Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:34:33 (5169)

1997-04-15 15:34:33# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Ég gerði nokkra grein fyrir því í framsöguræðu með málinu að ljóst er að verkefni af þessari stærðargráðu um skógrækt á stórum landsvæðum hafa afgerandi áhrif á vistkerfið með ýmsum breytingum og að Skógræktin hefur sínar eigin vinnureglur varðandi mat á þessum þáttum, þ.e. að gæta þess að skógrækt falli að landinu og sé hagað þannig að ásættanlegt sé, varðandi vistkerfi, sérkenni lands, mannvistarleifar og fleira í þeim dúr. Einnig er ráð fyrir því gert í þessu átaki að Skógrækt ríkisins sem verður stjórnunaraðili að verkefninu, muni hafa samráð og samstarf við sveitarstjórnir, búnaðarsambönd, Skipulag ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins um þróun verkefnisins. Allt þetta tel ég að sé bæði eðlilegt og nauðsynlegt. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er hins vegar ekki kveðið á um að framkvæmdir af þessu tagi skuli fara í mat en ráðherra getur samkvæmt annarri grein þeirra laga, mig minnir að það sé 6. gr., ákveðið að einstök verkefni af ákveðnum stærðargráðum að mati yfirvalda skuli fara í mat á umhverfisáhrifum. Slíkt hefur átt sér stað. Ég nefni t.d. verkefnið um uppgræðslu á Hólasandi svo eitthvað sé tilgreint. Ég held að þetta verði að skoðast ofurlítið með eðli framkvæmdarinnar í huga. Ef hér um að ræða framkvæmdir á bújörðum sem eru á afmörkuðum svæðum en ná ekki yfir stór landsvæði sem mælast í tugum ferkílómetra eða þaðan af stærri landsvæði, þá er mat á umhverfisáhrifum kannski ástæðulaust miðað við það að málum sé framfylgt eins og ég hef hér ítrekað úr framsöguræðu minni. En sé um að ræða breytingar á stórum landsvæðum sem lögð eru undir í heilu lagi, þá kemur hitt fremur til álita.