Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 17:44:50 (5118)

1997-04-14 17:44:50# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[17:44]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt það sem ég er að reyna að benda á hér. Um hvað snerist þessi dómur? Hvaða ályktun má draga af þessum dómi? Það má draga þá ályktun af honum að tryggja þurfi betur grundvallarréttindi námsmanna gagnvart kerfinu. Það er þvert á móti verið að festa óréttlætið í sessi í þeim lögum sem hér eru lögð til og þessi dómur kemur ekki bankaþjónustunni við, nákvæmlega ekki neitt. Það er það sem ég er að reyna að benda á í þessu andsvari og undrast að hv. þm. og ríkisstjórnin almennt skuli ekki sjá það einmitt nú þegar þessi dómur er kveðinn upp hversu mikil þörf er á því að bæta námsmönnum það óréttlæti sem þeir hafa búið við. Í stað þess velja þeir þá leið að festa óréttlætið í sessi.