Stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 16:11:00 (5174)

1997-04-15 16:11:00# 121. lþ. 102.4 fundur 377. mál: #A stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:11]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja við hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, sem er einn af flm. tillögunnar, að eins og ég reyndar nefndi áðan í ræðu minni þá höfum við tekið það mál til umræðu. Í fyrsta lagi held ég að það hafi komið nokkuð fram í nefndinni sem fjallaði um verkaskiptingu milli skólanna, þó að hún væri kannski bundin meira við skólana sjálfa en hefði getað verið. Það hefðu auðvitað fleiri aðilar getað komið þar að og fleiri sjónarmið en það viðhorf kom mjög skýrt fram að hafa skólana áfram undir landbrn. Ég tók það mál til sérstakrar umfjöllunar og umræðu þegar ég kom í ráðuneytið og ræddi bæði við aðila innan landbúnaðarins og forsvarsmenn þessara skóla um hvort það sjónarmið ætti einhvern hljómgrunn eða menn teldu að það ætti við rök að styðjast að færa skólana til innan stjórnsýslunnar. Niðurstaðan varð sú að hafa skólana áfram undir landbrn. og gera ekki breytingar á því. Ég sagði það áðan, og get endurtekið að eftir þær umræður og eftir að hafa hlýtt á þetta viðhorf féllst ég á þá skoðun þannig að það er mín afstaða.

Hæstv. forseti. Ef ég má segja það, þó að það sé kannski ekki í andsvari við þennan hv. þm., þá lýsti ég því yfir áðan að ég væri mjög sammála ýmsu því sem væri í anda þessarar tillögu og teldi að verið væri að vinna mjög margt af því sem hér kemur fram einmitt varðandi samstarf við aðra skóla og aðrar skólastofnanir, varðandi blindgötumálið, ef ég má orða það svo bara í einu orði, og fleiri þætti sem hér hafa verið ræddir. Og ég sagði að ég hefði efasemdir um að þörf væri á eða nauðsynlegt að skipa nýja nefnd. Ég lagðist í raun ekki gegn því og mér dettur ekki í hug að taka vald af Alþingi í þessu efni, það er auðvitað þingsins sjálfs að ákveða það.