Norræn sýning um Kalmarsambandið

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:39:26 (5096)

1997-04-14 15:39:26# 121. lþ. 101.2 fundur 280#B norræn sýning um Kalmarsambandið# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. menntmrh. vegna sýningar sem sett hefur verið upp í þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn og við eigum aðild að, íslenska ríkið, þ.e. Þjóðminjasafnið, og kostuð er af norrænu ráðherranefndinni. Sýningin er um Margréti I. og Kalmarsambandið sem, eins og menn þekkja hér, við vorum einu sinni hluti af og Margrét var okkar drottning. Þessi sýning mun standa fram yfir aldamót og er áætlað að hún verði sett upp í ýmsum höfuðborgum í Evrópu. Það kom mér á óvart að ekki er gert ráð fyrir að þessi sýning verði sett upp í Reykjavík þó svo að Reykjavík muni verða ein af menningarborgum Evrópu árið 2000. Á þessari sýningu eru ýmsir munir frá Þjóðminjasafni Íslands og ég tel að þetta hefði orðið mjög merkilegt menningarlegt innlegg árið 2000 þegar Reykjavík verður ein af menningarborgum Evrópu. Mig langar til að spyrja hæstv. menntmrh. hvort ákvörðun hafi verið tekin um að sýningin yrði ekki í Reykjavík og ef svo er þá hvers vegna? Ég hefði talið mjög mikilvægt að hún kæmi hingað og vildi gjarnan fá skýringar á þessu þar sem við eigum hlutdeild í kostnaði við þessa sýningu og hún fer til höfuðborga annarra ríkja sem voru hluti af Kalmarsambandinu á sínum tíma.