Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:28:32 (5149)

1997-04-15 14:28:32# 121. lþ. 102.2 fundur 523. mál: #A afréttarmálefni, fjallskil o.fl.# (örmerki) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:28]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir því frv. sem aðeins hefur komið til umræðu í fyrra dagskrármálinu en hér er mælt fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 6/1986, um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, og er á þskj. 875, 523. mál þingsins. Með frv. þessu eru lagðar til mikilvægar breytingar á gildandi afréttarlögum og eru breytingar þessar tvíþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að örmerki verði lögfest sem búfjármark og verði það rétthæsta búfjármarki, samanber nánari upptalningu í 2. gr. frv. Í annan stað er lagt til að kveðið verði skýrar á um notkun svonefndra plötumerkja en gert er í 2. mgr. 63. gr. gildandi laga og mun ég víkja nánar að því hér á eftir.

Alkunna er að búfjármörk gegna mikilvægu hlutverki hér á landi og hafa þau verið aðalsönnunargagnið um eignarrétt manna að búfé og þá fyrst og fremst sauðfé. Eyrnamörk og raunar önnur búfjármörk eru þannig merkilegt réttaratriði og reglur íslenskra laga munu hafa verið sérstæðar að ýmsu leyti. Notkun eyrnamarka er í raun nátengd hefðbundinni nýtingu beitilanda þar sem sauðfé og að nokkru leyti hross frá mörgum eigendum ganga saman að sumarlagi í víðáttumiklum heimalöndum og afréttum. Þessir þættir í íslenskum búskap hafa lítið breyst í aldanna rás og ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar þar á.

[14:30]

Á seinni árum hefur frostmerking á hrossum og nautgripum rutt sér til rúms. Nú síðast svonefnd örmerking. Frostmerki var á árinu 1985 lögfest sem búfjármark og var með þeirri breytingu verið að bregðast við nýjungum á þessu sviði líkt og nú er með frv. þessu lagt til að örmerki verði lögfest sem búfjármark til viðbótar þeim sem fyrir eru, þ.e. frostmerki, eins og áður er fram komið, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk.

Notkun örmerkja til að auðkenna búfé, einkum hross er þegar hafin hér á landi, þó svo að slík merking byggi ekki á skráðum lagareglum og hafi þannig ekki þýðingu að lögum við sönnun manna á eignarrétti að búfé. Rétt þykir að bregðast við því sérstaklega í ljósi þess að notkun örmerkja er mjög örugg aðferð til að auðkenna búfé. Í samræmi við það er lagt til að örmerki verði rétthæsta búfjármarkið. Örmerki er eins og nafnið bendir til örsmár málmhlutur, litlu stærri en títuprjónshaus og er merkinu komið fyrir undir húð gripsins, gjarnan undir makka á hestum. Merkið er síðan lesið með sérstökum skynjara. Búast má við að örmerking verði útbreidd aðferð við merkingu hrossa.

Markanefnd starfar samkvæmt 69. gr. afréttarlaga og hefur það hlutverk m.a. að fylgjast með framkvæmd laga, reglugerða og fjallskilasamþykkta, um mörk og markaskrár og vera þeim til ráðuneytis er um þau mál fjalla. Á vegum nefndarinnar og í samstarfi við félag hrossabænda og yfirdýralækni er þegar hafinn undirbúningur að nauðsynlegum breytingum á reglugerð nr. 579/1989, um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingu búfjár í því skyni að útfæra nánar reglur um gerð og notkun örmerkja og einnig skráningu þeirra. Þá þarf að kveða á um nauðsynleg samræmingaratriði er varða framkvæmd örmerkingar. Að öðrum kosti er ekki að vænta nauðsynlegs skipulags við framkvæmdina.

Eins og ég vék að í upphafi er einnig í frv. þessu kveðið skýrara á um notkun svonefndra plötumerkja heldur en gert er í núgildandi lögum. Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. afréttarlaga er skylt að hafa hreppsmerki á öllu fé. Sú lagaskylda er uppfyllt með tvennu móti. Það er með plötumerki í eyra sauðfjár og/eða brennimarki á hyrndu fé. Notkun plötumerkja er útbreidd hér á landi og er þá átt við lituð merki, mismunandi eftir varnarsvæðum. Full rök eru til að skylda bændur til að nota plötumerki á allt ásett fé. Slíkt er mjög til þess fallið að styrkja riðuvarnir og aðrar sjúkdómavarnir. Jafnframt yrði áfram til staðar sá möguleiki að brennimerkja númer og tölu á horn.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.