Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:44:43 (5102)

1997-04-14 15:44:43# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir frv. á þskj. 855 til laga um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég vek athygli þingmanna á því að þingskjalið hefur verið prentað upp vegna þess að það var stafavíxl í tölu í 5. gr., þannig að ég bendi þingmönnum á það. (SvG: Er það eina breytingin?) Það er eina breytingin.

Þetta frv. snýst um endurskoðun á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem mynduð var 23. apríl 1995 kom fram að hún mundi beita sér fyrir endurskoðun á lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég setti síðan nefnd 14. ágúst 1995 til þess að fjalla um málið og varð niðurstaðan sú að nefndin lauk ekki störfum heldur var hún leyst frá störfum 6. janúar 1997. En það frv. sem hér liggur fyrir er m.a. byggt á því starfi sem fram fór í nefndinni, samkomulagi sem náðist milli stjórnarflokkanna auk þess sem tekið hefur verið tillit til tillagna og athugasemda samstarfsnefndar námsmannahreyfingarinnar.

Meginbreytingar frumvarpsins eru eftirfarandi:

1. Endurgreiðsluhlutfall hefur verið lækkað frá því sem var í fyrri lögum, þ.e. í 4,75% en það getur samkvæmt núgildandi lögum orðið allt að 7%.

2. Teknir eru upp beinir styrkir til námsmanna vegna fjármagnskostnaðar sem þeir verða fyrir vegna lántöku hjá bönkum.

3. Skipan stjórnar sjóðsins er breytt með þeim hætti að stjórnarmönnum er fjölgað úr sex í átta.

Iðnnemasamband Íslands fær aðalmann í stað áheyrnarfulltrúa áður og menntamálaráðherra einn fulltrúa til viðbótar.

4. Lagt er til að sett sé sérstök heimild í lög fyrir stjórn sjóðsins til að geta komið til móts við námsmenn sem verða fyrir skakkaföllum vegna veikinda eða skipulags skóla.

5. Tekin hafa verið inn í lögin ákvæði vegna aðildar Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Þá hefur í 2. gr. frv. verið sett inn ákvæði sem fjalla um endanlegt úrskurðarvald stjórnar sjóðsins þegar kemur að því að skera úr vafamálum sem varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum. Samkvæmt frv. er sem sagt tekið af skarið með að úrskurðir stjórnarinnar í þessu sambandi séu endanlegir og verða ekki kærðir til æðra stjórnvalds. Er þetta í samræmi við reglur sem verið hafa í gildi undanfarna mánuði.

Í öðru lagi er í 2. gr. frv. því ákvæði bætt við í lögin að stjórn sjóðsins er heimilt að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna til að fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir stjórn sjóðsins. Er þetta gert til þess að tryggja stjórnsýslulega stöðu slíkra nefnda en starfandi eru þrjár undirnefndir stjórnar sjóðsins, vafamálanefnd, endurgreiðslunefnd og framfærslunefnd og er hver nefnd skipuð einum fulltrúa stjórnvalda og einum fulltrúa námsmanna. Nefndirnar leysa úr málum einstakra námsmanna en fundargerðir þeirra eru staðfestar af stjórn. Þarna er verið að lögfesta skipan sem hefur að mati þeirra sem starfa að málefnum sjóðsins reynst mjög vel og mælt er með því að þetta verði fest þannig í lög.

Umræður um málefni sjóðsins hafa verið miklar, m.a. á Alþingi, undanfarin missiri, en með þessu frv. er tekið af skarið um skipan mála hjá sjóðnum. Um málið er fullt samkomulag á milli stjórnarflokkanna svo sem kunnugt er.

