Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:02:33 (5143)

1997-04-15 14:02:33# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:02]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði áðan að þetta frv. lætur út af fyrir sig ekki mikið yfir sér, en það snertir ótrúlega margt í hinu almenna lífi í dreifðasta dreifbýli landsins. Það sem ég ætla fyrst að nefna er það sem hann kom að í lokum síns máls, þ.e. möguleikar á því að verjast gífurlega þungri beitaránauð frá grannbýlum sem er feiknarlega alvarlegt vandamál mjög víða í landinu. Ég geri ráð fyrir því að mjög margir þingmenn hafi orðið fyrir því að bændur hafi haft samband við þá af þessum ástæðum þar sem eru mjög ljót dæmi um fleiri hundruð hrossa flota, bersýnilega landlaus þar sem hann á að vera, en níðst þeim mun meira á jörðum nágrannanna. Menn geta í raun enga björg sér veitt nema reisa girðingar sem kosta stórfé og viðkomandi sveitarstjórnir hafa engin úrræði nema þau að friða eða banna lausagöngu búfjár í sveitarfélaginu öllu. Það getur verið býsna flókið mál vegna þess að stundum er sveitarfélagið samsett úr láglendi, beitilöndum og heiðarlöndum, sem kannski er ástæðulaust að banna lausagöngu stórgripa á. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að hv. landbn. taki á þessu máli og mér þykir það verra að forustumenn landbn. láti ekki sjá sig hér í salnum þegar verið er að ræða þessi mál, hv. þm. Guðni Ágústsson og hv. þm. Egill Jónsson. Vonandi verður gerð ráðstöfun til að senda þeim í pósti, ef ekki vill betur, þessa umræðu sem hér fer fram vegna þess að þeir þurfa að vita um þær ábendingar sem koma fram því að þær eru mjög þýðingarmiklar að því er þetta atriði varðar. Það eru sem sagt möguleikar til að takmarka lausagöngu búfjár í hluta sveitarfélaga, m.a. til að verja einstaka jarðir fyrir ofbeit.

Í öðru lagi ætla ég að vekja sérstaka athygli á því ákvæði sem er í 1. gr. frv. varðandi einstaklingsmerkingar búfjár. Það er gríðarlega mikið mál, satt best að segja. Í grg. á bls. 5 er komist þannig að orði, með leyfi forseta, að þetta sé gert ,,svo koma megi í veg fyrir misferli varðandi vottorðagjöf.`` Þetta er vægt til orða tekið. Ég tel satt að segja að verslun með hross hér á landi, m.a. til útlanda, sé í stórkostlegri hættu vegna þess að menn segja rangt til um uppruna þessara gripa. Það er mjög mikilvægt að koma á reglu í þessum efnum. En það þýðir ekkert að reyna að koma á reglu í þessum efnum öðruvísi en um það sé sátt við bændur. Ég hvet til þess að þetta ákvæði verði skýrt aðeins nánar í frv. sjálfu þannig að í lagatextanum komi það mjög ákveðið fram hvað átt er við, það sé ekki bara tilvísun til einhverrar greinargerðar heldur sé vitnað til þessa í lagatextanum. Mér finnst það til bóta að í grg. er vísað til þeirra reglna sem gilda um þessi mál á Evrópska efnahagssvæðinu því það er þangað sem við erum í grófum dráttum langmest að selja þessa gripi og til Ameríku, en mest til Evrópu. Þess vegna finnst mér eðlilegt að hér sé ósköp einfaldlega fylgt sömu reglum og þar. Það er hagsmunamál bænda að það sé gert og þess vegna læt ég það koma sérstaklega fram og hvet til þess að það verði tekið inn í lögin.

Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir athugasemd sem hann gerði við upphaf grg. frv. en þar stendur svo, með leyfi forseta: ,,Frumvarp þetta var samið í landbrn.`` Svo vill til að á dagskrá þessa fundar eru fleiri, fleiri mál, stjórnarfrumvörp, sem eru samin í ráðuneytunum. Það eru mál eins og t.d. frv. til háskólalaga, samið í ráðuneytinu. Það er bersýnilegt að frv. t.d. um réttindi og skyldur kennara er að verulegu leyti samið í ráðuneytinu þrátt fyrir að einhvern tíma hafi verið talað við kennara á undirbúningsstigi málsins, þannig að það fer mjög í vöxt í þessari ríkisstjórn að litið er á ráðuneytin eins og kansellíin forðum þar sem textarnir eru skrifaðir og þeir eigi að standa og ekkert samráð haft við aðila úti í bæ, ekki nokkurt. Ég fagna því að hv. 2. þm. Vesturl. vekur athygli stjórnarliðsins á þessu máli.