Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 18:49:36 (5134)

1997-04-14 18:49:36# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[18:49]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir ágæta ræðu. Mér fannst nokkuð af honum dregið frá því fyrr í dag. Hann hefur áttað sig á því hvað þetta er óskaplega vitlaust sem hann er að gera. En það sem ég vildi vekja sérstaklega athygli á, herra forseti, eru þessi prýðilegu orð hans um að --- hvað? Styrkurinn eigi að standa undir öllum þeim kostnaði sem hlýst af viðskiptum við bankana. Þannig orðaði hæstv. ráðherra það. Og það er ástæða til þess að þakka fyrir þessa yfirlýsingu vegna þess að hún stendur ekki í frv. Þá tel ég að það sé alveg sjálfsagt mál að ef ráðherrann hefur ekki að því frumkvæði sjálfur að flytja brtt. um það mál, þá geri aðrir það vegna þess að það er auðvitað mál málanna í þessu samhengi að þessir peningar fara til þess að borga þennan kostnað alveg niður.

Þetta segi ég, herra forseti, vegna þess að í greinargerð fjárlagaskrifstofu fjmrn. er greinilega ekki ljóst við hvað er átt. Þar er sagt að þetta kosti 36--60 millj. kr. eftir því hvort það eru eftirágreiðslur eða fyrirframgreiðslur. Það verður auðvitað að vera skýrt við hvað er átt, en aðalatriðið er að það standi beinlínis í lögunum, þannig á náttúrlega að ganga frá lagasetningu líka, að styrkurinn fari til þess að borga allan þann kostnað sem hlýst af viðskiptum námsmanna við bankana með þeim hætti sem hæstv. ráðherra lýsti hér áðan. Ég þakka honum fyrir þá yfirlýsingu og vona að hann gefi sem flestar slíkar í umræðunum á eftir.