Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 17:20:47 (5115)

1997-04-14 17:20:47# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[17:20]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna þá hefur orðið loksins verið nefnt nokkrum sinnum. Það er e.t.v. ekki að ástæðulausu því síðasta áratug eða svo hefur Lánasjóður ísl. námsmanna verið eitt af heitari pólitískum málum í samfélagi okkar. Það hefur verið til umræðu meðal hinna pólitísku flokka, inni á heimilum landsins og ekki síst meðal námsmannahreyfingarinnar. Það er því ekki nema von að orðið loksins heyrist því að á síðustu kjörtímabilum og í upphafi þessa kjörtímabils féllu ýmsar yfirlýsingar um málið. Má segja að byggst hafi upp pólitískar væntingar til lánasjóðsfrv. og því ber auðvitað að fagna að nú skuli það komið fram þannig að fram megi fara málefnaleg umræða um það.

En um hvað hefur sú pólitíska umræða fyrst og fremst snúist? Það eru einkum þeir þættir sem hafa verið nefndir í umræðunni í dag. Það eru fyrst og fremst svonefndar mánaðargreiðslur eða samtímagreiðslur, það er lækkun endurgreiðsluhlutfalls, það er aukið svigrúm, það er um stjórn sjóðsins og það er um ábyrgðir. Að mínu mati leikur ekki nokkur minnsti vafi á því að öll þessi atriði eru með einum eða öðrum hætti inni í þessu frv. og því hlýt ég að fagna að það sé fram komið og efni þess þó auðvitað megi endalaust deila um hversu langt skuli ganga. En í það heila tekið er ekki annað hægt en fagna efni þess.

Ég vil leyfa mér að víkja örfáum orðum að einstökum þáttum og nefna þá fyrst mánaðargreiðslur eða það sem kallað hefur verið samtímagreiðslur. Í liðinni viku féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem námsmaður hafði höfðað vegna innheimtuaðgerða Lánasjóðs ísl. námsmanna og féll dómurinn námsmanninum í hag þar sem sjóðurinn er talinn hafa hafið innheimtuaðgerðir heldur snemma. Þetta leiðir einmitt hugann að því sem ég hygg að flestir sem hafa átt viðskipti við lánasjóðinn þekki. Þar eru afskaplega erfið þjónustuskilyrði ef svo má kalla með fullri virðingu fyrir því starfsfólki sem þar er að sinna mjög erfiðu starfi þar sem fjölmargir þurfa að eiga leið um, þ.e. námsmenn hvort heldur þeir eru í námi hér heima eða erlendis. Ég hygg að námsmenn, fjölskyldur þeirra, vinir og aðstandendur geti rakið margar sögur um píslargöngu um langar raðir þar sem fólk þarf að taka sér jafnvel leyfi frá störfum til að sinna þjónustu við það sem kalla má miðstýrða stofnun.

Ósköp sambærilegt má segja um Húsnæðisstofnun ríkisins sem sér um ákveðna þætti húsbréfa og síðan sjá bankar um aðra hluta. Ég hygg að fáar kvartanir hafi heyrst um þjónustuhlutverk bankanna varðandi húsbréf, en við þekkjum fjölmargar sögur úr umhverfi okkar, úr fjölmiðlum og jafnvel úr umræðum á hinu háa Alþingi um ýmsar aðfinnslur um þjónustu hjá Húsnæðisstofnun. Það er með öðrum orðum sú stofnanaþjónusta sem á að þjóna landinu öllu andspænis síðan þeirri þróun sem hefur verið að eiga sér stað í bankakerfinu á Íslandi. Það er liðin sú tíð að landsmenn sem þurfa á lánum að halda þurfi að sitja á bekkjum hjá bankastjóra í von um að fá lán. Það hefur breyst af ýmsum ástæðum, m.a. þeirri ástæðu að samkeppni á milli banka hefur verið að aukast verulega og snýst ekki síst um það að veita viðskiptavinum sínum sem besta þjónustu. Í þessu skyni og í þeim breytingum hafa bankar m.a. verið að byggja upp þjónustunet, net þjónustufulltrúa sem starfa í öllum útibúum banka og sparisjóða. Ég hygg að flestir landsmenn, ef ekki allir, sem eru á annað borð með viðskipti í banka, það gildir líklega um þá sem komnir eru til fullorðinsára, séu í sambandi við slíka þjónustufulltrúa sem sinna fjármálum einstaklinga og leggja sig fram um að veita einstaklingunum góða þjónustu. Það er einmitt þess vegna sem er eðlilegt að líta til þess þjónustunets sem bankarnir hafa verið að byggja upp og almennt ríkir ánægja með í samfélaginu.

