Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 18:22:00 (5126)

1997-04-14 18:22:00# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[18:22]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nú blaður þetta síðastnefnda, vegna þess að veruleikinn er sá að sjóðurinn stóð mjög vel samkvæmt niðurstöðu Ríkisendurskoðunar á sínum tíma og eiginfjárstaða sjóðsins batnaði ekki við þær breytingar sem voru gerðar 1992, heldur versnaði hún. Ég skora því á hv. þm. að kynna sér þessa hluti betur áður en hann lepur upp hráan áróðurstextann frá síðasta kjörtímabili, þetta var ekki svona. Þeir framsóknarmenn, eins og t.d. hæstv. iðnrh., fóru mikinn í málflutningi á síðasta kjörtímabili til að afsanna þessar fullyrðingar um lánasjóðinn sem ég skora á hv. þm. að kynna sér.

Varðandi það hvort hv. þm. lætur sér þessa hluti í léttu rúmi liggja eða ekki þá segi ég alveg eins og er, herra forseti, því miður er mér eiginlega sama um það. Mér hefði þótt vænt um ef hv. þm. hefði haft til að bera samvisku til að finna pínulítið til við að bera fram þessi ósköp hér á Alþingi, en úr því að hann gerir það ekki þá verður að hafa það. Ég er örugglega ekki maður til að breyta viðhorfum hans. En ég hvet hann til þess, sem ungan mann hér á Alþingi, að velta því fyrir sér hvort það geti ekki verið að einn og einn maður hafi í síðustu kosningum kannski stutt Framsfl. í trausti þess að þeir gerðu a.m.k. betur en stendur í þessu frv.