Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 13:51:35 (5141)

1997-04-15 13:51:35# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[13:51]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það var fróðlegt að hlýða á 4. þm. Austurl. þegar hann fór yfir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46/1991, um búfjárhald, með síðari breytingum. Það sem vakti sérstaka athygli mína er 2. gr. frv. sem verður 2. mgr. 10. gr. laganna. Hún sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Nú meinar ábúandi lögbýlis eða búfjáreigandi utan lögbýlis búfjáreftirlitsmanni aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum þannig að ekki verði komið við eftirliti og upplýsingaöflun samkvæmt lögum þessum.``

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að viðkomandi ábúandi eða búfjáreigandi komi í veg fyrir að búfjáreftirlitsmaður geti sinnt þeirri skyldu sinni að upplýsa um búfjáreign í viðkomandi gripahúsum. Síðan segir svo, með leyfi forseta:

,,Skal þá búfjáreftirlitsmaður tilkynna sveitarstjórn það án tafar.``

Ég fæ ekki betur séð, virðulegi forseti, en að með þessum aðgerðum sínum hafi ábúandi lögbýlis eða búfjáreigandi komið í veg fyrir að búfjáreftirlitsmaður geti sinnt lögbundnum störfum. Þegar í slíkt óefni er komið þá hefði ég haldið að það væri miklum mun eðlilegra að lögreglustjóri kæmi að þessu máli þar sem viðkomandi ábúandi er að koma í veg fyrir að búfjáreftirlitsmaður geti sinnt sínu starfi. En svo er ekki, virðulegi forseti, því framhaldið er:

,,Takist sveitarstjórn ekki að leiða málið til lykta skal hún innan viku senda skriflega tilkynningu um það til landbúnaðarráðherra sem þá er skylt að láta fara fram sérstaka skoðun á viðkomandi stað.``

Ja, nú spyr ég: Fer hann sjálfur á vettvang eða sendir hann starfsmenn sína úr ráðuneytinu eða hvernig á þessi skoðun að fara fram, virðulegi forseti? Ég vil taka undir gagnrýni hv. 4. þm. Austurl. en hann benti á að þetta væri augljóslega hlutverk lögreglustjóra og miklum mun eðlilegra að leitað yrði aðstoðar lögreglustjóra en landbrh. þó góður maður sé.

Síðan segir hér í greininni: ,,Óheimilt er að fara í þessum tilgangi inn í gripahús eða um land jarðar án leyfis ábúanda nema að fengnum dómsúrskurði.``

Ég verð nú að fagna þessu, virðulegi forseti. Ég fagna því að það sé þó að minnsta kosti virt að menn þurfi að leita eftir úrskurði dómstóla ef menn ætla að æða inn í gripahús eða um land. En að lokum, virðulegi forseti, verður allur kostnaður lagður á ábúanda eða búfjáreiganda.

Ég vil aðeins beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh. hvort ekki væri rétt að lögreglustjóri héldi sínu valdi í þessum efnum og við mundum reyna að koma þessu ákvæði í einhvern góðan skikk. Ég er sannfærður um það, þar sem ég á sæti í landbn., að við munum fara vel yfir þetta og reyna að hjálpa til við að þetta verði þannig úr garði gert að reisn sé að.