Úrskurður samkeppnisráðs um Flugfélag Íslands hf.

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:24:25 (5085)

1997-04-14 15:24:25# 121. lþ. 101.2 fundur 277#B úrskurður samkeppnisráðs um Flugfélag Íslands hf.# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:24]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að samkeppnisráð hafi talið sig fara að lögum þegar það kvað upp sinn úrskurð. Það kann hins vegar að vera spurning hvort lagaákvæðin sem samkeppnisráð starfar eftir séu of þröng þegar þessi mál og önnur eru skoðuð. Um það get ég ekki sagt á þessari stundu.

Ég hef heyrt og séð álit annars vegar samgrh. og hins vegar forsrh. Ég get að sjálfsögðu ekki hér og nú farið að skýra út ummæli annarra ráðherra. Það verða þeir að gera þegar þeir eru beðnir um það eða þeir kjósa að gera það. Hv. fyrirspyrjandi verður að sætta sig við að bíða eftir forsrh. og spyrja hann beint hvað hann hafi nákvæmlega átt við í sínum svörum.

Mér er að sjálfsögðu kunnugt um að hægt er fyrir fram að fá álit samkeppnisráðs þegar fyrirtæki er að gera hjá sér breytingar. Ég veit ekki hvort það var gert í þessu tilviki. Það er einnig hægt að áfrýja úrskurði ráðsins eins og menn þekkja. Ríkisstjórnin er í sjálfu sér ekki aðili að þessu máli. Það eru fyrirtækin sem starfa í landinu þannig að ríkisstjórnin grípur ekki til neinna beinna aðgerða í tilefni af þessum úrskurði. Þó hygg ég að þessi úrskurður og aðrir slíkir hljóti að gera það að verkum að menn muni líta á lögin og kanna mjög rækilega hvort þau séu of þröng og komi í veg fyrir eðlilegar framfarir í landinu.