Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 18:42:21 (5130)

1997-04-14 18:42:21# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[18:42]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við erum að upplifa hér og nú er Framsfl. í tíma og rúmi. Það er að renna upp fyrir æ fleirum fyrir hvað Framsfl. stendur sem flokkur, að Framsfl. er eitthvað sem hægt er að segja um: Þá og nú, fyrir og eftir, og í sviga fyrir aftan sjá menn kosningar. Tvö andlit Framsfl. hafa nefnilega birst okkur aftur og aftur. Loforðin og yfirboðin fyrir kosningar og efndirnar litlu, eftir kosningar. Ef einhver man ræður þingmanna Framsfl. í þessum sal í ársbyrjun 1992 þá er það sú sem hér stendur. Og þær voru sko í öðru tónfalli, með öðru innihaldi og sannarlega með meiri vandlætingu en þær ræður sem hér hafa verið fluttar í dag af öllum. Undanskil ég þá engan. Þingmenn Framsfl. hafa vinninginn í því öllu. Nú er styrkur fyrir lántökukostnaði í bönkum betri en samtímagreiðslan sem hrópað var á þá. Og satt best að segja er það svo eins og fram hefur komið að 7% endurgreiðsluhlutfall í lögunum er í raun og veru ekkert eða átti ekki að vera neitt til að hafa áhyggjur af nema því aðeins að Sjálfstfl. (Forseti hringir.) hefði unnið meiri hluta í síðustu kosningum vegna þess að það kom berlega fram hjá öllum flokkum, líka mínum flokki, að Lánasjóði ísl. námsmanna yrði breytt að kosningum loknum að því leyti. Framsfl. afhjúpar sig, virðulegi forseti, það eru engar samtímagreiðslur, ekki afnám ábyrgðarmanna og engin áfrýjun.