Ég þarf ekki hér að rökstyðja það sérstaklega hvers vegna fjölgað er í stjórn sjóðsins úr sex í átta en þó vil ég láta þess getið að þegar núgildandi lög voru sett var litið á Iðnnemasambandið sem aðila að Bandalagi íslenskra sérskólanema og með þeim rökum var þá ekki fallist á hugmyndir um að fjölga í stjórninni. Ég met það hins vegar þannig að á þeim tíma sem liðinn er síðan lögin voru sett 1992 hafi berlega komið í ljós að skynsamlegt sé vegna m.a. breytinga hjá námsmannahreyfingunum að Iðnnemasambandið fái fulltrúa í stjórn sjóðsins og geri þess vegna tillögu um það og einnig að menntmrh. skipi þrjá fulltrúa í stað tveggja eins og nú til þess að halda því jafnvægi í stjórn sjóðsins sem menn telja eðlilegt og hefur verið sátt um.

Þá er einnig rétt að vekja athygli á því að lagt er til að skipunartími framkvæmdastjóra sjóðsins verði lengdur úr fjórum árum í fimm og er það til samræmis við það sem gildir almennt um forstöðumenn opinberra stofnana.

Að því er varðar greiðslur lána, þá hafa menn eins og kunnugt er lengi deilt um það hvort taka beri upp svokallaðar samtímagreiðslur hjá sjóðnum eða ekki. Ég hef jafnan í þeim umræðum lýst þeirri skoðun minni að ég átta mig ekki nákvæmlega á því um hvað menn eru að tala þegar samtímagreiðslur ber á góma því að í því efni hafa skilgreiningar verið næsta ólíkar. Menn hafa sagt að ekki væri átt við það sem var fyrir 1992 heldur eitthvað annað og síðan hafa ýmis blæbrigði á því máli verið kynnt eins og kunnugt er. Hér er lagt til að meginreglan um útgreiðslu lána úr sjóðnum verði hin sama og er núna. Hins vegar er sett ákvæði inn í lögin um að námsmaður fái greiddan vaxtastyrk sem er ætlaður honum til að bæta fjármagnskostnað vegna framfærslu í samræmi við rétt hans til námslána á hverjum tíma. Styrkurinn greiðist við útborgun námsláns og miðist við meðaltal vaxta- og lántökukostnaðar banka og sparisjóða eins og hann er á hverjum tíma samkvæmt nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.

Þarna er gert ráð fyrir því að menn geti átt viðskipti við bankakerfið, fengið þar mánaðarlegar greiðslur eða greiðslur eins og þeir sjálfir kjósa en vaxtakostnaðurinn sé síðan borinn af sjóðnum þannig að námsmenn þurfi ekki að bera kostnað af þessum viðskiptum við bankana.

Einnig er tekið fram að gert er ráð fyrir því að allir þeir sem sækja um lán og fá námslán njóti vaxtastyrksins án tillits til þess hvort þeir hafi raunverulega þurft að greiða fjármagnskostnað eða ekki. Með öðrum orðum: Þeir sem fara að útgreiðslureglum sjóðsins, þ.e. þeir sem sjóðurinn greiðir út tvisvar sinnum á ári, fá eins og aðrir þennan vaxtastyrk án tillits til þess hvort þeir skipta við banka eða ekki.

Síðan er lagt til í frv. að endurgreiðslubyrði lánanna sé breytt og hún lækkuð í 4,75% en sé ekki 5% eða 7% eins og í núgildandi lögum. Ég hef jafnan sagt að þetta væri það ákvæði í núgildandi lögum sem ég teldi brýnast að breyta. Ég hef talið að endurgreiðslubyrðin eins og hún er núna sé of há og með því að taka af skarið eins og gert er í frv. sé mjög komið til móts við óskir viðskiptavina sjóðsins um að létta endurgreiðslubyrðina. Þegar menn líta á kostnaðarmat fjmrn. á þessu frv. sjá þeir að þessi þáttur frv. er dýrastur ef ég má orða það svo því að lækkun endurgreiðsluhlutfalls nýrra lána er talið muni kosta 140 millj. kr. og breyting á endurgreiðslu eldri lána 45 millj. kr. Það er samtals 185 millj. kr. en heildarkostnaður af frv. er talinn vera á bilinu 202--226 millj. að mati fjmrn.

