Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 16:17:49 (5104)

1997-04-14 16:17:49# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[16:17]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi sérstaklega bregðast við orðum hv. síðasta ræðumanns um endurgreiðslu. Þar fannst mér ekki alls kostar farið rétt með. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að endurgreiðslurnar verði 7% að sjö árum liðnum frá námslokum. Þannig að það er auðvitað mjög veruleg tilslökun fólgin í því varðandi endurgreiðslurnar að fara niður í 4,75%. Auk þess sjáum við þetta líka þegar við lítum á kostnaðarmatið samkvæmt frv. Aðalatriði þessa máls er að verið er að setja inn í námslánakerfið á þriðja hundrað millj. kr. Ég tel að verulega sé slakað á varðandi endurgreiðslubyrðina. Það er eitt af mikilvægustu ákvæðunum í hinu nýja frv.

Mér þótti líka slæmt að heyra þá rangfærslu sem oft hefur heyrst um lánasjóðinn að þessi lög sem nú eru í gildi hafi fyrst og fremst bitnað á barnafólki og einstæðum foreldrum. Ég get ekki tekið undir það. Ég minni fólk á að í vetur birtist t.d. viðtal við einstæða móður sem sá sér hag í því að fara í nám á ný. Hún hafði lokið háskólanámi en sá sér hag í því að fara í nám á ný vegna þess að hún hefði hærri ráðstöfunartekjur sem námsmaður en ef hún væri á vinnumarkaðnum. Við getum því séð á þessu að námslánakerfið er nú kannski ekki eins slæmt og margir hafa viljað vera láta. Nemendum í lánshæfu námi hefur fjölgað frá því að lögin um lánasjóðinn voru sett árið 1992.