Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:38:00 (5095)

1997-04-14 15:38:00# 121. lþ. 101.2 fundur 279#B réttarstaða fólks í óvígðri sambúð# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:38]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin. Ég get alveg tekið undir það með honum að fólk velur sér náttúrlega sambúðarform út frá ákveðnum forsendum en það er hins vegar mjög mikilvægt að þessar forsendur séu alveg skýrar. Ég er kannski fyrst og fremst að leggja til að þessar forsendur séu skýrar. Þannig er í dag að lagaákvæði um óvígða sambúð eru hér og þar. Það eru sérákvæði varðandi skattalega meðferð eigna og annað. Þetta snertir m.a. lífeyrismál og hér og þar eru ákvæði sem snerta óvígða sambúð og það gerir m.a. að verkum að réttarstaðan er mjög óljós, fólki er ekki fyllilega ljóst hvaða skyldur og hvaða réttur fylgir því að vera í óvígðri sambúð annars vegar á meðan réttarstaða hjóna er mjög skýr. Það er fyrst og fremst þetta sem ég tel mjög mikilvægt og vekur mann til umhugsunar hvort ekki sé rétt að setja um þetta eina rammalöggjöf sem síðar vitnar þá í önnur sérlög um efnið.