Þetta sýnir að þarna er um verulega hagsmuni að ræða fyrir viðskiptavini sjóðsins og ég vil taka fram, til að það liggi alveg skýrt fyrir, að þetta á við alla viðskiptavini sjóðsins frá því að lögin frá 1992 tóku gildi og að sjálfsögðu við þá sem taka lán hjá sjóðnum eftir að þetta frv. er orðið að lögum, en einnig þá sem átt hafa viðskipti við sjóðinn frá 1992.

Það kemur fram í kostnaðarmatinu að ekki er lagt út í að meta hvaða áhrif þessar breytingar hafa á eftirspurn eftir lánum úr sjóðnum og það eru ýmsir aðrir óvissuþættir sem menn sjá þegar málið er skoðað í heild og ekki unnt að leggja á það endanlegt kostnaðarmat. Hins vegar var slegið á það af fjmrn. að samtals muni framkvæmd frv. kosta 202--226 millj.

Það hefur komið fram í umræðum um málið að menn telja að óeðlilegt sé að leggja til að námsmenn hafi viðskipti við banka vegna þessara lána. Ég tel að slík rök séu næsta haldlítil og í sjálfu sér sé það aukin þjónusta við viðskiptavini sjóðsins að taka upp þá skipan sem hér er mælt fyrir um. Fram hafa farið viðræður á milli sjóðsins, lánastofnana og bankastofnana um hvernig unnt væri að koma frekar til móts við námsmenn sem viðskiptavini banka og ljóst er að þær viðræður gefa fyrirheit um að lánastofnanir muni veita viðskiptavinum lánasjóðsins aukna þjónustu og ekki krefjast þess af þeim að þeir sýni fram á frekari ábyrgðir gagnvart bönkunum en þeir sýna fram á gagnvart lánasjóðnum sjálfum.

Eins og menn vita hefur þetta verið mikið ágreiningsefni og deilumál um langan tíma eða allt frá því að lögin voru samþykkt 1992 og bæði hér á hinu háa Alþing og einnig utan þings. Menn hafa talið að löggjöfin eins og hún er núna sé ranglát í langtum meira mæli en ég samþykki og tel að mörg orð sem þar hafa fallið eigi ekki við rök að styðjast. Ég tel að það þjóni litlum tilgangi hér og nú að fara út í umræður um þá sögu alla. Skýrslur hafa verið skrifaðar og munu liggja fyrir og úttektir um þróun sjóðsins frá 1992 og leyfi ég mér að vísa til þeirra í stað þess að fara að rifja upp það mál. Ég hef löngum sagt að í umræðu um lánasjóðinn væri nær að líta til framtíðar en vera að deila um fortíðina í þessu mikla máli og reyna að komast að niðurstöðu sem leiði til sátta um málið. Ég tel að þessi tillaga, sem ég geri í frumvarpsformi og ríkisstjórnin stendur að og stjórnarflokkarnir, sé í þeim anda að um það náist bærileg sátt, bæði á hinu háa Alþingi og einnig utan þess.

Ég vil láta þess getið að í síðustu viku komu fulltrúar frá námsmannahreyfingunum á minn fund og lögðu fyrir mig úrlausarefni sem snerta framkvæmd laganna, útfærslu á úthlutunarreglum og reglugerð sjóðsins. Hef ég komið þeim ábendingum til stjórnar sjóðsins og vænti þess að um það mál takist samkomulag á milli manna enda hafi þeir í huga þann fjárhagsramma sem sjóðnum er markaður. Það tókst á síðasta ári samkomulag um úthlutunarreglurnar í stjórn sjóðsins og ég tel að það sé markmið í sjálfu sér að stefna að slíku samkomulagi aftur núna á grundvelli hinna nýju laga sem ég vona að við berum gæfu til að samþykkja fyrir þinglok í vor. Og með þeim orðum legg ég til að málið fari til 2. umr. og hv. menntmn.