alþingi.