Það er líka vert, herra forseti, að hafa það í huga að í dag eru bankar að veita námsmönnum verulega þjónustu. Bankar eru m.a. að keppa um námsmenn sem framtíðarviðskiptavini. Árlega auglýsa bankar og sparisjóðir styrki til handa námsfólki í framhaldsskólum og á háskólastigi. Bankar færa þessum viðskiptavinum sínum ýmsar gjafir, ef svo má kalla, filofaxdagbækur og guð má vita hvað. Þeir keppa með öðrum orðum um viðskiptavini en leggja sig jafnframt fram um að veita góða þjónustu. Af þessari ástæðu finnst mér eðlilegt að draga þá ályktun að þeir notfæri sér þá þjónustu sem byggð hefur verið upp um land allt en ekki einungis bundna við eina stofnun í höfuðborginni og færa samtímagreiðslur eða mánaðargreiðslur inn í bankana vegna þess að þangað þurfa námsmenn og aðstandendur þeirra að eiga viðskipti hvort heldur þeir eru með námslán eða ekki. Það er það sem málið snýst um varðandi mánaðargreiðslur eða endurgreiðslur. Það er aðgengi námsfólks að fjármagni til þess að fjármagna nám sitt. Ef gengið er úr skugga um og ef tryggt er að námsmenn geti fengið mánaðarlegar greiðslur til að sjá sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða sér að kostnaðarlausu, þá er ekki hægt að líta öðruvísi á en að um mánaðargreiðslur eða samtímagreiðslur sé að ræða. Ég legg áherslu á það, sem einnig kom fram í framsöguræðu hæstv. menntmrh., að um er að ræða styrki til þess að greiða allan lántökukostnað námsmanna. Þeir eiga því ekki að bera kostnað af. Þetta tel ég skipta afskaplega miklu máli og þess vegna eðlilegt að fara þá leið sem hér er um að ræða.

Auðvitað er ákveðin óvissa þegar stigin eru ný skref en ég hygg að sú óvissa þurfi ekki að vera svo mikil hvað varðar þá leið að færa þjónustuna og greiðsluna inn í bankakerfið námsfólki að kostnaðarlausu þegar litið er til þeirrar reynslu sem komin er af þjónustufulltrúum banka og þeirri ágætu þjónustu sem þar er veitt. Ég er sannfærður um að það er rétt ákvörðun og rétt skref sem stigið er með þessu, enda er það námsmönnum að kostnaðarlausu og þjónustan aukin. Niðurstaða mín er því sú hvað varðar mánaðargreiðslur og samtímagreiðslur að hvernig sem á er litið, eru þær námsmönnum að kostnaðarlausu. Þeir fá betri þjónustu mánaðarlega sér að kostnaðarlausu og ég vek athygli á að með þessu frv. er jafnvel gengið lengra en námsmenn hafa áður vonast til, þ.e. að geta notið þessarar þjónustu strax á fyrsta missiri. Þetta var um samtímagreiðslur.

[17:30]

Þá vil ég nefna í annan stað endurgreiðsluhlutfall. Ég lýsi furðu minni á þeirri túlkun sem fram hefur komið í máli eins hv. þm. um að hér sé einungis um 0,25% lækkun að ræða. Það er ekki mjög málefnalegt að halda því fram að 7% hlutfallið sem er inni í lögum sé ekki fyrir hendi. Það er rétt líka að vekja athygli á því að það ákvæði sem hér um ræðir, að taka upp 4,75% endurgreiðsluhlutfall, er afturvirkt þannig að þeir sem tekið hafa námslán frá 1992 munu falla undir það. Það er líka rétt, herra forseti, að minna á að nú styttist mjög í að 7% hlutfallið nái til þeirra sem fyrstir tóku námslán eftir breytingarnar sem voru gerðar árið 1992. Þess vegna er það óeðlilegt og ekki málefnalegt að láta sem þessi lagabókstafur sé ekki til staðar. Verði lögunum ekki breytt munu 7% standa og þau munu ríða yfir það námsfólk sem tekið hefur lán frá árinu 1992 og þess vegna er rökrétt og eðlilegt að benda líka á að lækkunin er allt frá 7% niður í 4,75%.

