Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:14:32 (5161)

1997-04-15 15:14:32# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég leiði hjá mér munnsöfnuð hv. þm. en reyni að halda mig við staðreyndirnar eða koma þeim hér að. Það er alveg fjarri öllu lagi að Héraðsskógaverkefnið hafið verið komið einhvers staðar annars staðar af stað í landinu. Það var algjör nýbreytni þegar það kom til sögunnar. Þar var farið í skógrækt með öðrum hætti en nokkurn tíma áður hafði verið gert á Íslandi, af allt annarri stærðargráðu og grundvöllur verksins var með alveg nýjum hætti. Eina umtalsverða skógræktarverkefnið sem áður hafði verið í undirbúningi á Suðurlandi svo ég muni til var skógræktarátak sem menn huguðust fara í í Laugardal eða í kringum Laugarvatn á sínum tíma en fór að mestu leyti út um þúfur af ýmsum ástæðum sem ekki er ástæða til að vera að rekja hér. Það var algjörlega aðskilið mál. Héraðsskógaverkefnið var frá upphafi, eins og ég hef hér tekið fram, algjörlega sjálfstætt. Það var frá upphafi skipulagt og miðað við skógrækt á Fljótsdalshéraði, og eftir því tekur það nafn. Þetta geta margir borið um sem hér eru inni og þekkja þessa sögu.

E.t.v. gagnast Árna Johnsen svona sagnfræði á Suðurlandi. Þó efast ég stórlega um það að Sunnlendingar leggi eyru við svona fleipri eða slúðri eins og ég leyfi mér að kalla þetta, tilraun til þess að falsa sögu sem liggur algjörlega fyrir, m.a. hér í þingtíðindunum í gegnum sögu Héraðsskógaverkefnisins, sem flutt var inn hér sem þingmál sem aflað var fjárveitinga til, sem sett voru um sérstök lög á grundvelli hverra samningar voru síðan gerðir við bændur o.s.frv. Þetta veit ég að margir hv. þingmenn þekkja.

Ég nota svo tækifærið, herra forseti, af því að ég hef ekki mikinn áhuga á því að eiga frekari orðaskipti við hv. þm. Árna Johnsen, til þess að óska þessu skógræktarverkefni á Suðurlandi alls góðs og ég fagna því að það skuli vera fram komið. Vonandi verður svo víðar að þar sem skilyrði eru álitleg til skógræktar, þá verði farið í stórátak í þessum efnum í samvinnu við bændur og með þeim hætti að bændur annist framkvæmdina eins og nú hefur sýnt sig að gefa mjög góða raun á Fljótsdalshéraði. Ég fullyrði að menn munu, þó síðar verði, meta að verðleikum það myndarlega átak sem Héraðsskógverefnið er, í raun og veru fyrsta alvöruskógræktarverkefnið á Íslandi af þeirri stærðargráðu sem þar er á ferðinni.