Tónlistarhús

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:42:00 (5099)

1997-04-14 15:42:00# 121. lþ. 101.2 fundur 281#B tónlistarhús# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:42]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Um margra ára skeið hefur verið rætt um að það þyrfti að byggja tónlistarhús hér á landi. Umræður um það hafa staðið mjög lengi eins og kunnugt er og margir hafa komið að því máli bæði innan þings og utan. Ég man að fyrir síðustu alþingiskosningar þá lýstu fulltrúar allra flokka nema Þjóðvaka, að ég hygg, því yfir að nauðsynlegt væri að loka hinum ,,menningarlega hringvegi`` eins og einhverjir orðuðu það með því að til yrði tónlistarhús. Ástæðan fyrir því að menn hafa ekki farið út í byggingu tónlistarhúss er auðvitað fyrst og fremst sú að menn hafa talið að það væri dýrt, kostaði talsvert mikla fjármuni. Fyrir nokkrum vikum eða mánuðum, hygg ég, skipaði núv. hæstv. menntmrh. nefnd til þess að fjalla um þetta mál, m.a. með aðild fulltrúa borgarstjórnar Reykjavíkur. Og ég er hingað kominn til þess að spyrja hæstv. menntmrh.: Hvenær er þess að vænta að nefndin skili áliti og er þá hugsanlegt að svo gæti farið að um það mál mætti fjalla í síðasta lagi í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1998?