Ég vil leyfa mér að taka dæmi. Við getum tekið dæmi af námsfólki, hjónum sem hefðu hvort um sig að námi loknu um það bil 150 þús. kr. á mánuði, sem mun vera nokkuð algengt þó að vissulega séu til dæmi um fólk með lægri laun en 150 þús. kr. á mánuði og líka, til allrar hamingju, dæmi um fólk sem hefur meiri laun. En hjá hjónum, námsfólki sem hefur um það bil 300 þús kr. í mánaðarlaun samtals, þá erum við að ræða um lækkun ársgreiðslna um rúmlega 80 þús. kr. Ég hygg að það muni um það hjá venjulegum launþegum sem hafa þó ekki meiri laun en ég nefndi hér áðan. Rúmlega 80 þús. kr. er lækkunin á hverju ári miðað við að taka upp 4,75%.

Ég nefni enn fremur svigrúmið, herra forseti. Eins og hér hefur komið fram hefur það verið baráttumál námsmannahreyfingarinnar m.a. að tekið verði tillit til veikinda námsmanna hvað varðar lánasjóðinn sem og ef skóli fellir niður námskeið. Á þessu er tekið í frv. og jafnframt trúi ég því að auk þessa félagslega svigrúms sem er til staðar í frv., þá muni hin harða samkeppni bankanna um framtíðarviðskiptavini enn frekar auka á það svigrúm sem er tryggt eigi að síður í lögunum. Þannig að svigrúmið er hér til staðar og er aukið.

Þá nefni ég, herra forseti, ábyrgðarmenn. Það hefur verið mikið deilumál af hálfu námsmannahreyfingarinnar að þurfa jafnvel á tveimur ábyrgðarmönnum að halda til þess að fá lán í banka. Hæstv. viðskrh. hefur átt í samningaviðræðum við fulltrúa bankanna um að afnema þennan þátt gagnvart bönkunum, enda sé lánasjóðurinn sú trygging sem bönkunum dugar. A.m.k. er unnið að verulegri einföldun á ábyrgðarmannakerfinu sem ég hygg að sé námsfólki verulega í hag og er jafnvel ekki séð fyrir endann á því. Ég bind miklar vonir við þær samningaviðræður og þau viðbrögð sem fulltrúar bankanna hafa sýnt hæstv. viðskrh. í viðræðum um þetta mál.

Þá nefni ég til viðbótar, herra forseti, ákvæði um stjórn sjóðsins. Ég tel það vera afskaplega mikilvægt að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að fulltrúi Iðnnemasambands Íslands komi inn í stjórnina. Þetta hefur verið baráttumál og þetta er rökrétt í alla staði. Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um auknar áherslur á starfsmenntun við uppbyggingu menntakerfis okkar og við uppbyggingu efnahagslífsins er rökrétt að Iðnnemasambandið eigi fulltrúa í stjórn lánasjóðsins.

Það er í þessu sambandi líka vert að benda á að mér finnst á stundum að í umræðunni gæti þess að um stjórn lánasjóðsins sé jafnvel talað sem eitthvert skrímsli. En samkvæmt frv. er gert ráð fyrir átta einstaklingum í stjórninni og þar af eru fjórir fulltrúar námsmannahreyfingarinnar. Ég fagna því sérstaklega að rödd Iðnnemasambandsins, rödd starfsmennta, skuli nú eiga fast sæti inni í stjórninni.

Niðurstaða mín, herra forseti, er sú að öll helstu markmið sem sett voru séu inni í þessu frv. Það sem skiptir mestu máli er að hagur námsmanna vænkast allverulega. Þjónusta við námsmenn mun aukast allverulega frá því sem verið hefur og endurgreiðsluhlutfall lækkar. Áhrif námsmanna og raddir námsmanna í stjórn sjóðsins eiga að heyrast sterkari og þar fram eftir götunum. Þjónustan hefur aukist.

Ég nefni sem dæmi, herra forseti, ímyndaðan námsmann utan af landi sem þarf ekki lengur að virkja fjölskyldu sína til þess að sinna málum sínum gagnvart lánasjóðnum heldur getur snúið sér beint til þjónustufulltrúa síns í viðkomandi banka eða bankaútibúi hvar sem er á landinu. Það er hlutverk bankans eða þjónustufulltrúa bankans að reka erindi námsmannsins, enda á sérstakur samningur að vera í gildi á milli ríkisvaldsins og bankanna um þá þjónustu.

Ég get tekið undir það sem hér hefur verið nefnt að nokkur atriði má skerpa og trúi ég að verði gert í umræðu í hv. menntmn. Ég vil þar sérstaklega nefna til viðbótar ákvæði um hámarkstíma. Þar vil ég sérstaklega hafa í huga samsetningu námsins og líta til námsmanns sem hefur iðnnám eða einhvers konar starfsnám, heldur síðan áfram til stúdentsprófs og þaðan í háskólanám eða tækniskólanám. Það þarf að vera afskaplega opið að sá námsmaður geti aflað sér menntunar með slíkri samsetningu. Í þessu samhengi hef ég oft vitnað til samsetningar menntunar Rannveigar Rist sem er glæsilegur fulltrúi yngri kynslóðarinnar við stjórnunarstörf hér á landi. Ég trúi því að staða Rannveigar Rist væri öðruvísi ef ekki væri sú samsetning menntunar hennar sem er og fyrir því þarf að vera sveigjanleiki. Þess vegna þarf hugsanlega að lengja heildarlánstíma eða lengja ákvæði um grunnnám. Á því trúi ég að verði tekið í menntmn. og rætt þar.

Þá get ég tekið undir þau sjónarmið að hugsanlega þarf að telja betur upp eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir vék að um hinn félagslega þátt. En ég tel að hugsunin sé askaplega skýr hvað varðar svigrúm á þessu sviði.

Hvað varðar úrskurðarnefnd þá hefur það verið gagnrýnt að ákvörðun sjóðstjórnar sé endanleg og verði ekki skotið til æðra stjórnsýslustigs. Þá vil ég hins vegar benda á að í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því að stjórn sé heimilt að skipa ýmsar undirnefndir og sé ég ekkert sem útilokar að sjóðstjórn geti skipað úrskurðarnefnd til þess að taka á vafamálum. Þá má einnig benda á umboðsmann Alþingis sem allir eiga aðgang að.

Að lokum þetta, herra forseti. Ég vil líta svo á að með þeirri breytingu sem hér á sér stað, þeirri grundvallarbreytingu að færa þjónustustigið inn í bankakerfið, þurfi að ræða og skoða sérlega hlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna í framhaldi af því. Ég tel að hlutverk lánasjóðsins eigi fyrst og fremst eftir þá breytingu að vera eftirlitsaðili með þeirri þjónustu sem bankarnir veita og taka við málum sem snúa beinlínis að námsmönnum og tryggja að þjónustustigið haldist. Og ég ítreka áhrif námsmanna í stjórn.

Á síðustu árum hefur verið mikil umræða um hin ýmsu skólastig. Ekki er langt síðan hið háa Alþingi samþykkti breytingar á lögum um grunnskóla og nú hafa sveitarfélögin tekið við grunnskólastiginu. Í því eru afskaplega mikilvægar breytingar. Hér í dag og á næstu dögum munu verða rædd frumvörp um breytingar á lögum um háskóla, þ.e. háskólastigið er þar sérstaklega til umræðu, og vonandi lýkur núna a.m.k. um hríð umræðu á Alþingi um Lánasjóð ísl. námsmanna, verði þetta frv. að lögum.

Næstu skref tel ég vera, herra forseti, afskaplega mikilvæg hvað varðar menntamálin, að skoða annars vegar það sem hér hefur verið ýjað að í umræðunni, þ.e. að skoða frekari útfærslu á námsstyrkjum sem viðbótarhlutverki við hið hefðbundna hlutverk lánasjóðsins í samstarfi ríkisvalds og fyrirtækja í samfélaginu þar sem fyrirtæki geti lagt fé til þess að veita námsstyrki. Og hins vegar, herra forseti, tel ég afskaplega eðlilegt að í næstu lotu verði litið sérstaklega til framhaldsskólans, ekki síst að halda áfram útfærslu á starfsmenntabrautum, uppbyggingu þeirra og skilyrði fyrir þeim. En ég vonast til þess að frv. þetta megi sem fyrst komast til hv. menntmn. og fá þar málefnalega umræðu.